Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru ólögleg vegna fósturverndarlaga. Og það eru tæknifrjóvganir líka af sömu ástæðum. Ef þú glímir við ófrjósemi þá er það bara þitt vandamál. Ef þú ert þunguð er það líka þitt vandamál. Ef þig langar að ættleiða barn er ekki hlaupið að því, sérstaklega ekki ef fjölskyldan þín er ekki „hefðbundin“ kjarnafjölskylda. Svo hvað eiga þá ólétt unglingsstúlka, ófrjó kennslukona og buguð húsmóðir sem hatar manninn sinn (og stundum börnin sín) að gera? Og hvað með nornina í skóginum sem býður upp á þungunarrof með gömlum aðferðum sem hún lærði af formæðrum sínum? Hvað gerist þegar yfirvöld banka upp á og kæra hana fyrir glæp?

Tifandi, rauðar klukkur

Þessi bók kom út 2018, áður en tímamótadómurinn Roe gegn Wade, sem dæmdi um að þungunarrof væri stjórnarskrárvarin réttur í öllum ríkjum Bandaríkjanna, var felldur úr gildi. Þegar bókin er skrifuð er hún mynd sem dregin er upp af skuggalegri, hugsanlegri framtíð, framtíð lands sem heftir rétt kvenna með ýmsum hætti og dregur úr þeim einum af öðrum. Þegar ég las bókina hafði hið versta gerst, og nú er ekki úr vegi að sumt bandarískt fólk sem verður ólétt geti þurft að leita uppi norn í skógi til að rjúfa þungun sína, ellegar ganga fulla meðgöngu með fóstur sem það langaði ekki í. 

Titill bókarinnar þykir mér skemmtilegur, en klukkan vísar bæði í tifandi tímasprengjuna innan í táningsstúlku sem gengur með fóstur sem er ólöglegt að eyða og líffræðilegu klukkuna sem oft er talað um hjá kennslukonunni sem er að komast af barneignaraldri. 

Það var sennilega öðruvísi að lesa bókina áður en Roe gegn Wade dómurinn var felldur úr gildi. Eins og í aðdraganda forsetakosninga Bandaríkjanna 2016 héldu margir að það hreinlega gæti ekki verið að Bandaríkin væru komin út í svona mikið rugl. En, eins og þá, reyndist ruglið ríkjandi, Saga þernunnar raungerist, og ofstæki bandarísks afturhalds dreifir sér um heiminn, um leið og sprengjur sem framleiddar eru á kostnað skattgreiðanda landsins afhöfða palestínsk börn í flóttamannabúðum. 

Hver á að eignast börn?

Var þetta bókadómur? Já. Fín bók, raunverulegar persónur sem taka áhugaverðar, raunsannar og flottar ákvarðanir. Ég fíla sérstaklega að bjargvættarnarratívan og það hver á rétt á að eignast börn er tekið vel fyrir. Sérlega er áhugavert að skoða rétt fólks til tæknifrjóvgana og ættleiðinga, sérstaklega ef lesið er með það í huga að síðustu ár hafa ýmsir ættleiddir einstaklingar bent á að það að geta ekki eignast líffræðileg börn þýði ekki að þú hafir rétt á að taka börn annars fólks, sem oft er að missa börn sín sökum bágrar efnahagsstöðu og kerfislægs óréttlætis. 

Þessi bók er fullkomin fyrir: Lestur í litlum króki undir teppi á meðan heimurinn brennur í kring um þig. Parast sennilega vel með þurri kexköku og góðu jurtatei.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.