Knúsípons og Risaeðlur í léttlestrarformi

Léttlestrabækur Ævars Þórs Benediktssonar fara sigurför um hvaða skólabókasafn sem þær enda á – sem er vonandi öll skólabókasöfn landsins. Ævar Þór er einn af okkar virkustu barnabókahöfundum og sendir árlega frá sér í allra minnsta lagi eina bók á ári. Í ár eru bækurnar orðnar þrjár (Hryllilega stuttar hrollvekjurÞín eigin saga: Risaeðlur og Þín eigin saga: Knúsípons) og sjöunda Þín eigin bókin er væntanleg á næstu vikum (Þín eigin undirdjúp).

Lesendur í framtíðinni

Ævar er venjulega mjög orðmargur höfundur og orðavaðallinn hrífur lesandann með sér í undarlegustu ferðalög þar sem bókstaflega allt getur gerst. Þín eigin saga léttlestrarbækurnar eru byggðar á hinum gríðarvinsælu doðröntum sem Þín eigin bækurnar eru. Í léttlestrarbókunum hefur Ævar tekið einn söguþráðinn úr bókunum og soðið hann niður í léttlestrarform fyrir yngstu lesendurna. Snilldarleg leið til að þjálfa lesendur í að lesa þykkari bækurnar og þannig tryggja sér lesendur framtíðarinnar. Og kannski tryggja að það verði lesendur í framtíðinni.

 

Í Þín eigin saga: Risaeðlur fer lesandinn í gegnum svarthol og fer 45 milljón ár aftur í tímann, til tíma risaeðlanna. Bókin er byggð á söguþræðinum úr Þitt eigið tímaferðalag. Það er ekki auðvelt að vera uppi á tíma risaeðlanna. Þar er ógurlega mikið af beittum tönnum og klóm alls staðar. Lesandinn þarf því að vera hygginn og velja rétta leið í gegnum bókina til að komast aftur í gegnum svartholið og heim. Nú svo er líka hægt að vera varkár og snúa strax til baka – en þá upplifir maður engin ævintýri.

Í Þín eigin saga: Knúsípons fær hið krúttlega Knúsípons úr tölvuleiknum “Hopp og skopp” að njóta sín. Bókin er byggð á söguþræði úr bókinni Þinn eigin tölvuleikur. Knúsíponsið (lesandinn sjálfur) þarf að skoppa í gegnum tölvuleikinn, gleypa gulrætur og berjast við Aparassa, Namm-Namm blóm og Pirri-pú. Eins og í hinum bókunum er auðvelt að velja ranga leið og mæta ótímabærum örlögum sínum, en til allrar lukku er alltaf auðvelt að fara til baka aftur.

Myndir í stærra hlutverki

Evana Kisa, myndhöfundur bókanna, fær virkilega að láta ljós sitt skína í þessum tveimur bókum. Myndirnar eru fleiri og stærri. Til dæmis fær myndlýsing að taka yfir heila opnu í bókunum báðum og myndirnar eru notaðar til að brjóta upp textann á skemmtilegan hátt. Það kemur nefnilega stundum fyrir þegar þessar bækur eru lesnar að lesandinn hoppi strax neðst á síðuna til að sjá hvort leik sé lokið án þess að lesa síðuna. Sé mynd sett á milli þannig að valið eða endalokin endi á næstu síðu er minni hætta á svona svindli. Skemmtilegur stíll Ævars kemur þó oftar en ekki í veg fyrir svona svindl.

Ævar nýtir sér endurtekningar í auknum mæli í þessum bókum. Sérstaklega tók ég eftir því í risaeðlubókinni. Þar er flugeðlan til dæmis með voldugt bak, voldugan gogg og volduga vængi. Átta ára álitsgjafi Lestrarklefans kynntist þannig orðinu voldugur fyrir utan að endurtekningin gerir lesturinn auðveldari og aðgengilegri fyrir unga lesendur. Eins og alltaf er mikill húmor í bókunum og það voru ófáar hlátursrokurnar sem heyrðust þegar lesið var um baráttu Knúsíponsins við Aparassana og aðrar ófreskjur. Myndirnar gera svo allt mikið skoplegra. Hvað er ekki fyndið við eldrauðan aparass!?

Ævintýralega skemmtilegar

Bækurnar verða lesnar í tætlur á skólabókasöfnum, það efast ég ekki um. Það er mjög gleðilegt að sjá að myndirnar fengu meira pláss en oft áður og Ævar hefur slípað til léttlestrarskrifstílinn sinn enn betur en í fyrstu bókunum. Bækurnar eru fyndnar, spennandi, einfaldar, ævintýralegar og skemmtilegar. Og ég enda þessa umfjöllun á orðum lesanda sem sagði: “Þetta er draumurinn minn, að detta inn í tölvuleik.”

Lestu þetta næst