Stórkostlegur söngur á fjórum tungum

25. febrúar 2025

Sigríður Ásta Olgeirsdóttir, Snædís Lilja Ingadóttir og Jóhann Axel Ingólfsson bjóða upp á nýtt sviðsverk, eins konar kabarett um líf og ævi þýsku leik – og söngkonunnar Marlene Dietrich. Sjálfsstæðissalurinn við Austurvöll er orðinn að næturklúbbi og Sigríður Ásta í hlutverki Dietrich syngur svo kröftuglega og örugglega að það er ekki annað hægt en að hrífast með stórkostlegri túlkun hennar.   

 

Sigríður Ásta hefur verið sjálfstætt starfandi sviðslistakona frá árinu 2019 en hún starfar einnig sem söngkona. Með henni á sviðinu er Jóhann Axel Ingólfsson sem bregður sér í ýmis hlutverk, meðal annars leikur hann hina ýmsu ástmenn Dietrich. Á sama tíma og hann leikur undir  söng Sigríðar á pianó og það tryggri hendi. Snædís Lilja Ingadóttir leikstýrir.

Sigríður og félagar setja þarna upp ævi Dietrich þar sem Dietrich er sjálf sögumaður og frásögnin er með mjög góðum og taktföstum hrynjanda. Inn í frásögnina fléttast svo auðvitað söngvar Dietrich sem Sigríður túlkar alveg meistaralega vel með sterkri söngröddu sinni. Sýningin fer fram á fjórum tungumálum sem er unun að hlusta á. Söngvar Dietrich auðvitað oft á þýsku og frönsku en einnig fléttast inn íslenskar þýðingar  laganna svo úr verður virkilega fallegt og sterkt samspil.

Eilítið hikst var í upphafi verksins en tæknivandræði náðu leikarar að leysa afar fimlega og fór Sigríður Ásta aldrei úr hlutverki. Um leið og Sigríður steig síðan á svið sem Dietrich, stóð staðföst og fór að syngja varð leikur hennar, söngur og nærvera dáleiðandi.  Þetta er afar skemmtileg sýning og það er eitthvað alveg sérstakt við sýningar þar sem hægt er að sitja við borð og fá sér drykk, þar kemur inn þetta aukalag af stemmingu. Áhorfendur upplifa það að vera á þýskum klúbbi á eftirstríðsárunum. Meira svona takk.

Lestu þetta næst

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...

Hratt, hratt…hægt

Hratt, hratt…hægt

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese's Book Club í leit minni að góðri...

Ég er ofurhetja

Ég er ofurhetja

Kapteinn Frábær í Tjarnarbíó. Kapteinn Frábær er engin venjuleg hetja. Eða er hann kannski allra...

Dásamlega upplífgandi

Dásamlega upplífgandi

Á dögunum var ég í leit að góðri ástarsögu, the Guardian var með fínustu samantekt þar sem...