Er einhver jólagjöf betri en góð bók? Því trúum við í ritstjórn Lestrarklefans ekki! Á hverju ári skiptum við með okkur jólabókaflóðinu og reynum eftir önnum að fjalla um áhugaverðar bækur hér á síðunni. Það eru samt sumar bækur sem við tímum ekki að lesa í aðdraganda jóla. Okkur langar til að opna þær á aðfangadagskvöld eftir dýrindis máltíð og vaka svo frameftir við lestur, tiltekt má bíða til næsta dags, tja eða þarnæsta.

Það eru enn tveir dagar til jóla svo við vonumst líka til að gefa ykkur góðar hugmyndir fyrir bækur í jólapakka með þessum lista, er ekki alltaf best að eiga eins og einn pakka eftir á Þorláksmessu til að eiga erindi í bæinn? Það er líka alls ekki bannað að kaupa bók, pakka henni inn og gefa svo sjálfum sér, þú átt skilið góða jólabók!

Óskalisti Sæunnar

Duft eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur er önnur skáldsaga höfundarins. Bergþóra sýndi magnaða hæfileika með fyrstu bók sinni Svínshöfuð og því bíð ég í mikilli eftirvæntingu eftir að lesa Duft sem hefur hlotið alveg glimrandi dóma. Bókin fjallar um líf Veróniku allt frá fæðingu til ákveðinna tímamóta í hennar lífi á fullorðinsaldri. Hún er alin upp við mikla útlitsdýrkun sem dóttir eigenda líkamsræktarveldis og ratar inn í sértrúarsöfnuð. Hljómar æsispennandi allt saman!
Næst á lista hjá mér er Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur. Þessi bók hefur sömuleiðis hlotið lof meðal gagnrýnenda og er ferðasaga en ég hef almennt gaman af þeim. Elfur hatar að ferðast. Birgir, maðurinn hennar, er gjörsamlega framtaks- og frumkvæðislaus. En þó er þetta par til þrettán ára á akstursferðalagi um Evrópu, og hvorugt virðist almennilega vita hvers vegna. Þegar Birgir hverfur svo sporlaust í krummaskuðinu Armeló renna tvær grímur á Elfi. Þessa ferð langar mig í!
 Snjór í paradís eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er nýtt smásagnasafn. Ég er mjög hrifin af Ólafi Jóhanni og hreifst mjög af Snertingu. Smásögur eru vanmetið form og kannski hin fullkomni jólalestur milli mjög mikið af heitu súkkulaði og piparkökuáti. Meginstef bókarinnar eru nánustu sambönd fólks; hjóna, foreldra og barna, elskhuga og vina; og hvernig hið leyndasta í lífi sérhvers manns, það sem hugur einn veit, getur breytt öllu komi það upp á yfirborðið.

Óskalisti Rebekku Sifjar

Nú hefur það verið þannig undanfarin ár að ég er búin að lesa hálft jólabókaflóðið áður en jólaklukkurnar klingja klukkan sex á aðfangadag! Vegna þessa hef ég þurft að spara ákveðnar bækur sem eru þá aðeins ætlaðar jólunum sjálfum. Bækur Auðar Övu hafa ávallt verið sparibækur sem ég geymi til jóla og DJ Bambi er ekki þar undanskilin. Hún er því efst á óskalistanum mínum þessi jól. Til gamans má geta að ég skrifaði heila B.A. ritgerð í bókmenntafræði um skáldsögu eftir Auði Övu. Ég mæli hinsvegar ekki með lestri á henni um jólin. Ritgerðinni það er að segja.

Steinunn Sigurðardóttir er ein af okkar bestu rithöfundum og hefur nýjasta bók hennar, Ból, fengið gífurlega mikið lof og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ég er komin með bókina í hendurnar og byrjaði að lesa en fann að þetta væri bók sem ég vildi geyma fyrir hátíðirnar. Stíll Steinunnar er svo einstakur, setningarnar eru algjörir konfektmolar. Þess vegna vil ég einmitt lesa hana með jólaöl og konfekt mér við hönd. 

Ég hef verið dyggur lesandi Sigríðar Hagalín frá því Eyland kom út 2016 og finnst hún virkilega áhugaverður höfundur. Ég hef lesið allar hennar bækur en viðurkenni að ég lagði Hamingja þessa heims frá mér í fyrra þegar ég var rétt svo hálfnuð. Þar var umfjöllunarefnið ekki að heilla mig nóg.

En nú er Sigríður aftur komin á slóðir vísindaskáldsögunnar og dystópíunnar, líkt og í hinum bókunum hennar, og er ég því mjög spennt fyrir að lesa Deus sem fyrst!

Óskalisti Katrínar Lilju

Eftir að Sjöfn skrifaði frábæran pistil um hryllingsbókmenntir og nefndi sérstaklega sögur Edgar Allan Poe hefur mig dreymt um að lesa sögurnar hans. Dimma gaf út gamlar og nýjar þýðingar af sögunum hans fyrir jólin í einkar eigulegri innbundinni bók. Ég enda líklega á að gefa mér hana sjálf. 

Sögulegar skáldsögur eiga alltaf upp á borð hjá mér og hástökkvari þessa flóðs, Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl, þykir mér sérlega forvitnilegur. Ekki eingöngu er hún söguleg, heldur er hún víst líka bráðfyndin og skemmtileg. Svo ég bíð spennt eftir að komast yfir hana. 

Ég las fyrri bók Vilborgar Davíðsdóttur um Þorgerði Þorsteinsdóttur, Undir Yggdrasil, og hef beðið eftir framhaldinu. Land næturinnar er að sjálfsögðu söguleg skáldsaga eins og þær gerast bestar, þar sem lesandinn mun fylgja Þorgerði í Austurveg. Gerist það betra? Ég hlakka til að vita meira um örlög Þorgerðar. 

Óskalisti Díönu Sjafnar

Red at the bone

Ég er mjög spennt fyrir bók Auðar Aðalsteinsdóttur um hvernig loftslagsvá, hamfarahlýnun og breyttur veruleiki birtist okkur í samtímabókmenntum og myndlist. Verkið kitlar taugar bókmenntafræðingsins í mér þar sem það hlýtur að varpa nýju ljósi á bókmenntir samtímans, og svo einnig togar þetta mikið í áhuga minn um umhverfisvernd. 

Sour Candy

Það er erfitt að velja einungis þrjár bækur en þar sem ég er nú þegar að lesa Duft að þá er hitt æsispennandi D-ið næst á lista. Það er auðvitað Deus eftir Sigríði Hagalín en ég hef lesið allar bækurnar eftir hana og þær hafa langoftast haldið mér í heljargreipum.  En Sigríður Hagalín er fær penni sem nær hverju sinni að fanga umræðu samtímans einstaklega vel. Hér tekst hún á við gervigreind og ég er spennt að sjá hvaða ljósi hún varpar á þá hugmyndafræði. 

The yellow wallpaper

Nú játa ég syndir mínar og viðurkenni að ég hef aldrei prófað að lesa skáldskap Gyrðis Elíassonar. Umræður víðsvegar eru að segja mér að það sé algjör vitleysa hjá mér og mig langar að bæta úr því og ég hef heyrt mjög góða hluti um þessar ljóðabækur hans frá mjög traustum heimildum. Ég elska líka að eiga allar ljóðabækur sem mér áskotnast heima hjá mér uppi í hillu. Það er alltaf hægt að lesa þær aftur og aftur, ef góðar eru. 

Óskalisti Lilju

Einar Kárason hefur yfirleitt ekki brugðist mér, þó hann hafi líka oft reitt mig afskaplega mikið til reiði. Húmorinn hans er óborganlegur, persónurnar hans ógleymanlegar og samtölin fá mig til að grenja úr hlátri. Þessa bók geymi ég til jóla og hlakka til að leyfa hlátrinum að frussast út eftir nokkur þunglamaleg ár með stórslysum og sögulegum hörmungum Einars. 

Það er ansi langt síðan ég fékk bók í hendurnar eftir Einar Má Guðmundsson. Ég man að ég las Riddara hringstigans og líkaði vel. Ég man líka eftir Englum alheimsins enda gleymist hún varla þeim sem lesið hafa. Mér finnst líka kápan áhugaverð og ég á erfitt með að ákveða hvort mér finnst hún skemmtilega skrýtin eða hálfgerð hörmung. En litlu sjávarþorpin hafa verið hugleikin íslensku skáldunum og ég hlakka til að sjá hvernig Einar spilar úr því umhverfi. 

Serótónínendurupptökuhemlar er lítil bók með langan titil. Höfundinn Friðgeir Einarsson hef ég ekki kynnt mér en það er kominn tími til að stíga út fyrir rammann og kynna sér eitthvað nýtt. Óvissuferðir hafa svo sem hingað til ekki heillað mig en ég ætla að gefa þessu ferðalagi tækifæri og læt ykkur kannski vita seinna hvernig þessi lestur þróaðist.  Ég veit þó það að þetta er ekki söguleg skáldsaga, hún gerist ekki í litlu þorpi í útnára og hún gerist ekki á 19. öld. Þetta finnst mér strax vera meðmæli og er orðin svolítið spennt. 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.