Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, sendi frá sér bókina Andlit til sýnis – Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu. Í lýsingu bókarinnar segir:

Í bók Kristínar Loftsdóttur mannfræðings, Andlit til sýnis, er lítið safn á Kanaríeyjum í brennidepli en þar má finna  brjóstafsteypur af fólki frá ólíkum stöðum heimsins sem gerðar voru á nítjándu öld. Um er að ræða niðurstöður úr rannsókn Kristínar sem nær til Kanaríeyja, meginlands Spánar og Frakklands og snýr að þverþjóðlegum tengslum sem urðu til í gegnum kynþáttahugmyndir. Brjóstmyndirnar endurspegla þannig kynþáttahyggju og rányrkju nýlenduvelda fyrri tíma og áhuga Evrópubúa að stilla upp líkömum til fróðleiks og skemmtunar. Þar á meðal eru brjóstmyndir sjö Íslendinga. Bókin segir sögu þeirra og nokkurra annarra einstaklinga í lifandi og ríkulega myndskreyttri frásögn.

Safn í sólarlöndum

Ég les ekki oft fræðibækur mér til gamans en í árdaga háskólanáms míns, áður en ég valdi að ganga veg sagnfræðinnar, þá velti ég því mikið fyrir mér hvort ég ætti að reyna mig við mannfræðina. Þessi bók sótti því á mig og bað einfaldlega um að vera lesin.

Kristín var stödd á Kanaríeyjum ásamt systur sinni, meðal annars til að sinna fræðistörfum, þegar leiðsögumaður þeirra dró þær inn á Kanarísafnið. Safnið er tileinkað frumbyggjum eyjanna, sem voru myrtir eða hraktir í burtu þegar Evrópubúar gerðu eyjarnar að nýlendu sinni. Þessi saga er þekkt frá Norður-Ameríku og öðrum stöðum þar sem evrópskir landvinningamenn stigu niður fæti. En á þessu safni leyndist líka herbergi fullt af brjóstmyndum frá nýlendum Evrópuþjóða, allt frá Indónesíu til Ameríku. Í þessum hluta safnsins mátti líta beinagrindur frumbyggja frá öðrum stöðum á jörðinni og þessar brjóstmyndir, sem sátu hátt uppi á skápunum. Alls kyns andlit úr fortíðinni störðu á móti safngestum. Flestar brjóstmyndanna voru gerðar á nítjándu öld. Hér mátti því líta tvö hundruð ára gömul andlit. Strax við lestur á inngangi bókarinnar er forvitni lesandas vakin. Maður þráir að vita meira um brjóstmyndirnar. Og fólkið á bak við þær.

Ferðalag um fortíðina

Í inngangi bókarinnar er Kristín svolítið á persónulegu nótunum og nær að draga lesandann djúpt inn í forvitni og fróðleiksfýsn. Hún segir lesanda frá upphafi rannsóknarinnar. Svo hefst ferðalag um söguna og tilurð brjóstmyndanna. Og eins og oft þegar fræðimenn skrifa bækur, þá er ekki hægt að segja frá í stuttu máli. Ekkert sprettur upp úr tóminu og allt tengist og hefur marga þræði. Kristín rekur þræði kynþáttahyggju í mótun, upphaf furðustofa, höfuðlagsrannsókna og setur allar upplýsingar fram á einstaklega aðgengilegan hátt. Leikmaður getur vel skilið það sem Kristín er að segja, og skilið það vel. Allt er þetta nauðsynlegur undirbúningur fyrir lesturinn um brjóstmyndirnar sjálfar. Það má því segja að þetta sé nokkurs konar kynning á mannfræði og þróun hennar í gegnum árhundruðin.

Í síðasta hluta bókarinnar tekur Kristín fyrir nokkrar brjóstmyndir sem hún velur af handahófi. Það er eitthvað við það að sjá andlit manneskju í návígi. Ekki síst þegar hugsað er til þess að þessi ásjóna hvarf af yfirborði jarðar fyrir tvö hundruð árum. Í bókinni komast brjóstmyndirnar vel til skila, myndirnar eru vandaðar og lesandinn fer að þekkja persónurnar á bak við þær. Hægt er að greina svip manneskjunnar og jafnvel hvaða tilfinningar hún hafði gagnvart því að láta taka af sér afsteypu. Mann langar að vita meira. Kristín lagðist í ítarlega rannsóknavinnu við að leita upplýsinga og heimilda um líf og örlög fólksins sem við getum enn virt fyrir okkur á söfnum í París og á Kanaríeyjum. Jafnframt fer hún svolítið út fyrir fræðisvið sitt, en það ber þó ekki á því í textanum.

Ísland þá og nú

Kristín nær að svala forvitni lesandans fyrir upplýsingum um manneskjunar á bak við brjóstmyndirnar. Lesandinn fær örsnöggt innlit í líf þeirra, samhengið og tímabilið sem hver brjóstmynd á rætur í. Á bak við brjóstmyndirnar er saga forvitni og þróunar, landkönnunar en líka saga grimmdar, kynþáttayggju og fordóma. Textinn er einlægur og aðgengilegur, bókin er listilega vel uppsett og mjög vel myndlýst með myndum hvaðanæva að úr heiminum. Bæði ljósmyndum, málverkum, teikningum og auglýsingaplakötum. Allt stuðlar þetta að því að lesandi á enn auðveldara með að ná utanum efni bókarinnar.

Á meðal þeirra brjóstmynda sem Kristín fjallar um í bókinni eru nokkrar af Íslendingum. Einnig er hægt að finna brjóstmyndir af Grænlendingum í safninu í viðbót við afsteypur af fólki frá enn fjarlægari slóðum. Margir kunna að hvá og spyrja sig af hverju Íslendingar séu á meðal brjóstmynda af frumbyggjum frá fjarlægum eyjum. En það er ekkert skrýtið þegar stöðu Íslands í heiminum á þeim tíma sem brjóstmyndirnar voru skapaðar er skoðuð. Ísland var nýlenda Dana og Íslendingar þóttu sérstakur og forvitnilegur þjóðflokkur. Kristín nær að setja Ísland í samhengi við nýlendustefnur og kynþáttahyggju.  

Andlit til sýnis er aðgengileg fræðibók þar sem höfundur leiðir lesandann styrkri hendi í gegnum sögu kynþáttahyggju, höfuðlagsrannsókna og ekki síst um örlög einstaklinganna sem búa að baki brjóstmyndanna.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...