SOFFÍA KYNNIST NÝJU FÓLKI

Eftir Guðbjörgu Árnadóttur og Járngerði Þórgnýsdóttur.

page1image17094544

STELPAN Í LYFTUNNI

Soffía er nýflutt í risastórt hús með mömmu sinni og pabba. Þetta er blokk með 12 hæðum, segir pabbi.

Soffía horfir upp eftir þessu húsi sem er fullt af gluggum með alls kyns gardínum og blómum í gluggakistunum. Dálítið yfirþyrmandi finnst henni.

Hún fær sitt eigið herbergi sem er alveg ágætt, en það er dálítið einmanalegt að hafa engan að leika sér við. Mamma og pabbi eru mjög upptekin við allskonar verk. Þau mála, raða húsgögnum og ræða um hvar best sé að hafa sjónvarpið. Soffía hefur ekki séð neina krakka í þessu stóra húsi. Hún ákveður að skoða sig aðeins um og opnar dyrnar fram á gang. Þar er endalaus röð af hurðum en engin mannvera.

Ein hurðin er öðruvísi en hinar. Hún er silfurlit og það eru takkar á veggnum við hliðina á hurðinni. Soffía stendur og skoðar þessa skrýtnu hurð. Allt í einu heyrist hljóð og dyrnar opnast, ekki eins og venjulegar dyr enda er enginn húnn á hurðinni, heldur opnast eins og gat á vegginn.

Út um dyrnar kemur kona með innkaupapoka. Hún heilsar Soffíu og kinkar kolli. Svo lokast gatið aftur. Þetta er aldeilis skrýtið.

page3image17079824

Soffía ákveður að rannsaka málið betur og sest á ganginn og bíður. Nú gerist eitthvað á bak við þessa skrýtnu hurð. Eins og eitthvað renni til og nú sér hún að það er ljós hjá tökkunum, sem er eins og ör í laginu. Og nú opnast aftur og gamall karl með staf kemur út úr þessu furðulega herbergi sem leynist á bak við hurðina.

Soffía herðir upp hugann og fer inn um opnar dyrnar. Þá lokast þær aftur og þetta herbergi fer af stað. Þetta er lyfta. Hér ætla ég að eiga heima segir hún upphátt við sjálfa sig. Inni í lyftunni er allt glansandi og silfurlitað, fullt af tökkum og fleira skrýtið.

Soffía sest á gólfið og horfir í kringum sig. Það er ekkert inni í lyftunni, ekki stóll eða borð eða neitt. Hún finnur hvernig lyftan fer niður. Dyrnar opnast og inn kemur kona með fallegan hatt.

-Hvað ert þú að gera hér, vinan? Ertu týnd? segir konan. – Nei, nei, ég veit alveg hvar ég er. Ég á sko heima hérna.

page4image17275184

Konan ýtir á takka númer 6 og horfir upp í loftið. Hún fer út þegar lyftan stoppar.

Þegar lyftan stoppar næst kemur maður með stóran hund inn. Soffíu bregður dálítið og horfir á þá, manninn og hundinn.

– Hæ, segir maðurinn.

Soffía kinkar kolli og virðir fyrir sér hundinn.

– Hann heitir Kolur, af því hann er svo kolsvartur, segir maðurinn. Það finnst Soffíu mjög gott nafn á svartan hund.

– Hann er bara í heimsókn hérna af því að hundar eru bannaðir í þessu húsi. En hann má koma í heimsókn. Vinur minn er veikur svo ég passa hundinn fyrir hann og nú erum við að heimsækja vin minn.

– Er hann góður hundur?

– Já hann er það. Hann er svona hundur sem leitar að týndu fólki upp á fjöllum og þannig.

– Vá, það er sko góður hundur. Má klappa honum?

page5image17274976

Soffía klappar hundinum á kollinn og hundurinn dillar rófunni eins og það sé takki á hausnum á honum sem setur skottið af stað. Soffíu finnst það skemmtilegt og klappar aftur á kollinn. Skottið fer af stað aftur, Soffía hlær, hahaha!

Svo fara maðurinn og hundurinn út úr lyftunni, bless segir maðurinn en hundurinn segir ekki neitt.

Nú fer lyftan af stað aftur og þegar dyrnar opnast kemur gamli karlinn með stafinn, sem Soffía sá áðan, inn.

– Má ég setjast hjá þér smástund, spyr hann. – Já gjörðu svo vel.

– Mér er svo illt í fótunum og svo er ég svo leiður líka, segir karlinn. Ég heiti Haraldur, sæl og blessuð, bætir hann við.

page6image17276016

– Ég heiti Soffía. Af hverju ertu leiður?

– Æi mér leiðist svo af því að ég bý einn.

– Mér leiðist líka dálítið en ég á samt bæði mömmu og pabba. Þau eru mjög upptekin af því við vorum að flytja.

-Núna er ég að prófa að eiga heima í lyftunni. Það er svolítið skemmtilegt af því ég hitti svo marga hérna, segir Soffía.

– Mikið ertu skemmtileg stelpa. Viltu lakkrís?

– Já takk. Lakkrís er uppáhalds nammið mitt.

Þau sitja saman á gólfinu og borða lakkrís og brosa. Það er svo gott að borða saman nammi og brosa.

– Jæja, nú verð ég að fara og þá versnar nú í því. Þá þarf ég nefnilega að standa upp og það er sko erfitt.

– Ég skal hjálpa þér, segir Soffía. Ég ýti bara á rassinn á þér og rétti þér stafinn.

Þegar karlinn er farinn út gerist ekkert lengi. Soffía situr og hugsar um hvað fólkið sem hún hefur hitt, er margskonar. Fína konan mátti ekkert vera að því að tala við hana og Soffía öfundaði dálítið manninn með hundinn af því hundurinn var svo fallegur og góður. Það væri örugglega skemmtilegt að eiga hund. Verst þótti henni hvað gamli karlinn var leiður; kannski myndi hún hitta hann aftur seinna. Þá ætlaði hún að segja honum sögu til að skemmta honum dálítið.

Loks fer lyftan af stað og dyrnar opnast. Ó ó ó, inn kemur stór strákur með allt of stóra fætur og hendur og gott ef nefið á honum er ekki líka aðeins of stórt fyrir andlitið. Soffíu er ekki alveg sama því hún hugsar að hann hljóti að vera unglingur. Hún hefur heyrt að unglingar séu stórhættulegir með læti.

Strákurinn horfir á Soffíu.

– Hvar er mamma þín? Hvað ertu að gera hérna?

– Ég á heima hérna núna.

– Vá, það er kúl. Má ég sitja hjá þér? Ég heiti Kalli.

– Já, já. Soffía þorir ekki annað en að leyfa honum það. Ég heiti Soffía segir hún og brosir feimnislega.

– Ég var að heimsækja ömmu mína, segir strákurinn. Hún er alein heima alltaf.

Hm, þetta passar nú ekki alveg við það sem Soffía hefur heyrt um unglinga.

page8image17269776

– Ég fer í búðina fyrir hana og ryksuga stundum líka. Hún bakar alveg rosalega marínósköku.

– Marínós? Meinarðu Marengsköku?

– Ömmu finnst allt í lagi þó ég komi stundum í heimsókn og fái að vera hjá henni smástund, reyndar stundum lengi. Mér finnst svo leiðinlegt í skólanum af því að maður þarf alltaf að vera svo töff og svoleiðis. Ég nenni því ekki nefnilega. Þá fer ég til ömmu.

Kalli fer margar bunur upp og niður í lyftunni með Soffíu á meðan þau spjalla saman.

Kalli er bara ágætur þótt hann sé svona sláni í rifnum gallabuxum og bol með mynd af trommukjuðum. Soffíu finnst aðalatriðið að hann er svo skemmtilegur og segir líka brandara, til dæmis þennan:

Af hverju læðast Hafnfirðingar alltaf fram hjá apótekum? Það er til þess að vekja ekki svefnpillurnar!

Hahaha, Soffía hló og hló.

– Jæja, ég verð að fara núna, segir Kalli. Ég þarf að sækja litla bróður minn á leikskólann sko. Mamma er alltaf að vinna.

Nú er Soffía eiginlega orðin dálítið svöng. En nú vandast málið því hún getur ómögulega munað á hvaða hæð hún kom inn í lyftuna. Þótt hún stoppi á hverri hæð til að gá, þá eru allir gangarnir eins og allar hurðirnar eins.

Á einni hæðinni hittir hún stelpu á svipuðum aldri og hún sjálf. Vá, þetta var nú aldeilis heppilegt. Soffía verður mjög glöð og býður stelpunni inn í lyftuna sína.

– Gjörðu svo vel, ég á heima hérna núna, segir hún. Ég heiti Soffía, en þú?

– Vigdís, en ég er kölluð Vigga. Mér finnst nú skrýtið að eiga heima í lyftu, bætir hún við.

– Fáðu þér sæti, segir Soffía, fullorðinslega.

Þær setjast á gólfið í lyftunni og Vigga segir Soffíu að hún eigi heima í þessu stóra húsi.

Soffía verður svo glöð að hún kyssir Viggu á kinnina.

– Eigum við að verða vinkonur, kannski? spyr Soffía.

Þær halda áfram að ræða málin, en verða loks sammála um að nú þurfi þær að fara að finna sér eitthvað að borða. Að finna réttu dyrnar heim til mömmu og pabba Soffíu er ennþá vandamál samt.

– Hvernig finnum við út úr því, eiginlega? spyr Soffía, sem er alls ekki vön því að eiga heima í húsi þar sem eru margar hæðir og allar eins.

– Sko, niðri í anddyrinu er tafla þar sem er fullt af nöfnum og númerum, segir Vigga.

Þetta var nú aldeilis gott ráð. Þar sem þær standa við töfluna reyna þær að finna út úr þessu í sameiningu.

page10image17085648

Vigga er veraldarvön og kann að lesa út úr öllum þessum nöfnum. Það er nú líka dálítill vandi því Soffía kann bara nokkra stafi en kann ekki að lesa eins og stóru krakkarnir. Hún þekki samt S sem er hennar stafur nefnilega . Vigga er aðeins betri í lestrinum og saman komast þær að því að Soffía eigi heima hjá foreldrum sínum í íbúð númer 704. Þær fara saman að lyftunni og ýta á takka númer 7. Þá er bara að finna hurð sem er merkt 704.

Og viti menn: þar standa mamma og pabbi alveg steinhissa þegar þau opna dyrnar. Þau höfðu ekkert tekið eftir því að Soffía hafði farið út.

Mamma býður þeim snúð með súkkulaði ofaná og pabbi hitar kakó. Soffía og Vigga eru svo glaðar að hafa fundið hvor aðra og ætla að leika sér saman á morgun og hinn og hinn. Bara alltaf.

page12image17085024

Það getur ýmislegt skrýtið og skemmtilegt gerst þegar maður á vinkonu.

 


Guðbjörg Árnadóttir er kennari og hefur gegnt ýmsum störfum er tengjast kennslu allt frá því að kenna unglingum myndmennt og fleira, flugfreyjum út um allan heim (vann hjá flugfélagi sem er með starfstöðvar víðs vegar um heiminn). Hún vann einnig við gæðaeftirlit hjá flugfélaginu. Nú s.l. ellefu ár hefur húnkennt blindu fólki að komast hjálparlaust um og nota alls kyns hjálpartæki m.a. tölvutengd tæki.  Nú er hún komin á eftirlaun og þá er upplagt að gera eitthvað alveg nýtt.

Járngerður er dótturdóttir hennar og er sérlega lifandi og skemmtileg stelpa. Hún er 9 ára síðan í janúar og gengur í Austurbæjarskóla. Hún hefur alltaf verið dugleg að teikna og er reyndar sí-teiknandi og notar þá hvað sem hendi er næst, t.d. servíettur! Hún spilar handbolta með Val og hefur gaman af því. Hún er að læra að spila á kladrinett og er nýgengin í Skólahljómsveit Vestur- og Miðbæjar.

Járngerður kveikti þessa hugmynd þegar hún var að skoða lyftuna í húsinu sem Guðbjörg er nýlega flutt í. Hún velti því fyrir sér hvernig væri að eiga heima í svona flottri lyftu sem er “alveg eins og herbergi”. Á meðan sagan var skrifuð spurði Guðbjörg hana af og til hvernig henni litist á og hún gaf persónum sögunnar nöfn.

Hits: 163