Margslungin skáldsaga

Í Shaker-hverfinu í Cleveland í Ohio er allt háð ströngu regluverki.  Allt er skipulagt – frá grashæð til litar  á húsinu. Þetta var fyrsta hverfið sem var skapað til þess eins að viðhalda röð og reglu og íbúar þess eru fullkomlega ánægðir með hið tilbreytingalausa en örugga líf sem fylgir því að búa í hverfinu. Richardson-fjölskyldan hefur búið í hverfinu í þrjár kynslóðir. Það slær því skökku við þegar húsið þeirra brennur niður og þrjú eldri systkinin í Richardson-fjölskyldunni eru sannfærð um að yngsta systirin hafi kveikt elda í svefnherbergjum þeirra.

Einhvern veginn þannig byrjar skáldsaga Celeste Ng Litlir eldar alls staðar sem kom út í íslenskri þýðingu Berglindar Baldursdóttur fyrir skömmu. Sagan veltir upp spurnngum um móðurhlutverkið, ástina, unglingsárin, skyldum okkar og fjölskyldu.

Bókin hefur unnið til fjölda verðlauna. Hún náði mjög fljótt á metsölulista New Your Times, hlaut verðlaun Amazon sem besta skáldsagan árið 2017 og Goodreads lesendaverðlaunin fyrir bestu skáldsöguna og fleiri verðlaun.

Fjölmargar persónur koma við sögu í bókinni. Richardson-fjölskylduna – sem telur hjón og fjögur börn, mæðgurnar Miu og Pearl og vinahjón Richardson-fjölskyldunnar. Lesandi fær að kynnast Richardson-fjölskyldunni og mæðgunum best í bókinni og þau eru margslungnar persónur. En Ng fjallar strax á fyrstu blaðsíðu um Richardson-fjölskylduna eins og lesandi eigi að þekkja þau og gefur lesandanum smáatriði úr lífi þeira. Það var nokkurs konar upplýsingaofflæði strax á fyrstu síðu. Það er vissulega kammó að kynnast persónum strax mjög náið, eins og að fara í kokteilboð og lenda á spjalli við ókunnuga manneskju en innan fimm mínútna veistu allt um fjölskyldu hagi hennar og að konan hans hélt fram hjá honum. Stundum vill maður ekki vita allt strax. Sjálf átti ég erfitt með að mynda tengsl við persónurnar í fyrstu, mér fannst þær eingöngu vera fólk sem hafði lent í einhverju og mér var sama um þau. Það tók nokkra kafla að falla almennilega inn í bókina en þegar það gerðist þá var ekki aftur snúið.

Hverju getur listin breytt?

Breytuþátturinn í lífi Richardson-fjölskyldunnar er koma listakonunnar Miu og unglingsdóttur hennar Pearl. Þegar Mia og Pearl koma inn í líf fjölskyldunnar sem leigjendur þá breytist líf fjölskyldunnar, þótt enginn hafi kannski gert sér grein fyrir því að það væri að gerast.

Litlir eldar alls staðar er svolítið eins og laukur. Þú fjarlægir eitt lag af sögu og undir býr önnur. Hver einasta persóna í bókinni hefur sína sögu að segja. Og persónurnar eru vel skapaðar og fullmótaðar, þannig að þegar þú loksins hefur komist yfir fyrstu kaflana og offlæði upplýsinga þá langar þig að vita örlög þeirra. En fyrst og fremst viltu vita hvað varð til þess að yngsta Richardson-systirin, Izzy, brenndi niður heimili fjölskyldunnar. Inn í söguna spinnst svo barn, kínverskt að uppruna en ættleitt af vinahjónum Richardson-hjónanna. Þegar líffræðileg móðir barnsins, sem hafði yfirgefið það, óskar eftir að fá forræði yfir barninu aftur fer allt í háaloft.

Ng veltir upp fjölmörgum spurningum um móðurhlutverkið. Hver er hin eiginlega móðir barns? Móðirin sem bar barnið í heiminn? Sú sem veitir því ást? Líffræðileg móðir þess? Hvað þarf til að vera móðir? Eiga allir rétt á að eignast barn? En ekki síður varpar hún ljósi á það hve margslungið móðurhlutverkið getur verið.

Róleg en alltumlykjandi lesning

Litlir eldar alls staðar er ekki hasarbók, en hún heldur lesandanum engu að síður föstum. Með bók eins og þessa þá langar mann oft að vita meira um örlög persónanna og Ng gefur smá innsýn í örlög þeirra – smá glugga inn í framtíðina alveg óvænt – og það er eins og svalandi vatnssopi á heitum sumardegi. Atburðurinn sem byrjaði bókina er líka sá sem endar hana – bruninn í húsinu og þegar allar flétturnar leiða að þeim atburði skilur maður Izzy ögn betur.

Þýðingin á bókinni er prýðileg, en það angraði mig ögn hve margar innskotssetningarnar voru í sumum setningum. Stundum þurfti að snúa til baka og lesa setninguna aftur til að rifja upp hvar hún byrjaði. Þar fyrir utan flæddi textinn vel og nær að gleypa lesandann.

Sagan er vel skrifuð, persónurnar forvitnilegar og hver saga innan skáldsögunnar áhugaverð og til þess fallin að vekja lesanda til umhugsunar um móðurhlutverkið, listina og hversdagslífið.

Þess má einnig geta að bókin rataði í bókaklúbb Reese Witherspoon áður en hún kom út! Þá hefur einnig verið gerður samningur um að framleiða sjónvarpsþætti byggða á bókinni og að sjálfsögðu kemur Reese þar við sögu líka.

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....