Draumkenndur koss í geðveikum veruleika

Það mætti halda, miðað við aldur og fyrri færslur, að ég væri með blæti fyrir fimm stjörnu bókum en ég get svo svarið það að ég held að ég hafi bara ekki lesið bók undanfarið sem mér fannst ekki vera fimm stjörnu virði! Ekki dæma mig of hart samt! Kannski er ég bara svona rosalega hrifnæm. Gæti vel verið.

Áfram veginn! Næst á dagskrá er Allt með kossi vekur, skáldsaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur. Fyrir þá bók hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011. Þetta er erfið saga að mörgu leyti en mjög fallega skrifuð og textinn flæðir þægilega fram. Sagan gerist í rauntíma þegar Davíð fer í gegnum gamlar myndasöguteikningar
fósturföður síns Láka en einnig á hinu örlagaríka ári 2003 þegar það varð, samkvæmt sögumanni, Kötlugos sem hrikti í stoðum samfélagsins og í hugarheimi þess jafnvel líka.

Koss geðveikinnar

Sögumaðurinn er, sem áður sagði, Davíð og er ættleiddur frá Suður-Ameríku af Elísabetu sem var ung að árum á flakki um heiminn. Henni lýsir Davíð sem draumkenndri veru sem endurfæddist eftir koss sem hún hlaut frá ómyndarlegum pilti í æsku. Frá þeim tíma sagðist hún ekki þurfa að sofa og lifði eins og einskonar vatnadís á meðal manna. Kossinn vakti upp í henni kenndir og drauma sem fylgdu henni út lífið og höfðu misgóð áhrif á hana og fólkið í kringum hana. Í raun er sem Guðrún Eva tengi kossinn við sögu Biblíunnar um Lífsins tré og Skilningstréð en sú saga er sögð í byrjun bókarinnar í formi myndasögu. Allir sannkristnir, minna kristnir og heiðnir menn þekkja þá sögu; þegar Adam og Eva óhlýðnuðust Guði og voru í kjölfarið dæmd til að lifa í raunheiminum án alls hins fagra og draumkennda sem Eden hafði upp á að bjóða. Kossinn gæti því verið einskonar táknmynd fyrir raunveruleikaflótta og syndir og Elísabet er þannig snákurinn sem táldregur alla með fögrum orðum, loforðum og að lokum kossinum sem hún býður hverjum þeim sem þiggja vill. Ég tek það fram, ef mig skyldi kalla, að ég er ekki bókmenntafræðingur heldur aðeins pía í Fossvoginum, búin með fimm kaffibolla og sé myndlíkingar í hverju horni. Nóg um það, höldum áfram!

Á meðan Davíð skimar í gegnum gögn og myndasögur Láka leitast hann við að skilja fortíð móður sinnar og áhrif hennar á aðra, sér í lagi Ingibjörgu æskuvinkonu hennar og mann hennar Jón. Elísabet býr yfir einhverju ógnarvaldi tortímingar sem tælir hvern þann sem henni kynnist og dregur niður í svaðið. Þegar Elísabet kyssir Jón í matarboði snýst atburðarrásin á hvolf og geðveikin umlykur allt og alla. Sögumaður týnist í sínum eigin rannsóknum og líf hans fer að snúast algjörlega um að finna út hvað kom í rauninni fyrir Ingibjörgu og Jón og hver þáttur móður hans í hörmulegum örlögum þeirra var.

Óhugnaður í raunheimi og flótti frá mennskunni

Þetta óhugnaleg saga sem minnir margt á aðrar skáldsögur Guðrúnar Evu sem dansa á mörkum fantasíu og raunveruleika. Hér tengir hún saman draumaheima Ingibjargar við hina raunverulegu fantasíu Elísabetar sem heldur sig magnaðari en aðrar manneskjur en í rauninni er hún ekkert nema laskaður dópisti á flótta undan eigin mennsku. Persónurnar eru mjög svo mennskar og djúpar og lesandinn hrífst með inn í atburðarrásina frá fyrstu setningu.

Inn á milli kafla eru síðan teikningar eftir Sunnu Sigurðardóttir sem eiga að sýna myndasögur Láka sem Davíð er að gramsa í gegnum en þær á Láki að hafa unnið á þeim tíma er Kötlugosið stóð sem hæst. Myndasögurnar hjálpa lesanda að fara nær hugarheimi Láka, kærasta þessarar ógnarkonu sem Elísabet er, og skilja hvernig hugarheimur listamannsins fyllist lífi í miðri óreiðunni sem umlykur hann. Allt með kossi vekur er bæði sjónlega falleg og ýfir upp ímyndunarafl lesandans eins og aðeins góð bók gerir.

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....