Rithornið: Heimsóknin

Heimsóknin

Byrjun á lengra verki

Eftir Vigni Árnason

 

Vindurinn feykir hettunni minni niður um leið og ég stíg út úr bílnum. Ég þori ekki að leggja bílnum fyrir framan hjá honum Kára því mér líður eins og að Jón gæti komist að því. Í stað þess legg ég á yfirgefnu bílastæði skammt frá húsinu hans Kára. Hvernig ætti Jón samt að vita hvert ég fór? Ég veit ekki hvers vegna þetta hvarflar að mér, ég er orðin of sein en það er Jóni að kenna. Hann var alltaf tefja mig fyrr í kvöld með því að spyrja mig um hitt og þetta. Hann sagðist ekki finna símann sinn og þegar ég sýndi honum hvar síminn var, þá vantaði hleðslutækið. Síðan vildi hann allt í einu skutla mér, en ég sagðist frekar vilja taka minn bíl. Þá missti hann allt í einu áhugann og kveikti á sjónvarpinu.

Ég greikka sporið og set hressandi playlista á, þennan sem er fullur af gömlum cumbia og vallenato lögum, til að bægja áhyggjunum frá. Þar sem sungið er um harminn og ástina og dansinn, alltof dramatísk lög en mjög skemmtileg því þau ganga svo langt í dramanu. Chao amor er eitt af þessum lögum sem fær mjaðmirnar til hreyfast í takt, en er á sama tíma svo rómantískt og sorglegt að ég þekki ekki annað eins. Það færir mig aftur í tímann, þegar mér fannst allt svo miklu einfaldara. Það var um það leyti sem við Jón kynntumst.

***

Fyrsti dansinn okkar var við þetta lag. Jón kunni ekki mikið að hreyfa sig en þegar hann var búinn að fá sér nokkur skot af aguardiente losnaði um hann og hann þorði út á gólfið. Ég var svo sem vön þessum hvítu köllum sem komu langt að til að djamma og drekka, en Jón var einhvern veginn öðruvísi. Hann staldraði líka við og var ekki farinn eftir nokkra daga, það aðgreindi hann frá hinum sem vildu bara skemmta sér eina kvöldstund með mér.

***

Ég beygi inn götu í skjóli frá umferðarniðnum og meiri ró færist yfir mig. Hvað með það þótt ég verði sein? Kári mun alveg skilja það, en það er bara pirrandi að missa þennan dýrmæta tíma í eitthvert þras. Í kvöld spurði Jón mig til dæmis þrisvar hvert ég færi. Ég fór þá að hugsa um hvort hann grunaði eitthvað. Það er síðan aldrei að vita nema Jón hafi gert eitthvað svipað og ég. Öll þessi skipti sem hann vinnur langt fram eftir eða fer til útlanda í vinnuferðir, gæti ekki allt eins eitthvað búið þar undir?

Það byrjar að rigna, litlum dropum og ég set hettuna upp. Mér finnst rigningin þægileg, hér er hún kaldari en heima en oft notaleg. Stundum lemur hún mig líka í andlitið, það er ekki jafn þægilegt. Það venst samt, eins og allt annað, vindurinn er samt verstur og núna feykir hann dropunum framan í mig. Ég tek hettuna aftur niður, því hún pirrar mig og ég vil koma til hans með blautt hár. Ég vil að hann horfi á mig með þrá í augunum og kyssi mig á munninn. Ég vil að hann taki utan um mig og leiði mig inn. Í stutta stund vil ég gleyma öllu um Jón, eins og við hefðum aldrei kynnst.

***

Puta. Það var það sem Jón byrjaði að kalla mig, stuttu eftir að við fluttum hingað. Auðvitað gerði hann það bara þegar við nutum ásta. Ég bað hann um að sleppa því fyrst þegar hann gerði það, en hann æstist upp í að gera meira af því. Ég leyfði honum það líka því að kynlífið var aldrei betra en þegar hann sagði við mig: „Puta, puta, mi puta“ í sífellu. Það gerði hann svo æstan. Svo æstan að allt var yfirstaðið á mettíma. Það hentaði mér vel, því satt best að segja var hann hættur að leggja sig mikið fram við að fullnægja mínum þörfum. Hann vildi bara klára sig af og sofna. Hann segir þetta enn, ekki jafn oft og áður en hann segir það til að minna á sig endrum og sinnum.

***

Ég slekk á tónlistinni, ég er komin. Það eru bara nokkur skref eftir en ég hinkra. Allt hefur leitt mig hingað en ég veit að ef ég geng nokkur skref í viðbót þá verður ekki aftur snúið. Ég leita í huganum að öllum mögulegum ástæðum til að snúa við strax og fara í bíó, hugsa ekki meira um þetta og haga mér vel, vera góð stelpa. Ég íhuga þetta örstutta stund, en hryllir síðan við tilhugsuninni að snúa við og gleyma þessu. Ég fer upp að húsinu og banka á kjallaragluggann.

Kári kemur í gluggann og brosir til mín. Ég geng inn um dyrnar þegar hann opnar og kyssi hann á munninn.

‒ Liggur eitthvað á? spyr hann.

‒ Já, segi ég og brosi. Nei, ég saknaði þín bara svo mikið.

‒ Það er allt í lagi, ég get alveg flýtt mér.

‒ Er það?

‒ Ég vil samt frekar taka mér tíma með þér, segir hann og kyssir mig.

Við stígum ómeðvitaðan dans á miðju gólfi í faðmlagi. Dágóða stund viljum við ekki aðskiljast.

‒ Langar þig í rauðvín?

‒ Já, endilega. Hann fer inn í eldhús og hellir í tvö glös. Við skálum og horfumst í augu.

‒ Heyrðu annars?

‒ Já, hvað? spyr hann.

‒ Mig langar eiginlega meira í þig.

Við kyssumst aftur, af meiri ákefð, en í þetta sinn er dansinn ankannalegur, allt að því fáránlegur, því við höldum hvort á sínu glasinu og getum ekki tekið utan um hvort annað. Við setjumst í sófann og leggjum glösin frá okkur. Ég kyssi Kára aftur og tek um andlitið á honum. Út undan mér heyri ég Jón segja: „Puta, puta“. Ég læt það ekki aftra mér heldur tek því sem hvatningu. Hann má alveg segja þetta og endurtaka eins oft og honum sýnist.

‒ Viltu hlusta á tónlist?

‒ Núna? spyr hann á móti. Já, já, bætir hann við.

Ég leita að tónlist á símanum, einhverju skemmtilegu en ekki of háværu. Einhverju sem getur líka fallið í bakgrunninn af öðrum hlutum. Ég vel hljómfagra rödd Shakiru. Við kyssumst aftur og ég snerti hann, hreyfingarnar verða ákafari, óreglulegri. Ég hugsa um næsta skref, fara eða vera?

‒ Eigum við að fara inn í herbergi? spyr ég.

‒ Já, segir hann.

Ég leiði hann áfram, en hann stansar.

‒ Ég get ekki hætt að hugsa um hann, segir hann og horfir á mig.

‒ Hann skiptir engu máli, þetta, þetta er bara til sýnis, segi ég og bendi á hringinn.

‒ Taktu hann þá af!

Ég tek hringinn af og set hann á eldhúsborðið. Síðan tek ég gullhálsmenið af sem Jón gaf mér og legg það við hliðina á hringnum. Ég renni niður rósótta kjólnum sem ég kom í og fer úr honum. Hann horfir á mig og tekur síðan við kjólnum og setur hann á stól. Sokkabuxurnar fara sömu leið og ég sný mér í hring fyrir hann. Hann tekur utan um mig og kyssir mig, hann stenst ekki mátið að renna fingrunum um líkamann og síðan um hárið.

‒ Brúna hárið þitt er svo fallegt.

Gracias, segi ég og brosi til hans. Ég lauma hendinni í rassvasann, hann er minn núna.

‒ Ég veit ekki…

‒ Hann fær ekkert að vita, manstu? Leyndarmálið okkar.

‒ Já, en…

Ég færi höndina í átt að klofinu og renni niður, síðan seilist ég inn.

‒ Þarf ég að draga þig áfram á honum?

Hann brosir og við förum inn í svefnherbergið. Öllu heldur dreg ég hann á eftir mér.

‒ Ertu hræddur?

‒ Ætti ég að vera það?

‒ Nei, segi ég og ýti honum blíðlega niður. Hann sest og ég rugla í hárinu.

‒ En þú vilt þetta? spyr hann. Ég ýti honum niður og sest klofvega á hann og kyssi hann.

‒ Ég vil þig.

Ástríðan tekur við, það er eins og púki hlaupi í mig sem stjórnar öllum mínum hreyfingum. Hreyfingum sem leitast við að veita unað og stríða honum. Það kemur að því að ég get ekki hamið mig lengur og klæði hann úr skyrtunni og kyssi hann niður. Hann stoppar mig.

‒ Ef þú ferð lengra þá verður ekki aftur snúið. Ég brosi til hans og rykki buxunum

niður og hefst handa við að strjúka hann.

‒ Viltu að ég hætti núna? spyr ég. Ég get alveg hætt ef þú vilt.

‒ Mmm, nei, ég er alveg sáttur. Ég kyssi hann og lít upp til hans brosandi.

‒ Ertu alveg viss? Finnst þér þetta gott?

‒ Mmm, umlar hann, já, þetta er mjög gott hjá þér. Ég slít mig frá honum.

‒ Ég vil ekki að þú minnist á hann þegar við erum saman.

‒ Ókei.

‒ Við getum talað um allt annað, skilurðu það?

‒ Já.

‒ Góður strákur, segi ég og held áfram fyrri iðju. Hann er minn.

 

[hr gap=”30″]

 

Vignir Árnason er bókavörður, rithöfundur og leikskáld sem býr með Sophiu og Einari í Breiðholti. Hann hefur birt smásögur og örsögur í Hljóð Bók (2018) og í Skandala (2019-2020), ásamt þýðingum. Hann vinnur núna að sinni annarri skáldsögu og fyrsta leikriti í fullri lengd ásamt því að safna örsögum í nýtt örsagnasafn.

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...