bokmennta-og-kartoflubokufelagidÉg var að enda við að ljúka við Bókmennta- og kartöflubökufélagið eftir Mary Ann Shiffer og Annie Barrows og er uppfull af hlýjum tilfinningum og sé allt í bleikri móðu. Allt er svo milt og ljúft og krúttlegt. Bækur hafa tvímælalaust áhrif á það hvernig við sjáum heiminn og allir ættu að lesa krúttlegar bækur inn á milli.

Að hnýsast í fortíðina

Í Bókmennta- og kartöflubökufélaginu fylgjumst við með rithöfundinum Juliet Ashton í gegnum bréfaskriftir. Juliet bjó í London á seinni stríðsárunum og þegar lesandi byrjar að fylgjst með henni er árið 1946. Minningar um stríðið og alla þá erfiðleika sem fylgja því eru alltumlykjandi. Það er því með ólíkindum, finnst mér, að Mary Ann Shiffer hafi náð að búa til svona krúttlega bók um stríð. Að sjálfsögðu snýst bókin ekki eingöngu um stríðið, en það er samt þungamiðjan í bókinni. Juliet Ashton fær bréf frá svínabónda frá Guernsey sem fyrir tilviljun komst yfir bók sem áður hafði verið í eigu hennar. Út frá því hefjast bréfaskriftir og áður en Juliet veit af er hún farin að skrifa ítarlega blaðagrein um Bókmennta- og kartöflubökufélagið á Guernsey fyrir tímarit Times.

Öll bókin er í formi bréfa. Mér fannst eiginlega svolítið eins og ég væri að hnýsast inn í líf einhvers. Ég óskaði þess líka að ég kæmist yfir einhver svona bréf í alvörunni, því ég er svo hnýsin og hef svo gaman að því að lesa leyndarmál. Þess vegna fór ég í sagnfræði, því hvar annars staðar fær maður að lesa einkaskjöl fólks og kalla það fræðimennsku? Frásagnarformið sem Mary Ann valdi hentaði mér því mjög vel og hélt mér vel alla bókina. Ég gerði mér samt full vel grein fyrir því að þetta var skáldsaga en ekki alvöru bréf, þar sem upplýsingarnar í bréfunum voru nokkuð ítarlegar. Þau bréf sem ég hef lesið frá fornum tímum eru sjaldnast svona ítarleg og gera ráð fyrir að viðtakandi viti hitt og þetta um efni bréfsins. Samskipti hernámsliðs Þjóðverja og íbúa Guernsey er þungamiðjan í bókinni og Mary Ann tekst að vekja upp áhugaverðar spurningar og hugsanir um stríð og frið og samskipti manna á milli á stríðstímum.

Tilgerðarlegar persónur?

Persónurnar sem við kynnust mis vel í bókinni eru líka áhugaverðar. Sumar eru mjög ýktar, aðrar kjánalegar og nokkrar eru algjörlega fullkomnar. Það fór örlítið í taugarnar á mér hve fullkomin Juliet virðist vera. Hún er hnyttin, klár og full sjálfsöryggis (þótt Mary Ann reyni á einum stað að halda því fram að Juliet sé óframfærin) og hefur alltaf svar á reiðum höndum í öllum aðstæðum. Sumar aðstæður fannst mér líka heldur tilgerðarlegar, en það er kannski nákvæmlega það sem Mary Ann vildi ná fram. Eins og ég sagði áður, þá er allt í einhverri rjómakenndri þoku í bókinni. Persónurnar, bréfasamskiptin, umhverfið og eiginlega allt í bókinni er svo ægilega krúttlegt. mary-ann-shaffer-et-annie-barrows

Mary Ann Shiffer virðist hafa verið uppfull af fullkomnunaráráttu, því það tók hana 20 ár að skrifa bókina og hún náði jafnvel ekki að klára hana fyrir dauða sinn. Þess vegna tók systurdóttir hennar, Annie Barrows, við handritinu og kláraði bókina. Bókin sló strax í gegn og útgáfuréttur var seldur út um allan heim og núna nýlega var gerð bíómynd eftir bókinni. Ég sé fyrir mér að bíómyndin verði alveg afskaplega góð, þótt hún muni örugglega verða eitthvað myrkari en bókin. En það er eingöngu mín ímyndun, ég hef ekki séð myndina. Persónurnar í bókinni hljóta að henta einkar vel til aðlögunar á hvíta tjaldinu, eins ýktar og yndislegar sumar þeirra eru.

Ég mæli með bókinni fyrir þá sem vilja lesa indæla, krúttlega, þægilega og auðlesna bók í sumar.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...