Kunnugleikinn sjálfur hafði allan tímann verið blekking

Elfur hatar að ferðast. Birgir, maðurinn hennar, er gjörsamlega framtaks- og frumkvæðislaus. En þó er þetta par til þrettán ára á akstursferðalagi um Evrópu, og hvorugt virðist almennilega vita hvers vegna. Þegar Birgir hverfur svo sporlaust í krummaskuðinu Armeló renna tvær grímur á Elfi. Er maðurinn hennar í alvöru fær um að gera eitthvað sem kemur henni á óvart, eða eru vafasöm utanaðkomandi öfl í spilinu?

 „Þessi formlausa eilífð“

Þórdís Helgadóttir hefur áður gefið út smásagnasafn, ljóð, skrifað fyrir leikhús og gefið út með Svikaskáldum. Strax á fyrstu síðu Armeló er ljóst að Þórdís er fær höfundur með gott vald á tungumálinu og skemmtilegan stíl. Lýsingar hennar eru ljóslifandi, og á köflum ægilega fyndnar, án þess þó að verða tilgerðarlegar. Stíllinn er hrár og blátt áfram í bland við ljóðrænar myndlíkingar og hversdagsleika hjúpaðan ýmist töfrandi, raunsærri eða súrrealískri hulu. Bústnar sveitakýr renna ofan í grasið eins og súkkulaðiís, vasaljós eru með mjóa geislafingur og minningar renna saman við draumana og skolast úr þegar morguninn sturtar þeim niður.

„Engin getur framar týnst eða horfið“

Það er, eins og svo oft, erfitt að ætla sér að fjalla um söguna án þess að segja of mikið, en hún er heldur ekki ein saga, ein tegund af bók, heldur samtíningur. Hún er ferðasaga, ástarsaga, spennusaga, þroskasaga og heimspekileg pæling. Hún er, meðal annars, rosalega góð auglýsing fyrir Prag, borg sem ég hef aldrei farið til en tel mig nú verða að kíkja á eftir fallegar og djúpar lýsingar höfundar. Eins og margar íslenskar bækur er Armeló líka saga af þjóðarsál, af þróun landsins okkar frá krummaskuði sem enginn heimsækir eða veit hvar er,  yfir í pínulitla heimsborg með uppblásið egó. Þetta blandast síðan fallega og vel saman við þróun sálarlífs Elfar, við endurlit hennar í fortíðina, við núverandi Elfi og þáverandi og hvernig sjálfið þróast, breytist og tekst á við óvæntar uppákomur.

„Það er svo auðvelt að eyða öllum sínum tíma í að lifa“

Eitt af áhugaverðari þemum bókarinnar er barátta Elfar við eigin ímynd á tímum samfélagsmiðla, snjallsíma og almenns samanburðar. Hún er á fertugsaldri og hefur að mestu misst samband við vini og fjölskyldu, er í vinnu sem hún virðist ekki sérlega áhugasöm um og veit ekki hvort hana langar að eignast börn eða yfir höfuð vera gift manninum sínum. Þó er hún, að eigin sögn, aðgerðarleysið uppmálað, og dettur ekki í hug að reyna að breyta lífi sínu, sem hún er greinilega ekki ánægð með, nema með því að reyna að breytast í annað fólk, aðrar týpur, sem hún sér á samfélagsmiðlum. Þannig leggst Elfur ekki í sanna sjálfsvinnu heldur lítur á sem svo að yfirbragðið sé það eina sem skipti máli og hvernig maður virðist vera í augum annarra. Höfundur finnur þráð sársauka þess sem langar að passa inn, er hugsanlega haldinn þunglyndi eða kvíða og um leið orkuleysi og festir sig alltaf meira og meira í hversdagsleika sem hentar ekki og finnst hann fastur. 

„Æðruleysi og uppgjöf eru eineggja tvíburar“

Á heildina litið er Armeló góð bók. Hún er vel skrifuð, persónur eru að mestu áhugaverðar og lifandi og lýsingar snilldarlega gerðar. Þó finnst mér verða að nefna að í síðasta þriðjungi bókar fer hún í átt sem ég kann ekki að meta og finnst taka frá verkinu í heild. Endirinn er góður, byrjunin er hrífandi, ferðalag Elfar um sjálfa sig er innblásið og sterkt, en þessi bútur sem truflar mig, gerir það svo sterkt  að mér finnst hann taka rosalega frá verkinu. Áhrif hans leka svo áfram inn í enda bókar, sem er, að mínu mati, mjög sterkur, en sökum þessa óvænta stílbragðs næ ég ekki að njóta hans sem skyldi. Ég hefði, ef ritstjóri og höfundur hefðu klippt á þennan bút, þrengt hann eða fært til, og treyst lesandanum til að taka sjálfur við með eigin ímyndunarafli, hiklaust álíta þetta með betri bókum ársins. Að lesa hana var dásamlegt, og mig dreymdi hana jafnvel á nóttunni. Ég beið spennt eftir að stinga börnunum í rúmið til að geta lesið meira. Mér finnst leiðinlegt að draga fram það neikvæða í annars mjög góðri bók, en held að það þurfi þó til að gera verkinu fullkomlega góð skil. Ég er rosalega spennt að lesa meira eftir höfundinn og mæli samt sem áður hiklaust með Armeló, sérstaklega ef mann vantar bók til að taka með sér í ferðalag.  

Lestu þetta næst

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...