Kareem er á leiðinni á Ísafjörð eftir að hafa verið á flótta mjög lengi. Hann og fjölskyldan hans hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi og heimili á Ísafirði. Á leiðinni verður uppþot í flugvélinni sem endar með því að bangsi systur hans flýgur út um gluggann á vélinni og lendir beint á hausnum á Auði, sem er einmitt á leiðinni á flugvöllinn til að taka á móti nýja bekkjarfélaga sínum. Hún hefur verið valin í móttökunefndina. Toggi var líka valinn í móttökunefndina, en hann er ekki eins spenntur fyrir því og Auður.

Þannig hefst bókin Lending eftir Hjalta Halldórsson en hann hefur oftar en ekki sótt sér efnivið í barnabækur sínar úr Íslendingasögunum, enda annálaður fyrir áhuga sinn á þeim. Í Lendingu sækur hann innblásutur í Gíslasögu Súrssonar. Hjalti heldur meðal annars úti hlaðvarpinu Ormstungur í samvinnu við Odd Inga Guðmundsson.

Erfið málefni en einföld bók

Sagan fjallar um fordóma og fólk á flótta. Kareem finnst erfitt að flytja í nýtt land, frá Sýrlandi þar sem allt var hlýtt. Ferðalagið hefur verið langt og erfitt. Fyrir alla fjölskylduna og svo endar það á Vestfjörðum Íslands. Á Ísafirði er ískalt og allt í snjó og hann er svolítið efins með þetta. En hann er líka uppgefinn eftir hræðilegt ferðalag, flótta.

Honum er vel tekið á Ísafirði og er fljótur að eignast vini innan bekkjarins. En Togga virðist í nöp við hann. Sjálfur kom Toggi inn í bekkinn aðeins nokkrum árum fyrr og hefur átt erfitt með að eignast vini. Heimilisaðstæður Togga eru slæmar og sorg hvílir yfir heimilinu sem hefur gert heimilismenn reiða. Reiðin brýst út sem hatur gagnvart fólki á flótta, sem pabbi Togga segir að fái allt upp í hendurnar. Auður aftur á móti er dóttir manns sem kom til Íslands sem maður á flótta og hefur því allt annað viðhorf gagnvart Kareem en Toggi. Inn í þennan þríhyrning fléttast svo Ásgerður sem leynir á sér. Svo eru það peningarnir í krukkunni, sem eiga eftir að verða mikill örlagavaldur.

Hjalti hefur skrifað einfalda bók um mjög flókin málefni. Vandamálin sem krakkarnir glíma við eru stór og erfið. Fullorðna fólkið bregst ekki alltaf rétt við og sálrænir kvillar valda líkamlegum einkennum og vanlíðan. Við viljum öll að okkur sé tekið eins og við erum. Við viljum öll að réttindi okkar séu virt og að við stöndum jöfn. En þannig er það ekki alltaf og Hjalti setur það vel fram í bókinni, hvort sem hann fjallar um fólk á flótta eða innfædda Íslendinga með einhverjar hamlanir. 

Í nálægð við markhópinn

Hjalti er kennari og því í mikilli nálægð við markhóp bókarinnar alla daga og það sést á málfari persóna hans. Krakkarnir tala eins og krakkar gera í dag. Einnig hefur hann gott aðgengi að hreinskilnustu og vægðarlausustu gagnrýnendunum áður en bókin kemur út, börn lesa yfir fyrir hann og koma með punkta um það sem betur mætti fara. Bókin ætti því að hitta í mark hjá markhópnum sem er börn á aldrinum 8-15 ára. 

Í bókinni Lending eru málefni líðandi stundar í brennidepli. Sagan er spennandi og svolítið sorgleg en skrifuð á tungumáli sem krakkar eiga auðvelt með að ganga beint inn í. 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...