Svakaleg byrjun og góð afþreying

Ég, eins og svo margir Íslendingar, og jarðarbúar ef út í það er farið, fór upp í bústað um páskana og tók vitaskuld með mér bækur. Ein af þeim var páskakrimminn Þar sem ekkert ógnar þér eftir hollenska höfundinn Simone van der Vlugt en hún er einn þekktasti glæpasagnahöfundur Hollands. Bókin hefur fengið glimmrandi viðtökur og dóma víða um heim og því var ég mjög spennt þegar ég hóf lesturinn.

Nei halló beibí, HVAÐ ER AÐ GERAST!

Bókin byrjaði SVAKALEGA svo ég leyfi mér að skrifa með hástöfum. Það má eiginlega segja að það sé enginn inngangur; engin stutt kynning á hugarheimi aðalpersónu eða hennar högum; ekkert sem leiðir að atburðarrásinni. Sagan einfaldlega BYRJAR (einnig með hástöfum) og ofbeldið sem kemur þar á eftir er hryllilegt.

Þessi byrjun er áhugaverð í bókmenntafræðilegu samhengi (án þess að ég sé sérfræðingur) en svona inngangar virka ekki beint fyrir mig persónulega. Ég þarf smá andrými sem grípur mig inn í sögurnar, en það er bara ég. En ekki er hægt að þræta fyrir það að inngangurinn er spennandi.

Af hverju þurfti hann endilega að álpast þangað?

Í stuttu máli sagt þá fjallar bókin um mæðgurnar Lisu og Anook sem eru teknar í gíslinu á sínu eigin heimili af geðveikum strokufanga, enn ekki hvað! Sagan segir einnig frá Sentu sem verður vitni að atburðarrásinni úr fjarlægð en aðstæður, sem ekki verður farið út í nánar hér, valda því að hún nær ekki að láta yfirvöld vita. Sagan hverfist þannig um líf mæðgnanna sem lifa í hræðslu í sínu eigin húsi og líf Sentu sem byggir í raun á minningarbrotum og sögum úr fortíðinni; leit hennar að sjálfri sér í ringulreið lífsins.

ofbeldisfull afþreying fyrir sumarfríið

Sagan er spennandi og á fína toppa en er mjög ofbeldisfull. Ég átti í raun erfitt með að lesa hluta úr henni en náði einhvern veginn að rífa mig í gegnum þann part. Annars er þetta ágæt glæpasaga sem ég náði að gleypa í mig á tveimur dögum, milli bleyjuskipta, matartíma og páskaeggjaáts. Hins vegar finnst mér hún ekki vera neitt sérstakt bókmenntalegt afrek en hún er fínasta afþreying. Þannig er hún tilvalin til að taka með í sumarfríið á ströndina, í bústaðinn eða upp á Hvannadalshnjúk. Mæli samt persónulega með fyrri tveimur, en ég er soddan sófakartafla.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...