Draugagangur, leyndarmál og siðlaus samstaða

Kápumyndin er að mati undirritaðrar ekkert sérstaklega mikið fyrir augað en hún nær engu að síður vel þema bókarinnar. Hver var stúlkan í glugganum?

Ég var mjög spennt að lesa nýjustu bók Ragnars Jónassonar, Þorpið og var því afar kát þegar það var haft samband við mig frá bókasafninu og mér tjáð að hún væri komin og biði mín. Nánast um leið hófst lesturinn. Bókin er níunda bók Ragnars og fjallar um Unu, ungan kennara á níunda áratugnum, sem ræður sig til starfa í Skálaþorp á Langanesi þar sem bíða hennar tveir ungir nemendur og gisting í afar draugalegu húsi. Undarlegt andrúmsloft og leyndarmál mæta henni í þorpinu og vanlíðan Unu verður meiri með hverjum deginum.

Bókin var afar spennandi og ég kláraði hana á skömmum tíma enda er texti Ragnars mjög flæðandi og það loftar vel um hann. Þá finnst mér kvenpersónurnar, sem eru stór hluti sögunnar, vera vel skrifaðar og Ragnar nær vel að koma til skila hugarheimi Unu.

Þema bókarinnar er að mínu mati samstaða; hversu langt er maður tilbúinn að ganga til að vernda þann sem maður elskar?

Þetta er í raun afar klassískt þema í sjálfu sér, sér í lagi ef persónur og leikendur eru tengdir blóðböndum, en Ragnari tekst að víkka út fjölskylduhugtakið og setja það í samhengi við tengsl þeirra sem búa í litlum og afskekktum samfélögum, þar sem utanaðkomandi eru litnir hornauga; alltaf er þó brosað til þeirra en þó aðeins fyrir kurteisissakir.

Bókin hefur hingað til fengið afar misjafnar viðtökur; sumir lofa hana í hástert á meðan aðrir segja hana frekar óraunsæja. Sagan er í grunninn draugasaga en þær hafa hingað til ekki verið mjög raunsæjar og byggja fremur á upplifun þess sem hana segir fremur en hávísindalegum staðreyndum. Þess vegna angraði það mig aldrei að sagan væri afar skáldleg í því tilliti. Þetta er jú spennusaga þar sem hið yfirnáttúrulega leikur stóran þátt. Ég skemmti mér því konunglega við lesturinn. Hér verður þó að koma fram að þetta er fyrsta bókin eftir Ragnar sem ég les og ég hef hingað til ekki verið mikið fyrir að lesa spennusögur. En nú virðast tímarnir vera að breytast enda konan orðin 28 ára og greinilega farin að þroska með sér nýjan bókmenntasmekk, sem er bara gott og afar blessað.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...