IceCon 2018 – Furðusagnahátíð

Bókmenntir eru að einhverju leyti einmanalegasta listformið og hið fullkomna áhugamál fyrir einræna innipúkann sem leynist í okkur flestum. En í kringum bækur er líka að finna mjög líflegt félagslíf, útgáfupartý, upplestra, bókamessur og bókmenntahátíðir. Sem lesandi vissi ég alltaf af tilvist þessara fyrirbæra, en datt aldrei í hug að mæta. Ekki fyrr en ég gaf sjálf út bók og var boðið á bókmenntahátíð til að tala um hana. Og þvílík uppgötvun! Bókahátíðir eru alls ekki bara fyrir útvalda, þær eru fyrir alla sem hafa áhuga á bókum. Það er bara eitthvað svo skemmtilegt að vera í umhverfi þar sem bækur og sögur er það eina sem sem skiptir máli. Á hinni hefðbundnu bókmenntahátíð er boðið upp á dagskrá þar sem höfundar, innlendir og erlendir, ræða bækur sínar en hver bókmenntahátíð hefur sínar eigin sérstöku áherslur,sérsvið og stemmingu.

Núna um síðustu helgi fór fram, í annað skipti, furðusagnahátíðin IceCon. Hún er helguð vísindakáldsögum, fantasíum, hryllingi og myndasögum. IceCon er svokölluð aðdáendahátíð, sem þýðir að hún er fyrst og fremst skipulögð af lesendum og unnendum furðusagna. Þetta mótar líka dagskrána, því hún samanstendur ekki bara af útgefnum höfundum heldur líka fólki sem einfaldlega elskar furðusögur. IceCon er því bókmenntahátíð þar sem gestirnir, hinir hefðbundnu áhorfendur, leika óvenju stórt hlutverk. Hátíðin fór fyrst fram 2016, svo hún er enn í mótun. Vonandi mun hún vaxa og eflast, því hún er kærkominn vettvangur fyrir bókmenntagrein sem þykir af einhverjum ástæðum ekki sérlega fín á Íslandi og hefur haft lítinn aðgang að hefðbundinni bókmenntaumfjöllun.

Hátíðin fer fram í Iðnó og er óskaplega kósí, enda góður andi í húsinu, þó aðgengi fyrir hreyfihamlaða sé enn vandamál. Allir sem taka þátt í hátíðinni, erlendir metsöluhöfundar jafnt sem almennir gestir, sitja saman við hringborð í salnum meðan dagskráin fer fram uppi á sviði. Dagskráin er á ensku, því aðdáendahátíðir af þessu tagi eru í eðli sínu fjölþjóðlegar og dedíkeraðir aðdáendur sækja mismunandi hátíðir út um allan heim. Hátíðin er því skemmtilegust ef maður nær að kynnast nýju fólki og ég mæli með því að stunda IceCon af fullri einbeitingu. Mæta á alla dagskrárliði, hanga á hátíðarbarnum eða kaffihúsinu þess á milli og mæta á öll pub quiz og óformlega hittinga sem eru í boði. Skrifa skipuleggjendunum og spyrja hvort þeir hafi áhuga á að leyfa þér og vinum þínum að búa til dagskrárlið þar sem þið talið í 45 mínútur um allt sem ykkur finnst frábært/ómögulegt við Harry Potter heiminn, nýju Star Wars seríunni eða einhverju öðru álíka nördalegu.

Sem svefnlaus móðir átta mánaða mjólkursvelgs þá gat ég því miður ekki gert þetta í ár. Ég mætti klukkan eitt og fór klukkan hálffjögur bæði laugardaginn og sunnudaginn. Ég náði samt að hlusta á báða heiðursgesti hátíðarinnar í ár, annars vegar bandaríska metsöluhöfundinn Naomi Novik og svo bókmenntafræðinginn Úlfhildi Dagsdóttur. Ég mæli með Novik fyrir þá sem ekki þekkja hana, hún er fyrst og fremst fræg fyrir níu bóka seríu sína um feril drekans Temeraire í Napóleonsstyrjöldunum. Tvær þeirra hafa komið út á íslensku en fyrir mitt leyti er ég hrifnari af stöku skáldsögunni Uprooted. Hún er ekkert annað en frábær og ég hlakka til að byrja á nýjustu bókinni hennar, Spinning Silver. (Ég hef ákveðið að bíða með að kaupa mér hana þar til ég næ í skottið á ensku útgáfunni, því kápan er svo miklu fallegri en sú upprunalega ameríska. Já, ég stjórnast af yfirborðsmennsku og margvíslegu snobbi.) Ég var því mjög spennt fyrir því að sjá hana á hátíðnni. Það er svo skemmtilegt að hlusta á höfunda tala um verkin sín, jafnvel þó maður hafi ekki lesið þau. Höfundar eru oftast skemmtilegt fólk og gaman að heyra hvað liggur að baki verkum þeirra.

Sem höfundur sem hefur verið í þessum aðstæðum veit ég samt að þetta er að einhverju leyti sjónhverfing. Sá sem vinnur alla vinnuna í svona viðburðum er spyrillinn. Góður spyrill getur látið mestu dauðyfli hljóma eins og andans jöfra og slæmur spyrill getur látið frábæra höfunda líta út eins og algjöra aula. Ég hef sem betur fer bara lent í fyrri aðstæðunum og þessi tvö viðtöl á IceCon um helgina voru mjög faglega unnin og skemmtileg. Ég missti hins vegar af næstum því öllum fínu pallborðsumræðunum sem voru í boði! Fyrir utan þær umræður sem ég tók sjálf þátt í, og svo eina um birtingarmyndir fötlunar í furðusögum. Ég get að sjálfsögðu ekki dæmt um hversu skemmtilegar umræðurnar sem ég tók þátt í voru, og get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir neinni opinberun eftir panelinn um birtingarmyndir fötlunar. Þátttakendurnir töluðu í sitthvora áttina einhvern veginn, ég hafði jafnvel á tilfinningunni að það hefði myndast innbyrðis pirringur á sviðinu. En þetta er náttúrulega viðkvæmt umfjöllunarefni sem kallar á sterkar skoðanir.

Ég þakka því IceCon2018 kærlega fyrir mig og hvet alla sem hafa áhuga til að mæta að tveimur árum liðnum. Ef það er of langur tími, eða ef furðusögur höfða ekki til þín, kæri lesandi, þá eru fleiri bókmenntahátíðir í boði. Til dæmis barnabókmenntahátíðin Mýrin, sem byrjar hreinlega næsta fimmtudag.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...