„Um skrattann sem leynist í veislunni“

Árlega er gefin út bók sem inniheldur ferskar sögur eftir meistaranema í ritlist í Háskóla Íslands. Þessi verk hafa yfirleitt sýnt sneiðmynd af því sem koma skal frá rithöfundum framtíðarinnar, en flestir höfundarnir eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum. Lestrarklefinn fékk að heyra í tveimur þátttakendum í verkefninu þetta árið, þeim Birgittu Björgu Guðmarsdóttur, ritstjóra og höfundi, og Elísabetu Dröfn Kristjánsdóttur, höfundi.

Hver er bakgrunnur ykkar og hvers vegna eruð þið í ritlist?

Bakgrunnur okkar allra er mismunandi. Til að nefna er í hópnum fólk með menntun í sálfræði, grunnnám í ritlist, mannfræðingar, þjóðfræðingur, iðjuþjálfi, leikarar, íslenskufræðingur, bókmenntafræðingur, garðyrkjufræðingur og trúður. Við eigum það öll sameiginlegt að vera skáld og þess vegna erum við í ritlist.

Það er á námskeiðinu Á þrykk sem Gestabók varð til, um hvað snýst námskeiðið?

Námskeiðið er fyrir nemendur í ritlist og ritstjórn. Það snýst um að skrifa og gefa út bók. Nemendur koma að öllum hliðum ferlisins. Við fengum til okkar fyrirlesara, ritstjóra, umbrotsmann og kápuhönnuð. Allt fagfólk í sinni grein og við lærðum heilmikið af þeim. Einnig var mjög fróðlegt og skemmtilegt að heimsækja prentsmiðjuna Litla prent, sem er einmitt sú prentsmiðja sem við notumst við í þessari útgáfu og við mælum eindregið með samstarfi við þau. 

Hvernig er hópurinn saman settur? Hvernig gekk verkaskiptingin?

Bekknum var skipt upp í þrjá hópa: umbrot og hönnun,  kynningu og markaðsmál, útgáfu og fjáröflun. Verkaskipting gekk mjög vel. Það voru þó sum sem tóku meira að sér en aðrir enda heilmikið mál að fjármagna, hanna og brjóta um heila bók.

Hvert er þemað í Gestabók?

Gestabók er smásagnasveigur og stóra þemað er veisla. Okkur langaði að skoða allskonar hliðar á því hvað það þýðir að mæta í veislu, kvíði, spenna, snobb, áhugaleysi og við vildum skapa heim þar sem lögð er áhersla á tengsl. Persónur fara úr einni sögu í aðra og í raun ferðast margar þeirra um bókina, rétt eins og í spjallhópum í veislum. Sumar þeirra eru tengdar vina- og fjölskylduböndum, aðrar í gegnum vinnu eða á óljósari hátt.

Segið aðeins frá sögunum ykkar, kviknuðu þær í námskeiðinu eða var hugmyndin komin áður?

Við byrjuðum hugmyndavinnu strax í fyrsta tíma í janúar. Hugmyndin að bókinni mótaðist áfram í tímum. Hver höfundur tók sinn pól í hæðina. Hvert og eitt okkar sendi inn hugmyndir sem við lásum svo öll. Ein okkar vildi skrifa um manneskju sem passaði ekki inn í veisluna og í raun samfélagið í heild. Annarri okkar langaði til að skrifa um snobbað kvendi á toppi fæðukeðjunnar. Enn önnur vildi skoða hvað klæðnaður getur skipt miklu máli, bæði fyrir einstaklingana sem klæðast þeim og fólkið í kringum þau. Svo erum við með sögur sem fjalla um fyllerí, óvænt tengsl, gleymsku og vinslit. Margar persónanna eru týndar á einhvern hátt.

Hvernig gekk samstarfið milli ritstjóra og höfunda?

Samstarfið gekk vel. Hver og einn ritstjóri þurfti að mæta hverjum höfundi á þeim stað sem þau voru stödd. Einn þarf t.d. að bæta byggingu, annar þarf að skera niður, enn annar þarf að lengja. Okkur finnst þessi reynsla dýrmæt því nú skiljum við betur hvernig gott ritstjórasamstarf á að vera.

Hvað kom ykkur mest á óvart í þessu ferli?

Það sem kom einna mest á óvart var að það er aðeins einn maður á Íslandi sem kann á svokallaða bókasaumavél. Við myndum gjarnan vilja læra þessa list af honum. Kannski hann komi og kenni í ritlist. Það kom líka á óvart hvað þetta gekk allt vel. Þetta er mjög stuttur tími fyrir heila bók og það er merkilegt hvað allt small vel.

Kápan og myndirnar inni í umbrotinu, hver er sagan á bak við það?

Kápuna hannaði Vignir Rafn Valþórsson, einn höfunda bókarinnar. Hann er einnig listamaður og kom með nokkrar tillögur í tíma til okkar og við kusum um kápuna sem við vildum helst. Þessi kápa er trérista frá 18. öld og vísar í þá hugmynd okkar um skrattann sem leynist í veislunni. Við búum öll að einhverjum djöfli, hvort sem hann er í okkur eða okkar nærumhverfi. Signið ykkur nú! Svo búum við svo vel að þekkja listamanninn Boaz Yosef Friedman sem teiknaði þessar æðislegu marginalíur á spássíurnar, en þær vitna einmitt í þessar gömlu hefðir, til að mynda gestabókina.

Finnst ykkur mikilvægt að höfundar og ritstjórar framtíðarinnar fari í gegnum þetta ferli á þennan hátt?

Já, þetta reyndist allavega mjög lærdómsríkt. Svo er auðvitað mjög heilbrigt að vinna í samstarfi með öðrum og læra af þeim.

Útgáfuhóf bókarinnar var haldið hátíðlegt miðvikudaginn 15. maí og er hún því komin í allar betri bókabúðir. Ef þið viljið kynna ykkur verkið enn frekar og sjá upplestra úr bókinni er hægt að fara inn á facebook síðu bókarinnar

Lestu þetta næst