Yndislegar tónbækur fyrir börn (og fullorðna)

Þessar bækur eru í uppáhaldi á mínu heimili og eru oft dregnar fram fyrir svefninn þar sem við fjölskyldan syngjum nokkrar vel valdar vögguvísur áður en haldið er inn í draumalandið.

Uppáhalds bækur dóttur minnar þessa daganna (1 árs) eru Tónbækur Jóns Ólafssonar tónlistarmanns og Úlfs Logasonar myndlistarmanns en í þeim hefur Jón Ólafsson valið 20 falleg lög og vögguvísur sem skreytt eru með vatnslitamyndum Úlfs. Bækurnar eru tvær talsins; Vögguvísurnar okkar og Fallegu lögin okkar.

Eins og áður sagði elskar dóttir mín þessar bækur og það er fátt sem gleður hana jafn mikið og þegar hún situr með þessa bók í kjöltunni og skoðar myndirnar. Það sem er svo yndislegt við þessar bækur er að bókin er eins konar spiladós, þannig að börnin geta sungið lögin með undirleik Jóns eða bara notið þess að hlusta á laglínuna. Þetta finnst mér algjör snilld og dóttur minni líka. Hún elskar að ýta á play takkann og hlusta á lögin, dilla sér og reyna að syngja með.  Stundum stoppar hún í miðju lagi og byrjar á byrjuninni og þá taka við tíu mínútur þar sem hún spilar bara byrjunina á laginu, okkur foreldrunum til mikillar gleði, þar til hún fer aftur að dansa og syngja með; börnum finnst náttúrulega fátt skemmtilegra en að ýta á takka. Þessi bók er alltaf dregin fram þegar hún er lítil í sér og þá kætist hún samstundis.

Svona bækur finnst mér nauðsynlegar því þær hjálpa til við að kynna barninu fyrir íslenskri tónlist ásamt því að örva börnin og þróa með þeim tóneyra. Lögin eiga það öll sameiginlegt að vera þjóðþekkt og allir geta sungið með, líka laglausir því það er auðvelt að hækka í tækinu og leyfa undirleik Jóns að njóta sín. Þá eru myndir Úlfs líka einstaklega skemmtilegar og byggðar upp á fremur expressjónískan hátt þar sem vatnslitamálningin fyllir ekki endilega upp í rammann og línurnar og minnir margt á hvernig krakkar sjálfir teikna; hispurslausir og fullir af gleði.

Klárlega skyldueign á öllum heimilum!

 

 

 

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...