“Bara nokkur gól og manni líður strax betur”

Ég hef áður minnst á það hversu frábært það er að vera í leshóp. Við erum fimmtán konur í mínu bæjarfélagi sem hittumst einu sinni á mánuði, skeggræðum þá bók sem var lesin og erum sjaldnast sammála.  Það var einmitt fyrir ári síðan að ég átti stefnumót við hópinn minn og fékk þá í hendurnar næstu bók sem var fyrir valinu. Skáldsaga eftir finnska höfundinn Arto Paasilinna. Eg fór heim með bókina, hafði aldrei lesið neitt eftir þennan höfund og var satt að segja ekkert sérstaklega spennt að byrja. Heimsins besti bær hét bókin og eftir fyrstu tvo kaflana gat ég ekki lagt hana frá mér.

Ég stóð með bókina yfir grjónagrautarpottinum og las, las í baði og las á meðan ég átti að vera að gera allt annað. Þangað til að bókin var búin. En þessi bók er ekki umfjöllunarefnið hér. Ekki í þetta sinn.  Ég var þarna búin að kynnast Paasilinna og ekki aftur snúið, næst á dagskránni var að fara og sanka að mér öllu sem hafði verið þýtt eftir hann. Og þá las ég þá stórgóðu bók Malarinn sem spangólaði. Og það er bókin sem mig langar að fjalla um  núna.

Arto Paasilinna er finnskur höfundur og einn þeirra vinsælustu  í sínu heimalandi. Ég segi er en staðreyndin er sú að hann lést í október í fyrra, 2018 og ég er ekki alveg búin að sætta mig við þau sorglegu tíðindi að eiga ekki eftir að lesa meira eftir hann, loksins þegar ég var að finna hann.  Hann hefur skrifað fjöldan allan af skáldsögum, þar á meðal Ár hérans sem kom út í íslenskri þýðingu 1999 og svo Dýrlegt fjöldasjálfsmorð en hún kom út hér á landi 2003. Þá bók er ég búin að útvega en er að spara mér lesturinn, eins og konfekt sem mig langar ekki að klára. En þá að umfjöllunarefninu, loksins.

Malarinn sem spangólaði er samfélagsádeila, eins og allar sögur Paasilinna. Bókin kom út í Finnlandi 1981 en efni hennar á fullt erindi við okkur í dag og eiginlega með ólíkindum hvað hann hefur verið á undan sinni samtíð með margt sem nú er opið í umræðunni en var hulið vanþekkingu og fordómum á þeim tíma sem bókin kom út. Hugtök eins og þunglyndi, geðveiki og einmanakennd, þetta var ekki rætt á þessum tíma í upphafi níunda áratugarins. Paasilinna er því frumkvöðull í þessari umræðu sem núna þykir sjálfsögð.

Bókin fjallar um Gunnar Huttunen (þessu finnsku nöfn eru bara dásamlegur kafli einn og sér) en hann sveiflast á milli þess að vera þunglyndur eða í hæstu hæðum. Þegar líðanin er sem verst fer hann út í skóginn og fær útrás með því að spangóla eins og hundur, svo hátt og mikið að það truflar nætursvefn þorpsbúanna í nágrenninu. Þorpsbúar taka þessu ekki þegjandi, þeim leiðist þetta gól í malaranum, skilja ekki þörfina og líta þessa hegðun illum augum. Að sama skapi gefur Gunnar því lítinn gaum hvað þorpsbúum finnst um hann, hann fer sínar eigin ótroðnu slóðir fólkinu til ama og leiðinda sem telja hegðun hans ekki normal og á endanum fylkja þorpsbúar liði og  láta nauðungarvista malarann á geðdeild sjúkrahússins.  En Gunnari tekst að strjúka og flýja til skógarins og þar þarf hann ekki að eiga við neinn nema sjálfan sig og þær áskoranir sem fylgja því að búa í óbyggðum og svo auðvitað lagana verði sem reyna allt sem þeir geta að ná honum aftur á geðsjúkrahúsið.  Og þá fyrst reynir á geðheilsu Gunnars. Neyðin gerir það að verkum að hann fremur ýmis afbrot til að geta lifað af en verða líka til þess að einangra hann enn frekar frá samfélaginu.

Þessi bók er uppfull af fyndni, skemmtilegum persónulýsingum og skondnum uppákomum. En undirtóninn er á alvarlegri nótum. Paasilinna deilir á samfélagið, fordómana sem við erum haldin gagnvart þeim sem eru öðruvísi og hvernig við hræðumst þá sem skera sig úr með einhverjum hætti. Hann veltir líka upp þeirri spurningu hvað það sé að vera normal og hverjir séu þess umkomnir að dæma hvað sé normal og hvað ekki. Ástin er svo aldrei langt undan en líka hún er vegin og mæld.

Ég er afskaplega ánægð með þessa sögu og þennan finnska stórskemmtilega höfund. Skil ekkert í því að hafa ekki fundið hann fyrr. Hann er Einar Kárason þeirra Finna, hnyttinn og kaldhæðinn, samtölin eru grátbrosleg og persónulýsingarnar eru óborganlegar. Þessi bók minnir mann á að öllum sé hollt að líta örlítið útfyrir kassann og að umburðarlyndi gagnvart náunganum kostar ekkert. Maður gæti meira að segja grætt örlítið á því. Ég ætla klárlega að skoða fleiri finnska höfunda. Þeir greinilega leyna á sér.

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...