Áhrifamikil örlagasaga mæðgna

Morðin í Dillonshúsi

Mörg okkar sem sniglast hafa lengi í kringum bókaskápa vina og ættingja hafa líklega á einhverjum tímapunkti rekist á bókaflokkinn Öldin okkar. Hver bók í þeim bókaflokki fjallar um ýmsa atburði sem gerðust í íslensku samfélagi yfir ákveðinn tíma. Upplýsingar um atburðina eru settar fram í formi nútíma dagblaðs. Í þriðja bindi bókaflokksins má finna umfjöllun um þá atburði sem gerðust í Dillonshúsi og bókin Morðin í Dillonshúsi eftir Sigríði Dúu Goldsworthy fjallar um. Það var árið 1953 eða fyrir 70 árum síðan sem sá hræðilegi harmleikur gerðist að heimilisfaðir varð eiginkonu sinni og þremur ungum börnum að bana áður en hann tók svo sitt eigið líf. Þeir atburðir gerðust í áðurnefndu Dillonshúsi við Suðurgötu 2 í Reykjavík. Það hús stendur nú á Árbæjarsafni. Fyrir utan þessa litlu umfjöllun í Öldin okkar á sínum tíma þá hafa einhverjar blaðagreinar verið skrifaðar um málið en aldrei hefur það fengið jafn ítarlega og góða umfjöllun eins og í bók Sigríðar. 

Bókin er fjölskyldusaga eiginkonunnar, Huldu Karenar Larsen og móður hennar Sigríðar Ögmundsdóttur. Bókin hefst í kringum árið 1918 á sögu Sigríðar og endar eftir harmleikinn í Dillonshúsi. Við fylgjumst með Sigríði feta spor nýs lífs í Reykjavík þar sem hún starfar sem saumakona og kynnist manni að nafni Kaj Larsen sem er faðir Huldu Karenar. Þau ætluðu sér að giftast en Kaj svíkur hana og stendur Sigríður þá eftir sem einstæð móðir, sem var langt frá því að vera einfalt á þeim tíma. Saga Sigríðar er átakanleg saga konu sem upplifir ástarsorg of oft, fátækt og neyð en jafnframt saga stoltar og sterkrar konu sem býr yfir ótrúlegri seiglu þrátt fyrir þau áföll sem á henni dynja. Hún þurfti að láta tvö börn frá sér áður en hún kynntist góðum manni og fann með honum hamingjuna. Manni sem kom Huldu í föðurstað og flutti með þær til Siglufjarðar þar sem hann átti fjölskyldu. Þar byggðu þau sér hús og eignuðust fleiri börn saman.

Hulda Karen og Sigurður 

Hulda Karen ólst því að mestu leyti upp á Siglufirði og það var þar sem hún kynntist eiginmanni sínum, Sigurði Magnússyni. Sigurður var við störf á Siglufirði sem hlaupamaður á síldar plönunum er þau kynntust árið 1938 en fór þá um haustið suður til Reykjavíkur þar sem hann hafði fengið starf í Laugavegsapóteki meðfram námi sínu í Lyfjafræði. Sigurður átti eftir að fara erlendis í nám en að því loknu flutti Hulda Karen suður til Reykjavíkur til hans. Sigurður var af “fínum” ættum en faðir hans var Landsbankastjóri og afi hans í móðurætt var síðasti landshöfðingi Íslands, Magnús Stephensen. 

Hulda og Sigurður bjuggu fyrst um sinn í sama húsi og faðir Sigurðar en fluttu svo í húsið að Suðurgötu 2. Þau áttu eftir að eignast þrjú börn saman og Ásdís, systir Huldu bjó hjá þeim. Allt gekk vel til að byrja með en í kringum fæðingu yngsta barnsins byrjaði að bera á andlegum veikindum Sigurðar. Hann byrjar að heyra raddir og var ekki eins og hann átti að sér að vera. Foreldrar Huldu fengu áhyggjur og Sigríður vildi gjarnan flytja til Reykjavíkur og úr verður að þau hjónin fara í það ferli að selja húsið sitt á Siglufirði og enda á að flytja til Ytri-Njarðvíkur. En veikindi Sigurðar ágerðust, svo mikið að læknar gripu inn í. En eins og við vitum þá gerðu þeir ekki nóg. 

Það er í raun áhugavert en jafnframt sorglegt og óþolandi að skoða hversu illa var brugðist við aðstæðum Huldu Karenar og barnanna í veikindum Sigurðar. Þeim litlu viðbrögðum sem gerð voru fylgdi skömm og þöggun. Það þarf vissulega að hafa í huga hverslags samfélag Reykjavík var á þessum árum. Það skýrir viðbrögðin en afsakar þau þó svo sannarlega ekki. Sigurður var af fínum ættum og andleg veikindi voru ekki eitthvað sem fínt fólk þjáðist af. Það eitthvað sem hinn fátæki almúgi glímdi við. En fyrir utan það þá þarf líka að hafa í huga að þekking á andlegum veikindum var ekki eins mikil þá og hún er nú. Svo væg voru viðbrögðin við veikindum Sigurðar hann fékk að starfa áfram sem lyfjafræðingur. Starf hans gaf honum auðveldan aðgang að eitri, sem hann nýtti við morðin á eignkonu sinni og börnum og sjálfsvígi sínu þann 26. febrúar 1953.

Mikilvæg og merkileg saga

Höfundur bókarinnar Sigríður Dúa, er ömmubarn Sigríðar Ögmundsdóttur og systurdóttir Huldu Karenar. Hún byggir bók sína á persónulegum frásögnum og bréfum fjölskyldumeðlima. Hún skrifar bókina því bæði amma hennar og aðrir fjölskyldumeðlimir hvöttu hana til þess að segja sögu þeirra og Huldu Karenar. Mér þykir Sigríði Dúu hafa tekist vel til við að gera sögu þeirra góð skil. Það er átakanlegt að lesa um þennan harmleik, allan aðdragandann að honum og svo um hann sjálfan. Þá sérstaklega hvernig samfélagið sjálft brást Huldu Karen og börnum hennar en einnig Sigurði sjálfum. Þó alls ekkert afsaki gjörðir hans þá er samt svo augljóst að hann er sjálfur fórnarlamb veikinda sinna og samfélags sem var ekki í stakk búið til að hjálpa. Þöggun einkenndi allan aðdraganda að þessum harmleik. Mér þótti það svo sérstakt og sýnir hversu sterk Sigríður var að aldrei hataði hún Sigurð fyrir gjörðir hans, hún horfði ávallt á hann sem veikan mann.

Bókin Morðin í Dillonshúsi er bók sem þarf að lesa. Það þarf að lesa hana til að fá innsýn inn í íslenskan veruleika og stöðu aðstandenda þeirra sem glímdu við andleg veikindi en fyrst og fremst er mikilvægt að lesa hana til að kynnast Huldu Karen, móður hennar Sigríði Ögmundsdóttur og allri fjölskyldunni. Það er mikilvægt að Huldu Karenar sé minnst fyrir meira en það sem gerðist þennan örlagaríka dag fyrir 70 árum síðan.

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...