Færir þjóðsögurnar til nútíma og nýrra lesenda

Penni: Sæunn Gísladóttir

Álfarannsóknin er önnur barnabókin úr smiðju Benný Sifjar Ísleifsdóttur. Bókin er sjálfstætt framhald af Jólasveinarannsókninni sem út kom árið 2018 og er skrifuð fyrir alla þá sem hafa áhuga á dularfullum atburðum. Áður hefur hún gefið út skáldsöguna Grímu sem Lestrarklefinn fjallaði um á dögunum.

Kvöldið áður en Baldur fer austur með pabba sínum og afa í sveit afa síns fréttir hann að undarlegir hlutir eiga sér stað þar! Tæki brotna, kaðlar losna, vinnuvélar bila, smiður segir upp störfum … og þegar Baldur mætir á staðinn gerist fleira furðulegt…Getur það mögulega tengst álfum? Elín Elísabet Einarsdóttir er myndhöfundur bókarinnar og myndirnar eru glettnar og skemmtilegar sem Benný Sif segir eiginlega nauðsynlegt í barnabókum.

Hvaðan spratt hugmyndin að bókinni?

“Á meðan ég vann að Jólasveinarannsókninni kom til mín þessi hugmynd að skrifa bókaflokk sem byggðist á þjóðsagnaverum. Í íslenskum sögnum eru frásagnir af allskyns furðuverum, eins og til dæmis tröllum, jólasveinum, álfum og huldufólki, skrímslum, sæbúum, draugum og afturgöngum og mig langaði að kynna þessar sagnir og þessar verur fyrir ungum lesendum; blása svolitlu lífi í þær og færa þær til nútímans. Kannski af því að ég er þjóðfræðingur og rennur þess vegna blóðið til skyldunnar.

Útgefendur mínir hjá Bókabeitunni tóku vel í þessa seríuhugmynd og ég var snögg að ákveða hvaða þjóðsagnaverur skyldu fylgja á eftir jólasveinunum. Það skyldu vera álfar! Ég kunni nefnilega svo skemmtilega álfasögu; sögu af vinafólki sem keypti sér gamalt hús, gerði það upp og byggði við það en lenti síðan í allra handa uppákomum þegar þau fluttu inn; uppákomum sem að því er best varð séð stóðu í einhverju samhengi við ósýnilega nágranna sem þótti viðbygging hússins hafa teygt sig heldur langt inn á þeirra yfirráðasvæði og gripu því til sinna ráða. Í Álfarannsókninni er stuðst við þessa sögu en síðan skeytt við öðrum álfasögum, bæði nýrri og eldri, sem og auðvitað stíluðum og staðfærðum, en það kann að koma fólki á óvart hversu margt í Álfarannsókninni er samkvæmt upplifun núlifandi fólks.

Er Baldur, aðalpersónan, byggður á einhverjum úr þínu nánasta umhverfi?

Fyrirmyndin að Baldri er sonur minn, Baldvin Ísleifur, sem er tólf ára, en það voru einmitt hann og vinir hans tveir sem njósnuðu um jólasveinana með spjaldtölvunum sínum fyrir nokkrum árum – eins og má lesa um í Jólasveinarannsókninni. Sjálfur kannast hann mismikið við sjálfan sig í bókinni, en honum finnst hann kannast við mömmuna, sem er stundum óþarflega áhyggjufull og vill að allir borði súrdeigsbrauð.

Hvað viltu að lesendur taki með sér úr bókinni?

Ég vona að þeir taki með sér notalega stemningu fyrst og fremst, en jafnframt að bókin veki forvitni um skilin milli þess manngerða og þess náttúrulega, og hvernig við mannfólkið höfum tilhneigingu til þess að leggja undir okkur æ stærri svæði og verja sífellt meiri tíma í manngerðu umhverfi en úti í náttúrunni. Um daginn heyrði ég af nýju fræðiheiti, náttúrutengslaröskun, og varð svolítið sorgmædd þegar ég áttaði mig á merkingunni, því óneitanlega er það hálfóhuggulegt að missa tengslin við náttúruna á þeim skala að það verði að skilgreindu sjúklegu ástandi. Förum þess vegna öll út að leika! Veltum okkur í grasinu, tölum við steinana, hlustum á hafið! Athugum hvort við sjáum álf eða heyrum af þeim sögur … og tökum þá til okkar boðskapinn sem oftast ber hæst í álfasögnum; að bera virðingu fyrir náttúrunni og ofnýta ekki landsins gæði.

Hvers vegna velurðu að skrifa um dularfulla atburði?

Þjóðsagnaverur eru dularfullar verur sem fólk hefur í gegnum tíðina verið forvitið um – og jafnvel hrætt við – og sagnir af slíkum verum spegla tilraunir fólks á öllum tímum til að skilja umhverfi sitt og aðstæður; gera líf sitt merkingarbært. Þjóðsögur miðla miklum upplýsingum og gera okkur kleift að skyggnast inn í hugarheim fyrri kynslóða, sem reyndu – eins og við í dag – , að skilja lífið og tilveruna og draga upp heillega og samhangandi mynd af þessum heimi sem við hrærumst í, með öllum sínum undrum og ósköpum.
Ég vildi einfaldlega halda í dulúðina sem umlykur þessar þjóðsagnaverur og draga fram þann kjarna í álfasögnum sem snýr að náttúruvernd og skynsamlegri land- og auðlindanýtingu. Ásamt reyndar smá vinki að þeim álfasögnum sem hvetja til hjálpsemi og tillitssemi. Það er jú eitthvað sem alltaf er gott að minna.

Hvað fannst þér skemmtilegast að skrifa?

Ætli mér hafi ekki þótt skemmtilegast að skrifa um óvænta vinskapinn milli Baldurs og stelpunnar sem er framan á bókinni … sem og reyndar að skálda mínar eigin útgáfur af þjóðlegum álfasögum í lok bókar.

Hér er textabrot úr bókinni.

„Þetta eru áttatíu og sjö metrar, ká ká,“ upp- lýsir Baldur þétt upp við klettinn og lítur í átt að Kötlu Katrínu, eða þangað sem hann hélt að væri í áttina að henni en sér hana ekki. Hann sér ekki neitt! Ekkert nema gráa þokuna sem hefur þjappað sér að honum og króað hann af upp við klettavegginn. „Ká ká, þetta eru áttatíu og sjö metrar,“ endurtekur Baldur og reynir að halda ró sinni, þokan hlýtur að þynnast eða lyftast og þá sér hann Kötlu Katrínu aftur og veit í hvaða átt hann á að fara. „Katla Katrín, halló! Hvar ertu?“ Ekker svar.

Hjartað hamast í brjósti Baldurs, svo hratt og hátt að honum finnst hann heyra í því. Andardrátt sinn heyrir hann líka en annars er þögnin kæfandi. „Katla Katrín, svaraðu!“ biður hann enn en talstöðin skilar engu hljóði. Hann er einn í svartaþoku, fastur upp við álfaklett, og finnur hræðsluna ná tökum á sér. Hann prófar að kalla á Kötlu Katrínu en rödd hans er mjó- róma og næstum ógnvekjandi í þokunni.

„Mamma …“ kjökrar Baldur og lætur sig hníga niður upp við klettavegginn, sækir símann sinn í vasann og reynir að hringja en það er ekkert samband. Hann er aleinn og villtur og hvernig sem hann kiprar augun og reynir að rýna inn í þokuna sér hann ekki neitt. Þegar hann einbeitir sér að því að hlusta heyrir hann ekk- ert nema sinn eigin hjartslátt. Eða hvað? Heyrir hann eitthvað annað? Baldur finnur hvernig hárin rísa undir húfunni og langar helst að halda fyrir eyrun en getur hvorki hreyft legg né lið, hann er sem lamaður af skelfingu. Hvað ef það er álfur á ferð í þokunni? Einn af þessum hefnigjörnu álfum sem heldur kannski að Baldur hafi eyðilagt húsið sitt …

Baldur klemmir aftur augun og bíður þess sem verða vill. Situr grafkyrr og svo skelkaður að hann gleymir næstum að anda og heyrir einhvern nálgast. Það er ekki um að villast, það er einhver á ferðinni! Baldur er svo skelfingu lostinn að hann þorir ekki að opna augun, situr bara og bíður þess sem verða vill … að álfur nemi hann á brott og láti hann búa í steini eða leggi á hann álög …

Svo gerist það! Það er ýtt við honum, ýtt fast á magann á honum og eitthvað lemst utan í hann. Það er verið að lemja hann með mjóum spotta, takfast, og svo kemur eitthvað blautt í andlitið á honum …það er verið að sleikja hann í framan!

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...