Ég er ofurhetja

12. mars 2025

Kapteinn Frábær í Tjarnarbíó.

Kapteinn Frábær er engin venjuleg hetja. Eða er hann kannski allra venjulegasta hetjan? Er hann hugsanlega bara pabbi sem reynir að skemmta barninu sínu og hugga það með sögum af ofurhetjusjálfinu sínu, þegar lífið reynist erfitt?

 

 

Breska leikskáldið Alistair McDowell er íslenskum leikhúsunnendum nokkuð kunnur eftir uppsetningu Borgarleikhússins á geimhryllingnum X árið 2024. Verkið Kapteinn frábær (e. Captain Amazing) er einleikur sem fyrst var settur upp í Englandi árið 2014, þar sem Mark Weinman fór með aðalhlutverkið. Verkið hefur verið þýtt og er nú leikið af Ævari Þóri Benediktssyni og leikstýrt af Hilmi Jenssyni. 

Kapteinn Frábær

Í upphafi verksins stígur leikarinn á svið. Hann er klæddur hvítum bol, hversdagslegum buxum og ber um hálsinn rauða skikkju. Hann er greinilega ofurhetja. Dunandi danstónlist svífur um sviðið og ljósin blikka. Við erum á skemmtistað. Ofurhetjan á sviðinu reynir að panta sér drykk og benda fólki á að hann sé sko ofurhetja. Þess vegna sé hann með skikkju. 

Þá breytist allt. Skyndilega erum við stödd í ævintýrum Kapteins Frábærs, sem þarf að bjarga Doktor Prófessor frá sínum ógurlega erkifjanda, Vonda Kalli. Og svo erum við komin í húsgagnaverslun, þar sem hinn ósköp venjulegi Magnús aðstoðar konu við að finna kítti.

Einleikur 

Og svona heldur verkið áfram. Ævar Þór túlkar allar persónurnar, og hrífur áhorfendur með sér inn á öll þessi mismunandi svið með leik sínum einum. Hann fær vissulega aðstoð frá hljóðheimi verksins og lýsingu í hönnun Ólafs Ágústar Stefánssonar, en það er leikur Ævars sem verkið stendur og fellur með. Og það fellur hvergi. 

Saga verksins er ekki í tímaröð, en áhorfandi sér að Magnús er aðalpersónan, sem og Kapteinn Frábær. Magnús kynnist konu og eignast barn, Kapteinn Frábær skoðar nýtt húsnæði og talar um að samband hans við konuna sína sé kannski ekki lengur sem allra best. Í stað þess að Ævar leiki beinlínis á móti loftinu, þá leikur hann á móti sjálfum sér. Hann skiptir um rödd og svipbrigði til að sýna áhorfendum hver hann er á hverri stundu. Og hvort sem hann er yfirmaður, lítil stelpa, leðurblökumaður eða fasteignasali, Magnús eða Hanna, barnsmóðir hans, að þá er hann alltaf jafn sannfærandi, fölskvalaus og góður í leik sínum. Tónlistin, sem er í höndum Svavars Knúts, rammar sýninguna vel inn og er virkilega hugljúf og falleg. Leikstjórn Hilmis Jenssonar er mjög góð, ris og lægðir í verkinu eru lágstemmdar en passað er upp á að spennan haldist út í gegn. Áhorfanda er haldið á tánum með þéttu tempói og orkustigi, og það er akkúrat nægilega mikið gefið í skyn og nóg er skilið eftir ósagt.

Mikil Ábyrgð

Vissulega liggur mikil þyngd á herðum Ævars, þar sem hann þýðir verkið sjálfur og leikur aðalhlutverkið. Textinn er mjög vel þýddur, enskan laumar sér ekki í gegn, og ef einhver segði mér að þetta væri íslenskt verk frá grunni að þá hefði ég trúað því. Tilfærslan frá Englandi til Íslands er líka mjög góð, þar er ekkert sem stingur í stúf. Ævar Þór stendur svo sannarlega undir þessari miklu ábyrgð, sýningin er alveg frábær, fyndin, einlæg, sorgleg og djúp. Uppsetningin minnti mig á margan hátt á Stelpur og Stráka eftir Dennis Kelley, sem sett var upp af Björk Guðmundsdóttur og Önnulísu Hermannsdóttur  í Tjarnarbíói og flakkaði á sínum tíma um landið. Verk þar sem ein persóna segir sögu sína og annarra, og kemur á óvart, er fyndin og nístir um leið inn að beini.

Í heildina mæli ég eindregið með verkinu, sem er mikill leik- og þýðingasigur hjá Ævari Þóri Benediktssyni, en ég vona að hann þýði fleiri verk og setji sömuleiðis upp í framtíðinni.

Lestu þetta næst

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...

Hratt, hratt…hægt

Hratt, hratt…hægt

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese's Book Club í leit minni að góðri...

Dásamlega upplífgandi

Dásamlega upplífgandi

Á dögunum var ég í leit að góðri ástarsögu, the Guardian var með fínustu samantekt þar sem...

Tár, bros og trúðaskór

Tár, bros og trúðaskór

Innkaupapokinn í Borgarleikhúsinu Leikhópurinn Kriðpleir ræðst ekki á garðinn þar sem hann er...