Bókin Litla bakaríið við Strandgötu er eftir skoska metsöluhöfundurinn Jenny Colgan. Bókin er hlut af seríunni um Litla bakaríið við Strandgötu. Aðrar bækur í seríunni eru: Sumar í litla bakaríinu við Strandgötu, Jól í litla bakaríinu við Strandgötu. Colgan hefur notið mikilla vinsælda hér á landi og erlendis og er þekkt fyrir að skrifa hugljúfar sögur. Bókin kemur út í góðri þýðingu Ingunnar Snædal en Angústúra gaf hana út árið 2017. Fleiri bækur eftir Jenny Colgan hafa komið út í íslenskri þýðingu og má þar nefna Litla bókabúðin í hálöndunum, Sumareldhús Flóru en Ströndin endalausa er sjálfstætt framhald hennar. Ég hef bara lesið jólabókina eftir Colgan en hún var alveg yndisleg lesning þegar líða tók á haustið og tilvalin bók til að koma manni í jólaskapið.

 Selur kolvetni eins og eiturlyf

Sagan byrjar á því að parið Chris og Polly lenda í fjárhagsvandræðum með fyrirtæki sitt og neyðast til að selja íbúðina sína. Þessir erfiðleikar reyna á sambandið og Polly endar á því að flytja ein til eyjunnar Mount Polbearne þar sem hún ætlar að byrja upp á nýtt. Til að gera langa sögu stutta gengur brösuglega hjá henni að koma fótunum aftur undir sig. Það er eitt bakarí í bænum þar sem allir kaupa sitt daglega brauð en það er nánast óætt. Polly unir þessu ekki, byrjar að baka brauð og stelst til að selja það íbúunum í laumi. Ein af bestu setningunum í bókinni fannst mér: „Ég er farin að selja kolvetni eins og eiturlyf,“ (bls. 115). Lundinn Neil, leitar skjóls hjá Polly eftir að hafa vængbrotnað og er dyggur aðstoðarbakari. Sjómennirnir í bænum hræða Polly með draugasögum en hún hristir það af sér, svona að mestu. Ekki líður á löngu þar til hún kynnist Huckle sem ræktar hunang skammt frá bænum. Eins og gengur og gerist í sumum ástarsögum finnst Polly hann heldur undarlegur til að byrja með en það á eftir að breytast.

Ástarsaga með uppskriftum

Bókin fjallar um hversdagslíf einstaklinga sem reynist svo alls ekki neitt hversdagslegt! Sagan er ljúf og hæg en undir niðri er alvara þar sem aðalpersónurnar þurfa að takast á við ýmis flókin vandamál í lífinu. Colgan tekst þó að skrifa um erfiða hluti með léttum brag og gerir það vel. Ég fann til með Polly þegar lífið var krefjandi og gladdist með henni þegar eitthvað gekk upp. Að mínu mati er sagan óþarflega langdregin og hefði vel mátt stytta hana talsvert. Þetta er þó tilvalin bók fyrir þá sem vilja rólegar bækur sem flæða mjúklega um hugann. Sjálfri finnst mér betra þegar hlutirnir ganga aðeins hraðar fyrir sig.

Kápurnar á bókaflokknum eru einstaklega heillandi og þær fara svo vel allar saman uppi í hillu. Svo má ekki gleyma því að þetta er fyrsta skáldsagan sem ég les þar sem uppskriftir fylgja með. Þær má finna aftast í bókinni og ég er einmitt mjög spennt að prufa kanilsnúðauppskriftina. Ætli ég skelli mér ekki í bakstur um helgina!

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...