Bókaklúbbar eru vinsælir hér á landi hjá fjölbreyttum hópi fólks. Svo virðist sem margir þeirra séu í blóma akkúrat á þessum árstíma þegar má hefja lestur bóka úr jólabókaflóðinu. Lestrarklefinn ætlar að beina kastljósinu að nokkrum stórskemmtilegum klúbbum og vonandi verður þetta hvatning fyrir þá sem hafa hugsað um það að stofna sinn eiginn! Tja eða ganga í bókaklúbb sem nú þegar er til!
Vanessurnar er nýlegur bókaklúbbur sem stofnaður var sumarið 2022 og var fyrsti fundurinn haldinn snemma hausts það sama ár. Klúbburinn heitir í höfuðið á titilpersónunni í fyrstu bókinni sem klúbburinn las saman: Vanessa mín myrka. Frekar svakaleg bók sem Vanessur mæla einróma með og fer mjög ofarlega á listann yfir uppáhaldsbækur klúbbsins.
Meirihlutinn bókelskandi flugfreyjur
Stofnendur hópsins Rósa og Sigrún voru búnar að byrja í öðrum klúbbi nokkru fyrr sem náði aldrei að hittast vegna Covid. Þær urðu vinkonur gegnum syni sína sem eru svo löngu hættir að vera vinir en þær eru enn miklar vinkonur. Þær tvær ákváðu í einum af þeirra ótal göngutúrum að gera aðra tilraun að bókaklúbbi. Þær leituðu svo að nýjum meðlimum meðal vina og samstarfskvenna. Það kom þá í ljós að samstarfskonur Rósu hjá Icelandair, Sigríður Erna (Sirrý) og Ásdís höfðu líka verið að ganga saman og höfðu rætt það að stofna bókaklúbb en það hafði ekki gengið upp. Þegar Rósa og Sirrý spjölluðu svo saman á vaktinni þá fór þetta allt að smella saman. Úr varð frábær hópur en þær eru sex virkar Vanessur. Auk þeirra Rósu, Ásdísar, Sigrúnar og Sigríðar Ernu eru í hópnum önnur Ásdís og Guðný. Það eru tvær í viðbót en þær hafa verið að klára nám og því ekki komið ennþá en koma vonandi sterkar inn á næstunni.
Meirihluti hópsins eru sem sagt bókelskandi flugfreyjur hjá Icelandair. Þær hafa samt aldrei lesið neina bók tengda flugbransanum en þær segjast kannski ætla að bæta úr því á nýju ári. Í hópnum eru síðan líka bókaútgefandi og ljósmóðir. Hjá þeim er mjög skemmtileg aldursdreifing þar sem þær skiptast í þrjár tvennur með ca. tíu ára millibili á aldrinum 40, 50 og 60 ára. Úr verður ótrúlega frábær blanda. Fyrir tilviljun búa þær allar í Vesturbæ Reykjavíkur og því oftast hægt að ganga eða hjóla í klúbbinn.
Bannað að baka fyrir fund!
Hópurinn hittist á svona 4-6 vikna fresti yfir veturinn en tóku pásu yfir sumartímann en þá voru settar fyrir þrjár bækur sem voru Bernsku-, Táninga- og Minnisbók eftir Sigurð Pálsson heitinn. Táningabók sem gerist að miklu leyti í Vesturbænum var uppáhald þeirra flestra. Það er bannað að vera með flóknar veitingar á fundi, engin hefur bakað fyrir fund. Bara sódavatn og kannski smá súkkulaði et voilà! En fyrir sumarið bauð önnur Ásdísin Vanessum á Fish and chips vagninn við höfnina þar sem þær sátu og snæddu dýrindisfisk undir teppum og ræddu bókina Sjö eiginmenn Evelyn Hugo. Þær voru þá búnar að vera á alvarlegum nótum og vildu loka vetrinum með léttmeti. Í vetur ætla þær að byrja á Götu mæðranna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur og Formanni húsfélagsins eftir Friðgeir Einarsson. Eftir það var pæling að lesa Spare eftir Harry Bretaprins og eitthvað spennandi úr jólabókaflóðinu.
Ljóðabók Bergþóru klauf hópinn
Aðspurð segir Sigrún þær ekki hafa verið að vinna með sérstakt þema. Hins vegar er merkilegt hversu oft byggingarefnið asbest hefur komið fyrir í klúbbnum og það hefur verið fyrir algera tilviljun. Þær velja bækurnar yfirleitt í sameiningu í lok hvers fundar. Sú sem heldur klúbbinn næst hefur svona þyngsta vægið í þeirri ákvarðanatöku. Oft enda þær á að lesa tvær bækur fyrir hvern klúbb. Bækur sem hafa þá einhverja tengingu, stundum langsótta en tengingu samt. Þær hafa til dæmis tekið klúbb þar sem þær „heimsóttu“ hjónin Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Braga Pál Sigurðarson. Bæði tvö mjög áhugaverðir höfundir með frekar „grótesk“ stíl, að sögn Sigrúnar.
Það má eiginlega segja að ljóðabókin hennar Bergþóru, Allt sem rennur, hafi verið sú bók sem hafi klofið hópinn mest. Sumar alveg elskuðu hana meðan aðrar áttu erfitt með hvað hún var já… eiginlega ógeðsleg eða hryllileg. Lungu eftir Pedro Gunnlaug Garcia og Ég var nóttin eftir Einar Örn Gunnarsson voru líka svolítið umdeildar. Einhverjar þurftu að toga sig í gegnum þær meðan aðrar voru mjög hrifnar.
En langoftast eru þær nokkuð sammála um bækurnar sem þær lesa þó umræðurnar geti orðið líflegar og farið um víðan völl. Í einum klúbbnum voru lesnar bækurnar Aprílsólarkuldi og Saknaðarilmur eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Aprílsólarkuldi veitir svo magnaða innsýn í það að sögn Sigrúnar hvernig fólk veikist á geði og myndar ranghugmyndir eftir að hafa lesið í tákn á brenglaðan hátt. Bókin sem hefur staðið uppúr fyrir utan Vanessu hina myrku er örugglega Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur, bætir hún við. Bók sem að vakti þær allar til mikillar umhugsunar um alls konar eins og umhverfismál, varðveislu bygginga og muninn á því að eignast barn á Íslandi og í Bandaríkjunum.
Við þökkum Vanessunum kærlega fyrir að segja okkur frá klúbbnum sínum og óskum þeim góðs lesturs í vetur!
Mynd af hópnum: Fremst frá vinstri eru Ásdís Schram, Sigríður Erna Guðmundsdóttir og Rósa Björk Gunnarsdóttir. Fremst frá hægri eru Guðný Kjartansdóttir, Sigrún Huld Ásdísar Gunnarsdótir og Ásdís Jónsdóttir gestgjafi
kvöldsins.