Ástin á tímum Stasi

Ung að árum kynnist Kristín austur - þýskum raunveruleika og ástinni handan við múrinn.

Ung að árum kynnist Kristín austur – þýskum raunveruleika og ástinni handan við múrinn.

Svöng, þyrst og ótrúlega taugaveikluð. Þannig leið mér þegar ég las Ekki gleyma mér eftir Kristínu Jóhannsdóttur, blaðamann og safnstjóra Eldheima í Vestmannaeyjum. Bókin kom út í fyrra en ég frétti ekki af henni fyrr en nú fyrir stuttu. Já, svöng og þyrst. Aldrei á ævinni hef ég upplifað eins mikinn þorsta eins og þegar ég las þessa bók.

Bókin segir frá námsárum Kristínar sem flytur til Austur – Þýskalands árið 1987 meðal annars í leit að ævintýrum sem hún svo sannarlega finnur. Hún skráir sig í háskólann í Leipzig og kemst fljótt að því að lífið hinum megin við múrinn er ekki dans á rósum.

Andi Stasi svífur yfir öllu og enginn er óhultur.

Bókin er byggð upp úr dagbókum Kristínar sem hún hélt á meðan á námi sínu stóð. Fyrir mig var þetta afar lærdómsrík lesning.

Fjarlægur raunveruleiki

Sjálf er ég fædd ári eftir fall múrsins og því var hann aldrei neitt annað í mínum huga en sagnfræðileg staðreynd. „Almáttugur!“ hugsaði ég nánast í hvert skipti sem ég fletti. Ég kynntist því í fyrsta sinn á ævinni hvernig heimurinn virkaði hinum meginn við múrinn en Kristín lýsir upplifun sinni á mjög næman hátt. Hún segir frá stóru ástinni í lífi sínu, austur-þýskum blaðamanni, sem hverfur síðan sporlaust eftir fall múrsins. Lesandinn hrífst með frá fyrstu blaðsíðu og líður nánast eins og hann standi við hlið Kristínar og feti með henni leiðina að sannleikanum sem vafinn er inn í ógnvekjandi heim stóra varðturnsins sem gnæfir yfir öllu. Íbúar sem áttu ekki sitt eigið líf og fundu oft fyrir skorti, líkamlegum sem og sálrænum, ganga um göturnar og lifa lífi sem aðrir stjórna.

Spurningarnar sem vakna við lesturinn eru þessar: Hverjum er hægt að treysta? Hvað varð um ástmögurinn? Af hverju er alltaf verið að taka aðalpersónuna til hliðar og spyrja hana undarlegra spurninga og hvernig veit fólk alltaf hvar hún hefur verið og með hverjum? Hvaða áhrif hefur þetta námsár á framtíðina?

Ekki gleyma mér ber nafn með rentu. Þetta er bók sem enginn gleymir. Nokkru sinni. Því hún verður svo áþreifanleg í ímyndunaraflinu að lesandi upplifir sig líkt og persónu í bókinni, þar sem hann getur engum treyst, er alltaf svangur, alltaf þyrstur og allir eru að fylgjast með.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.