Sögur til næsta bæjar: Heimalningur

Heimalningur

Eftir Arndísi Maríu Finnsdóttur

Ég stend fyrir framan langan malarveg sem leiðir upp að mikilfenglegu húsi. Húsið stendur hátt yfir öllum bænum, rautt, á tveimur hæðum og gnæfir yfir túnin. Ég tek tvö skref inn á veginn en stoppa svo snögglega. Rútan hefur þegar keyrt í burtu og skilur mig eftir eina. Bakpokinn er þungur eins og skrefin sem ég neyði mig til þess að taka. Eitt í einu. Hundur kemur á hlaupum á móti mér og flaðrar upp um mig. Sætur brúnn smalahundur. Hann kemur skilaboðum til eigenda sinna með gelti og áður en ég þarf að taka fleiri skref kemur kona á móti mér.

            „Hæ, hæ, þú hlýtur að vera Heiða! Gaman að sjá þig!“ hún knúsar mig of fast en hún gefur frá sér kærkomna orku. „Hvað segirðu? Var ferðin hingað í lagi? Ertu svöng? Ég var einmitt að baka skinkuhorn, oh þú átt eftir að elska þau, komdu!“

            „Hæ, já það passar, þú ert þá líklega Kolbrún.“ Hún játar því brosandi og fer með mig að rauða húsinu. Inni taka við fallegir stigar og veggir klæddir timbri. Húsið virðist stærra að innan, með stórum gluggum sem ná frá gólfinu og upp til lofts. Ég á í erfiðleikum með að trúa því að foreldrar mínir hafi viljandi sent mig í sveit til ríks fólks en ég veit að ég mun ekki þurfa að kvarta yfir neinu hérna. Þetta hús segir mér allt sem segja þarf. Þetta hús myndi kalla húsið okkar heima fátækt.

            Kolbrún er brúnhærð, mjó og fellur undir samfélagslega hugtakið „hin aðlagandi kona“, ég hef ekki miklar skoðanir á útliti fólks en jú, Kolbrún er einstaklega  falleg kona. Ég veit að hún á þennan bæ með manninum sínum Hergeiri, ég heyrði pabba tala örlítið um þau áður en mér var hent upp í rútu. Þau unnu bæði mikið og enduðu á að kaupa sér þetta bæjarstæði. Þegar ég horfi á húsið hugsa ég með mér hversu rosalega mikið maður þarf að vinna til þess að geta keypt sér bæði land og svona fallegt hús. Ég er alveg dáleidd en líka græn af öfund. Svona hús langar mig að búa í alltaf, ekki bara í sumar.

            Ég fikta við úlpuermina og er svakalega meðvituð um moldina sem er föst við stígvélin. Gólfið í forstofunni er skínandi hreint og ég þori ekki að horfa fyrir aftan mig ef það skyldu vera moldarfótspor eftir mig. Herbergið sem mér er úthlutað er bjart og ég sé yfir allan bæinn þegar ég horfi út um gluggann. Þessi sveitabær hefur allt til alls, enda eru hér flest öll dýr sem talin eru til sveitadýra, hlaðan er samt langflottust enda máluð dökkgræn og stendur tignarlega við hlið fjóssins.

            Kolbrún segir mér frá öllum dýrunum sem þau eiga og hvaða verkefni þau stunda daglega. Hana langar ekki að neyða mig í mikla vinnu heldur á ég fyrst og fremst að kynnast sveitalífinu og mögulega aðstoða þau hjónin eitthvað á daginn. Hún vill að ég læri hvernig dýrin lifa, hvað þau borða og hvernig við höldum þeim á lífi. Hún varar mig einnig við að hringrás lífs þeirra sé öðruvísi en okkar, þrátt fyrir það á ég ekki að hafa neinar áhyggjur vegna þess að hún mun sjá til þess að mér verði skýlt við því. Endalok dýra eru ekki fyrir börn.

 

Ég kemst að því í gegnum mótþróa og leiðindi að dvöl mín hér á Austurhlíð verður ekki eins slæm og ég hélt í upphafi. Kolbrún og Hergeir eru ekki vont galdrafólk sem vill mér illt, þau vilja bara að ég borði og klappi hestum. Nokkrum sinnum á dag biðja þau um aðstoð við ýmis störf en þau eru yfirleitt öll frekar létt. Ég fæ að gefa nautum hey, kjúklingum fræ og kisum mjólk.

            Dagurinn í dag er sérstakur hérna í sveitinni. Kolbrún ætlar að lána mér hnakk sem passar fyrir mig og svo leyfa mér að fara einni á hestbak. Ég flýg á Maura, hann er aðeins of stór fyrir mig en ég held bara fastar í tauminn til þess að detta ekki. Við þjótum í gegnum þykkan skóg, trjágreinar slást framan í mig en ég held bara áfram. Frelsistilfinningin er svo yfirþyrmandi að ég græt örlítið. Mauri sýnir mér fallega sveitavegi skreytta litríkum blómum sem umlykja allan heiminn hérna. Sumarið er í fullum blóma eins og blómin sem gerir lyktina óhjákvæmilega og lamandi. Ég þarf að stoppa til þess að taka hjálminn af mér og þurrka tárin sem hafa lekið niður andlitið. Mauri brosir bara til mín.

            Við komum niður brekku og endum á engjunum sem prýða bæjarstæðið. Þegar við erum komin á mitt engið sé ég bæinn ekki lengur. Gras og sól er það eina sem við augum ber hvert sem ég horfi. Endalaust pláss í heiminum sem enginn er að nota. Hér er ekki verið að þrengja mér í lítið herbergi með bróður mínum eða neyða mig til þess að sitja í illa lyktandi skólastofu með þrjátíu öðrum nemendum. Hér er bara ég og Mauri. Með allt þetta pláss. Loksins, loksins, er pláss fyrir mig.

 

Kjötsúpan er heit og ég finn fyrir henni renna niður hálsinn og niður í maga. Hugsa sér að eitt sinn var þetta lítið sætt lamb sem ég er að tyggja og éta af bestu lyst. Eflaust ætti það að fá mig til þess að missa matarlystina en ef eitthvað er þá verður lambið bara betra á bragðið. Ætli það hafi þurft að þjást mikið þegar það var drepið?

            „Ertu með einhver plön í dag Heiða?“ Hergeir horfir spyrjandi á mig og dregur mig frá dagdraumunum.

            „Nei engin sérstök, kannski að kíkja upp í fjall með Maura og Búa, nema þú þurfir einhverja hjálp?“

            Hergeir brosir og kinkar kolli. „Nei nei ég þarf ekki hjálp, mér finnst bara svo gaman að sjá þig njóta þín í náttúrunni, þú ert að breytast í algeran heimalning hérna. Endilega taktu Búa með ykkur, hann hefur svo gott af því að hlaupa.“

            Ég og litli herinn minn leggjum í enn eitt ævintýrið og stefnum á fjallsrótina þar sem ég hef fundið berjarunna. Berin eru enn beisk og frekar ógeðsleg en mér finnst gott að skoða þau og smakka á vikufresti, ef þau skildu verða tilbúin meðan á dvöl minni stendur. Búi hleypur á undan okkur eins og til þess að passa að engin hætta sé á veginum. Við komum loksins að runnunum og ég sest niður í grasið og tek upp samlokuna sem Kolbrún smurði handa mér. Búi situr spenntur mér við hlið og er einnig tilbúinn að borða samlokuna mína. „Mig langar aldrei að fara héðan,“ segi ég við þá báða. Mauri kinkar kolli og Búi gefur frá sér örlítið væl. Þeir vilja frekar vera hjá mér heldur en Kolbrúnu og Hergeiri. Ég er miklu betri en þau.

            Berin eru enn þá vond á bragðið, svo við tökum okkur til og höldum ferðum okkar áfram. Mér líður örlítið eins og kúreka, ríðandi á fallegasta hestinum á bænum með hlaupandi hund mér við hlið. Ég sá einu sinni mynd um villta vestrið með pabba og núna er eins og ég sé að lifa hana. Þar sem við þjótum áfram horfi ég á allt sem fram hjá fer og fæ stingandi hvöt til þess að grafa mig í holu hérna svo ég þurfi ekki að snúa aftur á Seltjarnarnes.

 

Undarleg hljóð heyrast frá skemmunni. Einhvers konar væl sem sker í eyrun en er á sama tíma ótrúlega fallegt. Eins og í dáleiðslu labba ég af stað í átt að hljóðinu. Ég læðist að hálfopnu skemmuhurðinni og gægist inn. Hergeir bað mig sérstaklega að láta skemmuna vera í dag en ég get ekki annað en dáleiðst af hljóðinu. Inni í skemmu hanga þónokkrir nautaskrokkar á stórum krókum. Undir þeim eru litlir balar fullir af blóði sem dropa niður af skrokkunum. Sums staðar hefur balinn yfirfyllst og blóð skvettist í allar áttir. Það breytist í eins konar listaverk, blóðdroparnir skreyta hvíta balann og slettur og dropar prýða umhverfi þess.

            Ég þori ekki öðru en að koma mér hljóðlega inn í skemmuna og fylgjast með Hergeiri í laumi. Ég veit að hann hefur verið að dunda sér í heimaslátrun í nokkur ár því honum finnst svo ómannúðlegt að dýrin sín séu drepinn í atvinnusláturhúsum. Hann vill eiga stund með dýrinu og drepa það svo fljótt svo því líði sem best. Hann stendur þarna inn í hornherberginu á skemmunni með höfuð á nauti í fanginu og kindabyssu í hendinni.

            Ég horfi á risavaxna dýrið góla sitt síðasta hljóð með væli sem nístir inn við bein. Það fellur hægt niður, hálft í fangi Hergeirs og endar liggjandi á gólfinu. Ég finn hvernig allar frumur líkama míns kvikna og hlaupa óðar fram og aftur. Það er eins og ég sé gerð úr eldi. Örlítið blóð lekur úr höfuðsárinu sem fær hendur mínar til þess að skjálfa. Svona er það að vera lifandi. Ég vissi ekki hvernig sú tilfinning væri fyrr en nú, þetta er ástríðan sem ég hef leitað að, tilfinning sem fær mig til þess að vilja halda lífinu mínu áfram. Dýrið liggur lífvana á gólfinu á sama tíma og líf færist inn í mig. Kannski hef ég fangað lífsvökva þess í sálina mína. Hergeiri bregður við að sjá mig. Svipbrigði hans breytast fljótt í skelfingu og hann horfir svo undarlega á mig. Ég er brosandi.

 

Tilfinningar, atburðir, minningar, allt vaknar til lífsins. Vitnisburður minn af hringrás lífsins kveikti í djúpstæðri breytingu innan með mér. Ég hafði aldrei hugsað um vald yfir annarri lifandi veru áður en nú er það allt sem geymist innra með mér. Mér finnst eins og ég hafi loksins vaknað til lífsins, ég get haft áhrif á heiminn og ég get stjórnað mínum örlögum sjálf. Kannski þarf ég ekki að fara aftur heim.

 

Arndís er nemandi í Almennri bókmenntafræði og Ritlist. Hún hóf allskyns skrif á ungra aldri og hefur gaman af því að nýta sér mismunandi bókmenntaform og aðferðir til þess að gera sögur sínar áhugaverðari. Hún hefur mestan áhuga á fræðilegum skrifum en skemmtir sér þó í skapandi skrifum öðru hvoru.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...