Nú er nýtt ár gengið í garð og með því bað janúar okkur velkomin með öllu sínu myrkri og skammdegisþunga. Nú þegar febrúar hefur tekið við finn ég hvað birtan veitir mér mikinn innblástur. En þar sem janúar var svo langur og kaldur eyddi ég mestum frítíma mínum undir teppi eða sæng að lesa. Þessi veira vinkona okkar hjálpaði heldur ekki til. En afrasktur lestrarmánaðarins voru heilar tíu bækur, stuttar og langar, sem mig langar til að segja ykkur frá. Ég vil prófa nýja nálgun á lestrarumfjöllun en í þessum pistli vil ég tala um bækurnar frá eigin persónulegu upplifun og reyna að halda bókmenntafræðingnum og greinandanum í skefjum.
Fyrsta bók ársins var Skammdegisskuggar eftir Alexander Dan. Það er reyndar ekki alveg rétt því ég skaut einni stuttri bók inn í þann lestur, Letters to a Young Poet eftir Rainer Maria Rilke. Sú bók er samansafn af bréfum sem Rilke skrifar til yngra ljóðskálds um listina, lífið og öllu því sem fylgir. Sú bók var stutt kvöldlesning og í henni fann ég marga gullmola, en hún var líka þung þar sem bæði skáldin voru að ganga í gegnum erfiða tíma á meðan bréfaskiptunum stóð. Skammdegisskugga las ég á fimm dögum, 100 blaðsíður á dag, aginn sjáiði til, og kláraði á fimmta degi ársins. Sú bók hélt mér vel upptekinni, ég hafði ekki þolinmæðina í að spila við fjölskylduna uppi í bústað og las inn á milli þess sem ég átti að gera í Hættuspilinu skemmtilega. Ég var einfaldlega of djúpt sokkin í þennan myrka heim Hrímlands.
Eftir þessa löngu og myrku lesningu var tími til kominn að lesa eitthvað stutt, léttleikandi og þægilegt. Þá varð örsagnasafnið Mæður geimfara eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur fyrir valinu. En bókin er jafn skemmtileg og hressandi og kápa bókarinnar bendir til. Ég las sögurnar með bros á vör og var glöð að ég hafði kippt þessari með af bókasafninu. Eftir það hélt ég áfram í örsögunum en ég las bók sem ég hef ætlað að lesa mjög lengi, 90 sýni úr minni mínu eftir Halldóru Thoroddsen. Bókin er uppfull af stuttum endurminningum Halldóru úr æsku. Sögurnar eru frábærar, stíllinn hennar svo náttúrulegur og flottur. Ég dáðist svolítið af þessari bók við lesturinn.
Næst tóku við tvær bækur úr áskriftarseríu Angústúru en þær bækur eru alltaf svo miklir konfektmolar! Fyrst las ég nóvelluna Tíkin eftir Pilar Quintana sem fór með mig í lítið þorp við kólumbísku Kyrrahfsströndina. Þar segir frá konunni Damaris sem getur ekki eignast börn, málefnið stendur mér frekar nærri vegna persónulegra erfiðleika á því sviði en lesturinn var auðveldari vitandi af krílinu sem ég geng með nú. Ég gat séð mig sjálfa í Damaris en hún reyndi allt til að verða ólétt en sætti sig loks við að verða aldrei móðir. Þar kemur litli tíkarhvolpurinn inn sem hún dýrkar og dáir en svo veldur hann henni sífelldum vonbrigðum. Hann verður aldrei staðgengill barnsins sem hún þráir svo heitt. Mjög góð lesning. Nýjasta bókin úr seríunni er Uppljómun í eðalplómutrénu sem ég las og skrifaði umfjöllun um hér á síðunni. Sú bók er algjört töfraraunsæisævintýri og ég var uppfull af nostalgíu frá því á fyrsta árinu í bókmenntafræði þegar ég sat tíma um töfraraunsæi Suður-Ameríku og las allar helstu bókmenntaperlur þeirrar stefnu. Virkilega flott og vel skrifuð bók sem ég mæli mikið með.
Ég sneri mér svo aftur að Halldóru Thoroddsen en ég hafði einnig gripið með mér verðlaunabókina Tvöfalt gler af bókasafninu þegar ég fann 90 sýnin. Það er einmitt líka bók sem ég skammaðist mín smá fyrir að hafa ekki lesið fyrr. Ljóðrænan í textanum hennar Halldóru heillaði mig alveg og veitti mér innblástur. Þvílíkur penni!
Snerting eftir Ólaf Jóhann er bók sem allir voru að dásama fyrir jól þannig ég ákvað að drífa mig að lesa hana en ég hef ekki lesið neitt eftir Ólaf Jóhann áður þar sem ég fann einhvernveginn á mér að hann væri ekki fyrir mig. En svoleiðis rökstuðningur er ómarktækur, þannig að ég fékk Snertingu lánaði hjá Sæunni okkar hjá Lestrarklefanum og hóf lestur. Það kom mér á óvart hversu einfaldur stíll bókarinnar er og hversu hægt söguþráðurinn tók á sig mynd. Mér fannst ekki leiðinlegt að lesa hana en hún kveikti samt ekki í mér. Þetta var furðulega hlutlaus lestur hjá mér, hefði viljað að bókin vekti dýpri tilfinningar eða upplifun hjá mér. En jæja, þá ætti ég að geta treyst innsæinu. Ólafur Jóhann er kannski ekki fyrir mig.
Næst á lista var nóvellan Sjálfstýring eftir hina ungu Guðrúnu Brjánsdóttur sem vann Nýjar raddir Forlagsins á síðasta ári. Sú bók var búin að sitja allt of lengi á náttborðinu mínu en loksins fann ég að þetta var rétti tíminn. Ég tók hana upp rétt fyrir svefn en endaði svo á því að klára hana rétt fyrir eitt um nótt, við undirleik meðalháværra hrota unnustans. Ég gat ekki lagt hana frá mér því í þessari bók kannaðist ég við svo margt, hún fjallar um unga konu sem er í íslenskunámi í háskólanum og verður fyrir miklu áfalli. Hún er einnig söngkona og mjög metnaðarfullur tónlistarmaður. Sjálf tengdi ég við allt umhverfi háskólans þar sem ég tók bókmenntafræðina á sama aldri meðfram söngnámi. Hún fer svo til Kaupmannahafnar í áheyrnarprufu fyrir tónlistarskóla en það er nákvæmlega það sama og ég gerði á þessum aldrei. Þetta var frekar ótrúlegt, stúlkan hefði getað verið ég. Sem betur fer lenti ég ekki í sama áfalli og hún en þessi bók er mikilvæg lesning fyrir ungar konur og menn sem eru nýbyrjuð að feta sig áfram í ástarlífinu. Ef mörk eru brotin er manneskjan líka brotin.
Síðasta bók janúarmánaðar var svo stórvirkið Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Guðrún Eva er einn af mínum uppáhalds höfundum en af einhverjum ástæðum hafði ég ekki klárað að lesa alla bókina á sínum tíma. Ég dró hana út úr bókaskápnum og las hana frá upphafi til enda. Þessi bók er rosaleg, það er varla hægt að segja annað. Ég fylltist bæði ógeði og hrifningu við lesturinn en las hana frekar hægt þar sem ég þurfti að meðtaka allt sem var að gerast í þessum gróteska heimi sem hún skapar í þessari bók. Nýjustu bækur Guðrúnar Evu standa langt frá þessari en þrátt fyrir stílbreytinguna finnst mér bæði eldri og nýrri verk Guðrúnar Evu einstaklega góð.