Ofur Kalli og tuskudýraþjófurinn

Það kann að hljóma furðulega miðað við fyrri yfirlýsingar frá mér en ég á erfitt með að sleppa tökunum á glæpasögum barnanna. Þegar bækur stoppa stutt við á skólabókasafninu hjá mér þá grípur mig forvitni og ég reyni að hnupla þeim á milli útlána til að lesa. Börn eru afar hreinskilin í sínum skoðunum á bækur og ef bókin grípur ekki strax sjá þau ekki tilgang með að eyða frekari tíma í hana. Mér finnst þetta eiginleiki sem mig hefur nú í seinni tíð langað að tileinka mér því ég veit ekki hversu oft ég hef eytt tíma í grútleiðinlegar og illa skrifaðar bækur. Sem svo skilja ekkert eftir sig nema eftirsjána eftir tímanum sem fór í að lesa. Því sjaldan hefur bók snúist úr því að vera leiðinleg í eitthvað annað á lokasprettinum.  En þetta er útúrdúr, eins og svo oft hjá mér. Þið verið að sýna mér örlitla þolinmæði, ég get þvaðrað endalaust um bækur og enda yfirleitt út og suður.

Þeir eru nokkuð margir bókaormarnir sem sækja heim skólabókasafnið hjá mér utan þess skyldutíma sem skólinn skammtar þeim. Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart, umræðan hefur verið á þá leið að börn séu hætt að lesa. Það er afskaplega mikill miskilingur.  Mín upplifun er nefnilega sú að það er fullorðna fólkið sem er hætt að lesa.  Þess vegna er það svo skemmtilegt að hitta fyrir heila fjölskyldu sem hefur lestur að áhugamáli.

Sævar Hjalti Þorsteinsson er nemandi í 1. bekk í grunnskólanum í Grundarfirði og hann er svo sannarlega orðinn læs! Það má eiginlega segja að þessi skemmtilegi strákur sé afreksmaður í lestri, í páskafríinu las hann um tíu bækur og sennilega fara þær að nálgast hundrað sem hann hefur lesið frá því um jól. Bækurnar um Goðheima er í sérstöku uppáhaldi og þó Sævar sé duglegur að lesa finnst honum líka gaman að láta lesa fyrir sig, þó hitt sé skemmtilegra. Um jólin fékk Sævar verðlaun í lestrarátaki Menntamálastofununnar og eins fékk hann verðlaun í lestrarátaki Ævars vísindamanns nú fyrir stuttu. Ég fékk hann í lið með mér til að kryfja glæpasögu frá einni af þekktari glæpasagnadrottningum samtímans, Camillu Läckberg. Og nú spyrja kannski einhverjir hvað í ósköpunum ég sé að láta börnin lesa, ljótar glæpasögur fyrir fullorðna? Nei, ekki er það nú þannig, Camilla Läckberg hefur nefnilega líka skrifað  glæpasögur fyrir krakka og gerir það bara nokkuð vel, allavega að mati Sævars Hjalta sem eyddi einni kvöldstund í að lesa bókina um Ofur-Kalla og  tuskudýraþjófinn en sú bók er önnur í röðinni um þessa skemmtilegu ofurhetju.

Ofur Kalli er lítill strákur sem er gæddur ofurkröftum. Hann heyrir mjög vel og getur t.d flogið en það veit enginn nema amma hans sem geymir leyndarmálið hans vel. Eina nóttina er bangsa stóru systur hans stolið og eftir mikla leit allra fjölskyldumeðlima virðist bangsinn gufaður upp. Daginn eftir, þegar allir eru farnir í vinnu eða í skóla halda amma og Ofur Kalli áfram að leita og finna vísbendingar sem leiða þau að lausn gátunnar.

Sævar Hjalti gaf þessari bók toppeinkunn, honum fannst sagan skemmtileg og myndirnar eftir Millis Sarri bæta helling við söguna.  Sævari langar að lesa fleiri bækur um Ofur Kalla og miðað við lokaorðin í bókinni er aldrei að vita nema að það gerist. Honum fannst líka afskaplega gaman að lesa bók eftir sama höfund og bækurnar sem mamma hans, Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir, safnar í bunkum en hún er sérlegur aðdáandi glæpasagna og Läckberg, og hefur lesið allt gefið hefur verið út eftir hana, nema þó bækurnar um Ofur Kalla, þar stendur Sævar Hjalti henni framar.

Við Sigurrós Sandra, eða Rósa eins og hún er kölluð, ræddum svo lítillega um nýjustu bók Läckberg en sú bók er víst sér kapituli útaf fyrir sig og hefur valdið aðdáendum Läckbergs heilmiklum heilabrotum.

Bókin um Ofur Kalla fær fjórar stjörnur frá Sævari Hjalta, hún hefði fengið fimm hefði hún verið aðeins lengri.

 

 

 

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...