Rándýr dulbúið sem sumarkisi

Bókakápan er ekki alveg að mínu skapi og virkar ekki spennandi.

Ósköp venjuleg fjölskylda – eða hvað?

Nú er dálítið síðan ég skrifaði færslu síðast. Því er blessuðum júlí mánuði að kenna og endalausum ferðum á róló og í bústað, þannig að afsakið sumarletina! Ég hef hins vegar ekki setið bóklausum höndum og hef lesið þær nokkrar sem ég mun fjalla um á næstunni. Fyrsta ber að nefna sænska krimmann Ósköp venjuleg fjölskylda eftir Mattias Edvardsson. Bókin hefur farið sigurför um krimmaheiminn og setið á metsölulistum sleitulaust síðan hún kom fyrst út fyrir ári síðan.

Sumarkisinn og afleiðingarnar

Ósköp venjuleg fjölskylda er í raun saga fjölskyldu sem reynir að falla inn í fyrirfram ákveðið mót þar sem eitt er rétt og annað er rangt; allt er slétt á yfirborðinu. Það í sjálfu sér er alltaf áhugavert en vissulega er enginn fullkominn og allir glíma við vandamál og óleystar erjur leynast víða. Saga Stellu, aðalpersónu bókarinnar, er að mörgu leyti saga margra kvenna sem búa í samfélagi þar sem konum er ekki trúað og rándýrið er aldrei langt undan.

Sagan segir frá Stellu Sandell sem sökuð er um hrottalegt morð á „sumarkisanum sínum“ (ástmögurnum) hinum ríka og myndarlega Christopher Olsen. Stella er einkabarn foreldra sinna, prestsins Adams og lögmannsins Ulriku, og fer sínar eigin leiðir í lífinu, er skapstór og hvatvís. Besta vinkona hennar Amina er áttavitinn sem beinir henni í rétta átt og eru þær sálufélagar sem heita því að ekkert muni koma upp á milli þeirra. Ýmislegt kemur upp úr kafinu þegar málið er rannsakað og siðferðislegar spurningar leita á lesandann og sýna að lífið er langt frá því að vera svart/hvítt.

Þrír misjafnir hlutar

Sögunni er skipt í þrjá hluta út frá sjónarhorni hvers fjölskyldumeðlims fyrir sig og að mínu mati eru þessir hlutar misgóðir.

Í fyrsta hlutanum fær presturinn Adam, pabbi Stellu, orðið síðan Stella og svo móðir hennar í lok bókarinnar.  Sjónarhorn föðursins er sá hluti bókarinnar sem var að mínu mati mjög langdreginn en samt sem áður áhugaverður fyrir þær sakir að þar tvinnast saman siðferðiskennd prestsins og svo föðursins; getur hann lagt trúna til hliðar og brotið reglurnar til að hjálpa sinni eigin dóttur? Stórt er spurt og svarið er áhugavert.

Sjónarhorn Stellu er langáhugaverðasti hluti bókarinnar enda veit hún hvað nákvæmlega gerðist kvöldið sem Chris var myrtur. Þetta er annar hluti bókarinnar og þarna fannst mér bókin loksins taka við sér og ég hreinlega gat ekki hætt að lesa. Líf ungrar konu í gæsluvarðhaldi eru gerð mjög góð skil og farið er ofan í kjölinn á þeirri líðan sem fólk í fangavist upplifir.

Að lokum tók við hluti móðurinnar sem sagði frá því hvernig réttarhöldum Stellu háttaði ásamt því að fara yfir farinn veg. Í þessum hluta fannst mér áhugavert að fá innsýn inn í huga móður sem er þjökuð af samviskubiti yfir því að hafa leyft ferlinum að vera í fyrsta sæti og telur sig hafa misst af foreldralestinni í kjölfarið; vandamál sem margar útivinnandi og metnaðargjarnar konur kannast við og þarft er að ræða um.

Ágætis sumarlesning en dálítið langdreginn

Í heildina litið fannst mér bókin ágætis afþreying en ég get hins vegar ekki skilið alla fimm stjörnu dómana og metsölulistana. Bókin er vissulega ágætlega skrifuð en fremur langdregin; um það bil hundrað blaðsíðum of löng. Eins og áður sagði varð hún ekki spennandi fyrr en eftir rúmlega hundrað blaðsíður, þegar sviðsljósið var á Stellu í gæsluvarðhaldinu. Það er að mínu mati galli. Þá kom endirinn mér ekki beint á óvart og ég var í raun búin að fatta plottið um miðbik bókarinnar. Þá er bókakápan ekki beint aðlaðandi og er að mínu mati dálítið yfirdrifin. Annars er þetta fínasta sumarlesning í fríi, hvort sem er í bústað, ströndinni eða í baði og fær þrjár stjörnur.

 

Lestu þetta næst