Bækurnar um Kidda klaufa eru gríðarlega vinsælar á skólabókasöfnum, eru einar mest úlánuðu bækurnar og bækur sem krakkar vilja líka kaupa í bókabúðum. Þær eru einfaldlega gríðarlega vinsælar. Það vilja óskaplega mörg börn lesa Kidda klaufa og Kiddi kallinn virðist henta öllum krökkum. Börn á yngsta stigi og allt upp í börn á efsta stigi skóla sækja í að lesa um Kidda klaufa. Svo má deila um hvort Kiddi klaufi sé ekki aðeins of auðveldur lestur fyrir krakka á unglingastigi.

Keimlíkar bækur

Fyrir um það bil tveimur vikum kom út tólfta bókin um Kidda, Dagbók Kidda klaufa – Flóttinn í sólina. Bækurnar eru ríkulega myndskreyttar með skemmtilegum spýtuköllum og textinn lítur út fyrir að vera handskrifaður. Það er Kiddi sjálfur sem segir frá öllu frá sínu sjónarhorni. Þannig fær lesandinn að fylgjast með Kidda fara í ferðalög, venjulegum degi í skólanum, baráttuna við Róbba og svo framvegis. Frásagnirnar eru fyndnar, stundum vandræðalegar og myndirnar auka enn frekar við skemmtunina.

Þema bókanna er hinn undirokaði drengur. Í raun minna bækurnar svolítið á þættina um Malcolm í miðið, eða Bart Simpson, sögurnar um Kaftein Ofurbrók og svo eru örugglega fleiri óknyttadrengir sem hægt er að tína til. Kiddi er latur, stundum kvikindislegur og ekki alltaf góður vinur. En á móti kemur að hann er líka oft mjög umhyggjusamur, stendur með vinum sínum og gerir suma hluti í einskæru  hugsunarleysi eða klaufagangi.

Bækur, kvikmyndir og hvatning

Zachary Gordon og Robert Capron voru frábærir í hlutverkum Kidda og Randvers í bíómyndunum frá árunum 2010-2012.

Fyrir nokkrum vikum, þegar samkomubannið skall á og bókasöfnin lokuðu (muniði hvað það var hrikalegt?) náði ég að saffa nægilega margar bækur af Kidda klaufa fyrir stráksa minn, sem er nýorðinn átta ára. Hann hafði skömmu áður tekið ástfóstri við Kidda klaufa (það var næsta skref við Kaftein Ofurbrók). Hann kláraði hverja bókina á eftir annarri og hvatningin var ekki síst sú að við lok hverrar bókar var haldið fjölskyldubíókvöld þar sem við horfðum á kvikmynd byggða á bókunum. Kvikmyndirnar eru orðnar fjórar en það er þó vissum vandkvæðum bundið að gera bíómyndir byggðar á bókunum. Kiddi er nefnilega alltaf á sama aldri í bókunum, eins og Bart Simpson, og því var það ansi óheppilegt þegar aðalleikaranum í fyrstu þremur myndunum (2010-2012) fór að spretta grön. Þá var skipt um leikarahóp og fjórða myndin (2017) virðist ekki hafa náð eins góðu flugi og fyrri þrjár.

Bókasnobb?

Bækurnar um Kidda klaufa hafa eflaust komið fjölda barna til að lesa og það er frábært. Þá lesa þau og vonandi halda þau áfram að næstu bók eftir Kidda klaufa seríuna. Það vill þó henda að krakkar festist algjörlega í Kidda klaufa og lesi ekkert annað í nokkur ár. Lestur á Kidda klaufa er auðveldur og hann gerir ekki miklar kröfur til lesandans. Ég hef heyrt að sum börn og sumir unglingar velju sér Kidda klaufa til að velja sér eitthvað á skólabókasafninu, fyrir skyldulestur. Lesandinn sækir svo ekki í að lesa aðrar bækur en um Kidda klaufa. Það er synd, því nóg er af gæða bókum fyrir alla lesendur.

Ég á í erfiðu sambandi við Kidda klaufa. Mér þykir frábært að sjá börn lesa bækur en fyllist svolitlum pirringi þegar ég heyri af börnum sem festast í Kidda klaufa. Orðaforðinn í bókunum er ekki sá besti, hann er ekki fjölbreyttur og stafsetning Kidda er ekki alltaf rétt. En það ætti ekki að koma að sök. Þótt Kiddi sé ekki besta fyrirmyndin þá er skemmtanagildi bókanna mikið fyrir þá sem á annað borð detta í að lesa bækurnar.

Ég er líka þakklát Kidda klaufa. Hann gerði heimaskólann og heimalesturinn mikið auðveldari en hann hefði ella orðið og hann skapaði hlýja fjölskyldustundir á erfiðum tíma.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...