Afleiðingar loftslagsbreytinga, flóttamannastraumur, ný og breytt heimsmynd er alltumlykjandi í Norninni, bók Hildar Knútsdóttur. Bókin er sögð önnur í röðinni af því sem líklega verður þríleikur en fyrsta bókin Ljónið hlaut afar góð viðbrögð og hreppti Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2018, ásamt því að vera tilnefnd til Íslensku barnabókaverðlaunanna sama ár. Og Hildur er aftur tilnefnd til Íslensku barnabókaverðlaunanna árið 2019 fyrir Nornina. En þó Nornin sé framhald bókarinnar um Ljónið þá eru þessar sögur sjálfstæðar.

Aðalpersóna bókarinnar er Alma Khan sem er nítján ára garðyrkjufræðingur og vinnur við að rækta baunir í garðyrkjustöð á Hellisheiði.  Árið er 2096 og sá veruleiki sem Alma býr við er töluvert frábrugðinn þeim veruleika sem við búum við í dag. Reykjavík er í niðurníðslu og einungis óljós minningabrot og leiftur gefa okkur innsýn inn í fortíðina, þá veröld sem við þekkjum í dag. Ölmu er boðin vinna hjá Olgu Ducaróvu við að hugsa um dýrmætar plöntur úr fortíðinni og moldin sem Alma fær að meðhöndla er framandi og dýrmæt, svo dýrmæt og sjaldgæf að ekki þykir þorandi að að uppljóstra um tilvist hennar í földu gróðurhúsi Ducaróvu. Olga er fyrrum samstarfskona Kríu, ömmu Ölmu og fljótlega fer Alma að forvitnast um samstarf þeirra, leiðangur þeirra til Mars og svo þetta gamla yfirgefna hús sem amma Ölmu á í fornum miðbæ Reykjavíkur.

Heimsmynd bókarinnar er sláandi. Landamæri eru óljós sem og uppruni fólks. Loftslagshamfarir hafa dunið yfir og meirihluti mannkyns hefur verið þurrkaður út. Golfstraumurinn er í ruglinu þegar þarna er komið við sögu og hefur ekki hrokkið í gang og veður eru válynd. Og allt er þetta í upphafi af mannanna völdum, kynslóðir sem skeyttu ekki um afleiðingar, héldu áfram í græðgi, algjörlega skeytingarlaus um komandi kynslóðir . Það er virkilega gaman að lesa um hugsanir Ölmu þegar hún veltir því fyrir sér hvernig staðið hafi á því að fólki hafi verið vísað burt af svæðum þar sem nóg var til af öllu og allt til alls.

„Alma hugsaði um það sem amma hennar hafði sagt henni um hvernig það hefði verið að búa á Íslandi fyrir Sáttina. Áður en þjóðríki höfðu verið aflögð og fólk trúði enn að tilviljanakenndar línur á landakortum skiptu einhverju máli. Að komast löglega til Íslands hafði víst verið erfiðara en að komast í gegnum nálarauga. Og þeir sem sem komu ólöglega höfðu verið sendir aftur til baka. Oft beint út í opinn dauðann.  

Alma átti erfitt með að skilja hvernig fólkið sem réði landinu þá gat fengið það af sér. Hvernig var hægt að eiga nóg pláss og nóg af mat og vísa í burtu fólki sem átti ekkert? Hvers konar skrímsli höfðu þetta verið?

Það var ekkert skrýtið að allar myndir og styttur af þeim höfðu verið fjarlægðar eftir Sáttina. Það átti ekki að hylla fasista. „(83)

Þessi texti er ótrúlega magnaður, flugbeittur og virkilega ánægjulegt að sjá í bók sem ætluð er unglingum og ungmennum. Og Hildur heldur áfram, túristavandi okkar hér á þessu litla landi er tekinn fyrir og söngur þeirra sem vilja landið í friði fyrir slíkum átroðningi

„Nei, þá vildi hún frekar Íslandið sem hún þekkti. Því það er mikilvægara að vera almennileg manneskja en að geta gengið niður Laugaveginn með báða arma útrétta án þess að rekast á neinn.“

Að lestri loknum standa uppúr þessar áleitnu spurningar: Hvernig getum við sett það á herðar komandi kynslóða að hirða upp eftir okkur ósómann? Hvernig  getum við horft framan í börnin okkar og barnabörn vitandi að þeirra heimsmynd á eftir að breytast vegna misgjörða okkar, forfeðranna?

Nornin er skyldulesning fyrir okkur fullorðna fólkið, það er ekki að finna í henni veikan punkt. Persónusköpunin er virkilega góð og skemmtilegt hvað konur eru ríkjandi í öllum hlutverkum. Alma er hugsandi og drífandi ung kona, táknmynd þessa unga fólks sem í dag þarf að taka til hendinni og laga það sem aflaga hefur farið í meðförum okkar sem eldri erum. Inda er áhugaverður karakter, hún er samviskan sem býr í vonandi okkur flestum og spyr Ölmu óþægilegra spurninga, fær hana til að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru í raun og veru.

„Að lifa eins og þú, í öryggi, alltaf á sama stað. Í vernduðu umhverfi. Það er svo mikið sem þú hefur ekki séð. Allt … ógeðið. Hrynjandi vistkerfi. Hrunin samfélög. Alla skelfinguna, allt hungrið, allan óttann, allan dauðann“.(83)

Árið 2096 er ekki langt undan, loftslagsbreytingar eru ekki ímyndun eða áróður, afleiðingarnar svo sannarlega ekkert grín.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...