1793 er fyrsta bók Niklas Natt och Dag en sá er Svíi af afar fornum aðalsættum. Í bókinni1793 mætast þrír heimar; heimur aðalsins, heimur millistéttarmannsins og loks heimur lágstéttarinnar. 18. öldin hefur löngum verið þekkt sem öld byltinga en þar trónir vafalaust franska byltingin á toppnum þar sem lágstéttin reis upp gegn aðlinum og því soralífi sem þar viðgekkst. Í þessari bók má sannarlega sjá ummerki þeirrar öldu. Aðallinn situr í peningasvalli og lifir því sem helst mætti kalla úrkynjuðu lífi þar sem ekkert svalar þörf karlmannanna annað en hórur og vægast sagt viðbjóðslegur lifnaður. Níðst er minnimáttar og staða hinna lágt settu er á við dýr. Þau eru ekkert í þeirra augum annað en mögulegt skemmtiefni til að níðast á. Þá er réttur kvenna enginn.  Aðalpersónur bókarinnar eru blástakkurinn og vaktmaðurinn Cardell, berklaveiki lögmaðurinn Cecil Winge, einfaldi svikahrappurinn Kristofer Blix,  hin fátæka Anna Stina Knapp og að lokum líkið sem enginn veit hver er.

Yfirþyrmandi lýsingar og nálykt allsstaðar

Sagan er ákaflega vel upp byggð og skiptist í fjóra hluta þar sem hverjum karakter er gefið svigrúm til að segja sína sögu. Heimar þeirra allra mætast og tengjast órjúfanlegum böndum við líf ungs manns sem fundinn er látinn eftir barsmíðar og misþyrmingar. Inn í þetta fléttast rannsókn vaktmannsins Cardell og hins berklaveika Winge sem í kappi við tímann reyna að opinbera nafn hins látna og morðingja hans.

Bókin er ótrúlega spennandi og ég gat varla lagt hana frá mér nema bara rétt til að pústa. Það verður samt að segjast að þetta er ein ógeðslegasta bók sem ég hef nokkurn tímann lesið. Það versta við þetta var að hún er ákaflega raunsæ og það er bersýnilegt að höfundur hefur kafað ofan í tímabil sögunnar og skapar persónur úr manneskjum sem sumar hverjar voru raunverulega til.  Allt sem gerist í bókinni er hægt að ímynda sér að hafi gerst í raunveruleikanum, hvort sem það var nákvæmlega svona eða ekki. Lýsingar Niklas eru slíkar að ég fann bókstaflega lyktina af rotnandi líki, mannasaur og svita. Ég gekk um götur Stokkhólms 18. aldar og við mér blöstu sannindi sem ég mun aldrei geta gleymt. Þetta hlýtur að teljast ein besta spennusaga sem ég hef lesið á þessu ári.

Hin gamla og nýja spennusaga

Undanfarið hef ég lesið Agöthu Christie í einhverri Poirot-tískri nostalgíu þörf. Það er gaman að miða 1793 við þær Agöthu Christie bækur sem ég verið að lesa. Bersýnilegt er hvað hið óhuggulega nær yfirhöndinni í nútíma spennusögum; stíllinn hefur því í gegnum árin svo sannarlega breyst og allt er hreinlega látið flakka í dag ólíkt þeim  skilaboðum sem látin eru falla undir rós í sögum Christie þar sem eitur og hefndarþorsti er aldrei langt undan.

Allir þeir, hvort sem þeir hafa áhuga á glæpasögum eða ekki, eiga að lesa þessa bók. Hún er bæði góð skáldsaga og spennandi, vel skrifuð og raunsæ. Ég bíð spennt eftir fleiri bókum frá Niklas Natt och Dag, það er alveg á hreinu.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...