Ljóðrænt heimshornaflakk

Þessi fína forsíða er einnig plaggat!

Ljóðabókin Regntímabilið eftir Kristinn Árnason kom út á dögunum hjá Páskaeyjunni. Ljóðin bjóða lesandanum í heimshornaflakk, frá Svíþjóð til Brasilíu til Istanbúl. Ljóðin eru látlaus á yfirborðinu en mörg eru athuganir á umhverfi og mannlífi á framandi stöðum. Bókin skiptist í fimm hluta en ljóðmælandi stekkur óspart á milli landa, stundum á hverri blaðsíðu. Áður en ég dembi mér inn í ljóðin vil ég minnast á hversu fallega hönnuð þessi bók er. Þetta er lítil kilja þar sem kápan getur einnig nýst sem plaggat sem hægt er að fletta úr og jafnvel hengja upp á vegg.

Einstakt andrúmsloft

Ljóðunum tekst að miðla andrúmslofti einstaklega vel, eins og í prósaljóðinu „Mandrem“ þar sem smáatriðin mála upp mynd fyrir lesandann: „Um vit mín leikur daufur en sæll ilmur, og það brakar í stólnum mínum.“ (bls. 15) Þessi leikur að smáatriðum er gegnumgangandi í ljóðabókinni, „Þrátt fyrir skarkalann / heyri ég í teskeið snerta undirskál / í hinum enda salarins“ (bls. 17), og „Það brakaði í þungum ísflekum við ströndina / andardráttur gerði vart við sig / undir húðinni“ (bls. 27). Þessar línur finnst mér einstaklega fallegar þar sem ég bókstaflega heyri í teskeiðinni snerta undirskálina, brakið í ísflekanum og andardrættinum undir húðinni. Í bókinni eru virkilega nákvæmar upplifanir sem höfundur hefur nostrað við að koma niður á blað.

Flandur um Reykjavík

Einstaklega skemmtilegt finnst mér ljóðið „Sólfar“ sem minnir á svokölluð Flâneur ljóðlist eða ljóð þar sem ljóðmælandi röltir um nærumhverfi sitt og horfir skáldlegum augum á andrúmsloft og útlit borgarinnar. Ljóðmælandi er bjartsýnn og nýtur þess að lifa sig inn í öll þau fyrirbæri sem á vegi hans verður, eins og „kirkjuna / stuðlaðan faðminn sem hringdi öllum bjöllum“ (bls. 55) og hundinn „eins og úr gulli / bundinn við Drekann í sólinni / augun full af trega / því hann var bundinn við Drekann í sólinni“ (bls. 56). Ljóðinu tekst að varpa upp fallegri og raunsærri sýn af miðbæ Reykjavíkur á skemmtilegan hátt. Ljóðið endar á björtum nótum, „og mig grunar að það lofi góðu / fyrir framhaldið“ (bls. 57)

Hvíldin

Regntímabilið endar á samnefndu ljóði sem kallast á við, og er í raun framhald, af ljóðinu „Mandrem“. Það hljóðar svo: „Hvað gerið þið á regntímabilinu þegar engir ferðamenn koma og sjórinn er of úfinn til að veiða? / „Þá hvílum við okkur,“ svaraði Constantín, brosti, og vaggaði höfðinu svolítið.“ (bls. 67) Það er ákveðin ró yfir þessum endi, áminning á nauðsyn hvíldarinnar sem mörg okkar fáum alls ekki nóg af og er líklega nákvæmlega það sem ljóðmælandi þarf.

Ljóðabókin flæðir vel og inniheldur fjölbreytt ljóð sem virkja skynjun lesandans á umhverfi sínu og til umhugsunar um mikilvægi hvers augnabliks sem líður.

Lestu þetta næst

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.