Snúður og Snælda og ráðgátan um frumtextann

Mig dreymir um að fara einhvern tíma í akkúrat þetta ferðalag. Nema mín útilega myndi ekki enda alveg jafn illa.

Ég hef mikið dálæti á bókunum um Snúð og Snældu. Þetta eru bækur sem ég hef lesið á ólíkum aldursskeiðum og nálgast á mismunandi hátt, en alltaf fundist þær frábærar. Þegar ég var barn hafði amma mín lesið þær svo oft fyrir mig að ég kunni bækurnar utanað og gat notað þær í því sem ég taldi effektíva blekkingu um að ég væri læs. (Ég neyddi ýmsa ættingja til að hlusta á mig „lesa“. Þegar ég síðan óhjákvæmilega uppgötvaði að ég hafði einhvers staðar ruglast reiddist ég ógurlega og öskraði skammir á viðstadda fyrir að trufla mig með hávaða. Ég var drottnunargjarnt barn.) Sem unglingur fannst mér þessar bækur ógurlega retró og keypti þær í einhverri nostalgíu. Sonur minn var ekki lengi að finna þær bækur einhvern tíma á mánuðunum eftir fyrsta afmælið, og nú „les“ ég þær með honum. (Hann verður einmitt líka mjög reiður ef ég slysast til að nota önnur orð en vanalega) Hann er búinn að beygla þessar bækur mínar mjög mikið og ata þær út í slefi en ég verð samt alltaf ósköp glöð þegar hann sækir þær í hilluna. Það er bara eitthvað svo tjáningarríkt og gáskafullt en jafnframt margslungið við þessar teikningar að ég fæ ekki leið á þeim, sama hversu oft ég er neydd til að segja: „Kisurnar eru á mótorhjóli. Brumm brumm.“

Amma mín átti á sínum tíma ekki allar bækurnar og það geri ég ekki heldur núna, hennar Snúðs og Snældusafn skaraðist við það sem ég á í dag en er ekki fyllilega sambærilegt. Um þessi skörð í safninu var ég mjög meðvituð sem barn, enda er hægt að sjá allar bækurnar átta sem í boði eru aftan á hverri bók. Þessi uppstilling á bókaflokknum hefur alla tíð vakið hjá mér heilabrot. Hann er vandlega númeraður, en samt furðu ósamstæður. Snúður skiptir um hlutverk virðist, efni síns vegna, vera líkleg til að vera fyrsta bókin, en hún er samt merkt númer 6. Í bók 1, þar sem Snúður býr á stóru sveitasetri og fær frænku sína Snældu í heimsókn, þá er þar að auki vísað í einhverja Lóu sem hann býr með, eins og það sé einhver sem lesendur eigi að þekkja úr fyrri bókum. Hvað er síðan málið með þessa þrjá hunda, Kol, Lappa og Kát, sem eru aðalpersónur í þremur bókum af átta? Og af hverju eru stundum myndir framan á eða aftan á kápunni, sem greinilega tengjast söguþræðinum, en eru hvergi í sjálfri bókinni? Þessi bókaflokkur er ráðgáta og ef Dan Brown er ekki búinn að skrifa spennusögu um tengsl hans við dulspekileg öfl, þá er það eingöngu af því að efnið er of eldfimt.

Pouf!

Ég þóttist því hafa himinn höndum tekið þegar vinkona mín kom heim frá París og færði mér undurfagra harðspjaldabók með gylltum kili: Pouf, le chaton bleu. Ég hafði fengið frumtextann upp í hendurnar, hinn helga gral sérhvers sagnfræðings.

Pouf, le chaton bleu, er í heimalandi sínu gefinn út sem hluti af ritröðinni Un petit livre d’or. Aftast í bókinni er að finna nákvæmlega eins uppstillingu og í íslensku bókunum, nema litlu frönsku gullbækurnar eru 28. En ekki fjalla þær um hetjurnar okkar Snúð og Snældu, nei ó nei, það virðast mest vera allskonar smábarnaaðlaganir á Disneyævintýrum og Mary Poppins og ég veit ekki hvað og hvað. Einungis ein önnur bók um hina fræknu ketti er í gullbókunum sem þarna má sjá, Youpi a l’ecole (sem við þekkjum sem Snúður og Snælda og Lappi í skólanum).

Loksins er einhver skýring á þessum afa Snúðs!

Þriðja myndin, sem hér birtist nú í fyrsta sinn fyrir augum íslenskra lesenda.

Ekki er nú frönskukunnátta mín meiri en svo að ég get rétt svo stautað mig í gegnum bók sem ég lærði utanað þegar ég var fjögurra ára, svo ekki ætla ég að gera textatengsl þýðingarinnar að umræðuefni hér. Nei, það bíður einhvers hugdjarfari bókaunnanda en mín (já, ég er að tala við þig, Dan Brown). En myndirnar, þær tala sínu máli, og það er ljóst strax frá blaðsíðu 3 að franski textinn varpar upp mun fleiri ráðgátum en hann svarar. Það er sök sér að í frönsku bókinni eru þrjár teikningar sem er ekki að finna í íslensku bókinni. Mér hafði jú alltaf þótt eitthvað vanta í þennan indæla bókaflokk. Það sem virkilega sló mig út af laginu, fékk hárin á hnakka mér til að rísa, kaldan svita til að renna niður bakið, tennurnar til að glamra í munni mér svo hrikti í stoðum veruleika míns, það er sú staðreynd að það vantar sex blaðsíður í frönsku útgáfuna.

Snúður hittir aldrei neitt fiðrildi, Maja mús les ekki bók, Snúður fellir ekki hjartnæm tár yfir vinaleysi sínu og sá dramatíski hápunktur þegar hann uppgötvar bláu málninguna og möguleika hennar er víðsfjarri. Við fáum heldur aldrei að sjá bláa köttinn dást að ásjónu sinni í spegli, heillaðan af blekkingarleik sínum, á valdi kynngimagns dulargervisins.

Hvar er frumtextinn? Erum við þess megnug að nálgast hann, með því að púsla saman hinni frönsku og íslensku útgáfu? Eða liggja fleiri blekkingarlög í þessum bókum, svo djúpt að við komum aldrei auga á þau? Hver var Pierre Probst og það sem meira er, hvar er lík hans grafið? Ef það er þá nokkurs staðar að finna…

Ásetningur

Þegar ekki verður aftur snúið

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...