Fantasísk og raunsæ skáldsaga um mennskuna

Guðrún Eva Mínervudóttir er stórkostlegur rithöfundur. Sögurnar hennar eru raunsæjar en þó með keim af fantasíu; besta blandan að mínu mati. Eins og kannski flestir vita þá er þema marsmánaðar geðveikar bækur, þ.e. bækur sem fjalla um geðveiki eða andleg veikindi á einhvern hátt. Þess vegna er þessi færsla tileinkuð bók Guðrúnar Evu sem byggð er á hennar lífi og segir hennar sögu og upplifun af andlegum veikindum. Skegg Raspútíns kom út um jólin 2017 og var vel tekið. Bókin er samband sannsögu og skáldsögu.

Sagan segir frá Evu, þýðanda og rithöfundi, sem er nýflutt til Hveragerðis ásamt manninum sínum Matta og dóttur þeirra Mínervu. Þar kynnist hún lettneska garðyrkjubóndanum Ljúbu og með þeim myndast náið vinkonu samband. Eva heillast strax af viðmóti Ljúbu og fortíð hennar og Eva fær einskonar þráhyggju fyrir því að vita meira í þeirri von að þá loks muni hún geta slakað á.

Saga um sögu og sögulegar staðreyndir

Sagan er í raun um saga Ljúbu en einnig saga Evu sem glímir við svefnvandamál og kvíða. Hluti sögunnar gerist í raunheiminum þar sem vinkonurnar hittast og spjalla um lífið og tilveruna en hinn hlutinn gerist í draumaheimi Evu eftir að Eva líður út af á eldhúsgólfinu heima hjá sér, uppgefin á sál og líkama. Draumaheimasenan er súrrealísk þar sem Eva og Ljúba skemmta sér saman í garðpartýi, hitta mann og annan auk þess sem Eva fer ofan í kjarna vandamála sinna þegar hún mætir sjálfri sér í öðrum veruleika.

Hér er áhugavert að fyrir stuttu opnaði Guðrún Eva sig og sagði opinberlega frá því þegar hún upplifði kulnun og rímar sú lýsing vel við umfjöllun bókarinnar. Þess vegna passar þessi bók svo vel inn í þema mánaðarins; hún er sönn, falleg og raunsæ. Texti Guðrúnar Evu er yndislegur. Ég elskaði að lesa þessa bók; lýsingarnar og næmni hennar fyrir umhverfinu og hinu mannlega snerta streng í brjósti lesandans.

Þá fléttar Guðrún Eva sögu síðustu rússnesku keisarahjónanna snilldarlega saman við frásögnina þar sem ég skildi það sem svo að Eva upplifði Ljúbu sem einskonar sáluhjálpara líkt og Raspútín, hinn mennski og umdeildi, var konungsfjölskyldunni á sínum tíma. Eva hafði nýlega lesið um sögu rússakeisara og Raspútíns í bókinni og þannig sér hún hliðstæður í því sem hún les og hinu raunverulega. Raspútín er í raun hið mannlega með öllum sínum kostum og göllum og táknmynd fyrir sálarlíf aðalpersónanna tveggja.

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...