Vegurinn heim lengist með hverjum morgni

Sá höfundur sem hefur verið í hvað mestu uppáhaldi hjá mér síðustu árin er Fredrik Backman en hann skrifaði bókina um Ove. Síðan hefur líf mitt ekki verið samt. Ég tala oft um lífið fyrir og eftir Ove, vitna oft í Ove og sé Ove í fullt af fólki sem ég umgengst dagsdaglega. Og það er svo margt í þeirri bók sem breytti mér og minni sýn á fólk. Þess vegna gríp ég allt sem kemur út eftir þennan höfund.  Á síðasta ári kom svo út nýjasta bók höfundarins Vegurinn heim lengist með hverjum morgni og ég var ekki sein á mér að panta eintak. Þessi bók hitti mig beint í hjartastað á allt annan hátt en til dæmis Ove. Hún er angurvær og döpur en jafnframt svo falleg og hlý og stundum uppfull af kímninni hans Bakmans sem er svo sérstök. Það hlýtur nefnilega að vera erfitt að skrifa um þetta viðfangsefni sem Alzheimer er, án þess að falla í drungalegan og myrkan tón en það er akkúrat ekkert drungalegt eða myrkvað í þessari litlu sögu.

Bókin fjallar um Nóa, lítinn dreng, sem á í fallegu sambandi við afa sinn. Afinn fræðir þann stutta um lífið og tilveruna, gamla daga og nýja. Hann fylgist með lífi Nóa, setur sig inn í hans daglega líf í skólanum og Nói nýtur samvistanna við afa sinn.

Smám saman kemst Nói að því að afi hans gengur ekki heill til skógar, afinn fer að hverfa honum smám saman og þó tilhugsunin um lífið án afa gamla sér óbærileg þá fær Nói ákveðinn tíma til að aðlagast veikindum afans og tilhugsuninni um líf án hans.  Hann fylgir honum í gegnum erfitt ferli, öðlast skilning á því sem afinn er að ganga í gegnum á sama tíma og hann sjálfur fær innsýn inn í skrýtinn hugarheim veikinnar, sem tekur yfir og kæfir allan tíma, skyn og rúm. Faðir Nóa er svo nálægur og óljóst gerir afinn sér grein fyrir að hafa misst af tækifærinu með syni sínum, þeir voru svo ólíkir og sonurinn hneigðist að öðrum hlutum en afinn sem var oft á tíðum upptekinn og gaf syninum ekki þann tíma sem hann hefði þurft.  Allt um kring er svo amman, sem er dáin en birtist gamla manninum sem sér hana af og til, þegar tíminn snýst í hringi og ekkert er eins og það á að vera. Bókin er stutt, aðeins 70 blaðsíður en hver síða er hlaðin gullkornum og samtölum sem gleymast ekki lesandanum í bráð. Sem dæmi má nefna samtöl afans við ömmuna:

-Minningarnar renna burt frá mér, ástin mín. Það er eins og að reyna að taka olíubrák af vatni með fingrunum. Ég er alltaf að lesa bók sem í vantar eina síðuna. Og það er alltaf mikilvægasta síðan.
-Ég veit, ég veit að þú ert hræddur, svarar hún og gælir mjúklega við vanga hans með vörunum.
-Hvert leiðir þessi vegur okkur?
-Heim, svarar hún.

Í upphafi var textinn birtur á bloggsíðu Backmans og þar var fólk hvatt til að leggja ákveða upphæð til góðs málefnis. Eftir mikinn þrýsting og þegar textinn var farinn að lifa sjálfstæðu lífi ákvað Backman að gefa út þessa bók. Formáli bókarinnar er virkilega áhrifaríkur og ég ætla að enda þessa umfjöllun mína á smá kafla úr honum, sem sýnir hvað þessi skrif eru ótrúlega frábær. Ef ég gæti myndi ég gefa bókinni 50 stjörnur!

Ég held þetta hafi allt saman byrjað þegar ég hlustaði á viðtal þar sem ein af fyrirmyndum mínum sagði: „ Það versta við að verða gamall er að maður fær ekki lengur neinar hugmyndir.“  Þessi orð sátu föst í huga mér, þessi sorg:  Að ímyndunaraflið gefi sig á undan líkamanum. Ég geri hálfpartinn ráð fyrir að þessi tilfinning sé útbreidd, því mannskepnan er skrýtin að þessu leyti. Margir virðast óttast það meira að verða gamlir en að deyja. En að fólk hafi orð á því að það fái ekki neinar hugmyndir lengur? Að það glati ímyndunaraflinu?  Tilhugsunin ólgaði innra með mér, því ímyndunaraflið hefur verið mér allt. Þegar ég var lítill, reisti ég mér óteljandi þykjustuheima og flúði inn í þá í hvert skipti sem ég varð hræddur eða einmana og vissi ekki hvernig ég átti að passa inn í veruleikann. Á fullorðinsaldri geri ég þetta ennþá, því ég er enn ekki viss. Þessir heimar hafa bjargað lífi mínu. Og þetta varð saga um slíka heima.“ (Backman, bls 8)

 

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...