Rithornið: Tvö prósaljóð

Upp og niður

Ég vil heldur búa með þér, sagði hún, heldur en nokkrum öðrum. Ég vil ekki heldur búa með nokkrum öðrum, sagði hann, heldur búa með þér. Ég vil aldrei heyra röddina þína aftur, sagði hún, aldrei aftur. Ég vil heldur aldrei heyra röddina þína aftur, sagði hann, aldrei aftur.

Ég vil ekki sjá þig nokkurn tímann aftur, sagði hann, ekki nokkurn tímann. Ég vil heldur ekki sjá þig aftur, sagði hún, ekki nokkurn tímann. Ég vil frekar kveljast með þér, sagði hann, frekar en að kveljast einn. Ég vil ekki heldur kveljast ein, sagði hún, heldur frekar kveljast með þér.

Ég vil heldur vera ein, sagði hún, heldur en að vera með þér. Ég vil ekki heldur vera með þér, sagði hann, heldur vera einn.  Ég vil hvergi vera nema með þér, sagði hún, hvergi. Ég vil heldur hvergi vera nema með þér, sagði hann, hvergi.

 

[hr gap=”30″]

Hámhorf

Við höfðum hámhorft á þrjár þáttaraðir, tvær bíómyndir og eina heimildaseríu þegar sjónvarpið féll saman og myndaði svarthol. Á meðan við höfðum horft á þrjár þáttaraðir, tvær bíómyndir og eina heimildaseríu hafði sófinn breyst í kviksyndi og eingöngu höfuð okkar stóðu upp úr. Við litum til skiptis á hvort annað og á sjónhvörf svartholsins. Ætli þrjár þáttaraðir, tvær bíómyndir og ein heimildasería sé ekki hámark hámhorfs, sagði ég að lokum og þú kinkaðir kolli.

 

[hr gap=”30″]

 

Berglind Ósk Bergsdóttir er tölvunarfræðingur og textasmiður sem stundar ritlist við Háskóla Íslands. Hún gaf út ljóðabókina Berorðað árið 2016 auk þess sem hún hefur birt ljóð í bókmenntatímaritunum Stínu og Skandala. Heyrst hefur að Berglind sé með í smíðum ljóðræna bók um loddaralíðan en undanfarin ár hefur hún haldið fyrirlestra um það efni og hafa þeir gert mikla lukku.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.