Lesa bækur á ensku og safna í ferðasjóð

Bókaklúbburinn Aragötu 14
Bókaklúbburinn Aragata 14 var stofnaður árið 2012 og er því orðin rúmlega áratuga gamall. 

Í hópnum eru níu konur sem snemma á tíunda áratug síðustu aldar lögðu allar stund á nám í ensku við HÍ. Það eru þær Aðalheiður Jónsdóttir, Dröfn Guðmundsdóttir, Guðlaug (Laulau) Birgisdóttir, Guðný Ásta Ragnarsdóttir, Guðný Pálsdóttir, Hlín Hjartar Magnúsdóttir, Ingibjörg Ágústsdóttir, Sif Sigfúsdóttir og Sólrún Inga Ólafsdóttir. Á þeim árum var enskuskor til húsa í Aragötu 14 sem var að sögn Ingibjargar sannarlega heimilislegt og notalegt og mynduðust góð tengsl milli nemenda og kennara. Þess vegna er bókaklúbburinn kenndur við þann stað.

Viktoríukaka í afmælispartíi

Að frumkvæði Sifjar Sigfúsdóttur sem þá starfaði við HÍ (og Ingibjargar sem var nýlega byrjuð að starfa þar líka) stóðu þær fyrir hitting við gamlar vinkonur sem voru með þeim í náminu. Að sögn Ingibjargar langaði þeim að endurnýja kynnin við þennan góða hóp. Fljótlega þróaðist þetta yfir í bókaklúbb.

Af því að þær voru allar í ensku lesa þær einungis bækur á ensku (þess vegna var að sjálfsögðu bökuð Viktoríukaka (Victoria sponge) í tilefni af tíu ára afmælinu 2022). Við val á bókum leita þær svolítið í tilnefningalista (t.d. Man Booker) en hafa samt lesið allskonar bækur, svo sem myndasögu, bók tengda bíómynd, krimma o.fl. Þær hafa einnig valið ljóð til að lesa fyrir hvora aðra þegar hópurinn hittist. Þær leita líka í ákveðna höfunda.

Safna í ferðasjóð

Félagsskapurinn er að sögn Ingibjargar það sem allra frábærast er við bókaklúbbinn.

 Það er alltaf mikið fjör þegar þær hittast þó við séum sumar mjög ólíkar erum við góðar vinkonur og við náum allar saman yfir lestri góðra bóka. Við borðum yfirleitt saman, hittumst oftast í heimahúsi en stundum á veitingastað. Við söfnum líka í ferðasjóð og erum þegar búnar að fara í eina mjög skemmtilega ferð erlendis, til Brighton sumarið 2022 (ferð sem hafði frestast um tvö ár vegna Covid). Við stefnum svo á næstu ferð í júní 2024.

Þær eru að sögn Ingibjargar sem betur fer ekki alltaf sammála, enda skapar það líflegri umræður ef allar eru ekki á sama máli – þá er mikið fjör! Stundum eru líka ein eða tvær í hópnum sem hafa allt aðra skoðun en hinar og koma með mjög áhugaverða punkta varðandi bókina sem hinar hafa ekki hugsað útí .

The Icelandic Patrick Gale Fan Club

Það hafa kannski frekar verið höfundar en bækur sem hafa staðið upp úr hjá klúbbnum. Þær hafa t.d. lesið nokkrar bækur eftir Ian McEwan sem er í miklu uppáhaldi. Annar uppáhaldshöfundur er Patrick Gale (þær kalla sig öðru nafni “The Iceland Patrick Gale Fan Club”) en hluti klúbbsins varð einmitt þeirrar ánægju aðnjótandi að hitta hann þegar hann heimsótti Ísland til að taka þátt í Iceland Writers Retreat vorið 2022. Þeim finnst öllum bókin hans A Place Called Winter algjörlega frábær.

Bækur hafa kannski ekki beint klofið hópinn en mállýska, málnotkun og hreimur á Audible hljóðbókum (þar sem margar okkar hlusta mikið á bækur) hafa stundum klofið hópinn í tvennt varðandi hvort okkur líkar við bækur eða ekki.

Þær eru nýbúnar að taka fyrir bókina The Bricks that Built the Houses eftir Kae Tempest (bók sem þær voru hrifnar af og mæla hiklaust með) og ætla næst að lesa bókina Yellowface eftir R. F. Kuang en hún hlaut nýlega Goodreads verðlaunin fyrir bestu skáldsöguna 2023.

Ráð þeirra til annarra bókaklúbba er að stressa sig ekki á að allir verði að hafa lesið hverja bók fyrir hvern hitting – bara mæta fyrir gleðina og samveruna!

Við þökkum bókaklúbbnum Aragötu 14 kærlega fyrir að segja okkur frá klúbbnum sínum og óskum meðlimum klúbbsins góðs lesturs í vetur!

Mynd 1: Bókaklúbbur í mars 2016, mynd sem er mjög lýsandi fyrir hvað er alltaf gaman hjá klúbbnum og sýnir einnig að það eru ekki allar alltaf sammála.

  • Frá vinstri, aftari röð: Laulau Birgisdóttir, Sólrún Inga Ólafsdóttir, Hlín Hjartar Magnúsdóttir
  • Frá vinstri, fremri röð: Guðný Ásta Ragnarsdóttir, Ingibjörg Ágústsdóttir, Aðalheiður Jónsdóttir, Guðný Pálsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Dröfn Guðmundsdóttir

Mynd 2: Hluti bókaklúbbsins í Brighton í ágúst 2022 (hittist þannig á þær voru í Brighton helgina sem var haldið upp á Pride):

  • Frá vinstri: Sólrún Inga Ólafsdóttir, Ingibjörg Ágústsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Dröfn Guðmundsdóttir

Mynd 3: Hluti bókaklúbbsins með breska rithöfundinum Patrick Gale í apríl 2022.

  • Frá vinstri: Sólrún Inga Ólafsdóttir, Aðaheiður Jónsdóttir, Patrick Gale, Guðný Pálsdóttir, Ingibjörg Ágústsdóttir, Hlín Hjartar Magnúsdóttir

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...