Sýnishornið: Háspenna, lífshætta á Spáni

9. kafli – Pabbi fer á kostum

Brot úr bókinni Háski, lífshætta á Spáni eftir Árna Árnason. Kemur út hjá Bjarti. Birt með leyfi höfundar. 

 

Eftir morgunmat daginn eftir var stefnan tekin á Waterworld sem er ótrúlega skemmtilegur vatnsrennibrautagarður. Þar ætluðum við að eyða fyrriparti dagsins og að sjálfsögðu buðum við hinum nýju vinum okkar, Helenu og Hugo, með okkur.

Við vorum snemma á ferðinni, sem var gott því þá voru styttri raðir í rennibrautirnar. Við tókum því strax til óspilltra málanna og renndum okkur eins og við fengjum borgað fyrir það, það var frískandi að eyða tíma í vatninu í hitanum sem þarna var. Pabbi náði sér í sólbekk þar sem hann gat fylgst með okkur, passað dótið okkar og unnið í brúnkunni, eins og hann kallaði það. Mögulega hefði hann bara átt að halda sig við það miðað við það sem gerðist nokkru seinna.

Þegar við stelpurnar höfðum rennt okkur til óbóta og vorum orðnar dálítið þreyttar ákváðum við að tylla okkur aðeins niður, leysa pabba af á vaktinni og leyfa honum að renna sér aðeins með Ara og Hugo sem voru langt frá því búnir að fá nóg. Pabbi var ekki lengi að spretta á fætur, klár í stuðið, eins og hann sagði sjálfur. Fyrstu tvær ferðirnar gengu ágætlega, í nokkuð sakleysislegum rennibrautum, en svo skoraði Ari á pabba að keppa við sig í rennibraut þar sem nokkrar brautir eru hlið við hlið og maður rennir sér á maganum, með hausinn á undan á mottu og heldur um handföng fremst á mottunni. Þessi tiltekna rennibraut var stutt frá staðnum þar sem við sátum og ég lofaði Ara að fylgjast með og taka myndband þegar þeir kæmu niður … sem betur fer.

Þegar röðin var komin að þeim félögum gerðu þeir sig klára á pallinum á meðan hollið á undan, þrjár stelpur og tvær konur á miðjum aldri, líklega mæður þeirra, lögðust niður til að renna sér. Þær þutu af stað, það er að segja allar nema önnur mamman sem festist á mottunni sinni ofarlega í rennibrautinni. Strákarnir og pabbi lögðust niður en fengu bendingu um að bíða af því að konan var enn föst í rennibrautinni og kraup nú á mottunni til að reyna að sparka sér af stað. Pabbi, sem allajafna var í hlutverki yfirvegaða gæðaeftirlitsmannsins en var nú í hlutverki stráks sem var að keppa við félaga sína, missti hins vegar alveg af þeirri bendingu og steingleymdi að bíða eftir flautinu frá starfsmanninum. Í strákslegri einlægni og spennu ýtti hann sér af stað af öllu afli, staðráðinn í að koma fyrstur í mark. Þetta hefði svo sem allt sloppið til ef hann hefði ekki verið staddur á sömu braut og konan sem sat föst og brasaði við að koma sér af stað. Pabbi þaut sem sagt af stað og nánast um leið sá ég eftirvæntinguna í andliti hans breytast í skelfingu þegar hann sá farartálmann sem blasti við, afturendann á spænskri konu sem var hálfstaðin upp í örvæntingu sinni yfir því að komast ekki áfram. Hún þurfti ekki að hafa áhyggjur af því lengi því pabbi kom á fullri ferð aftan að henni og já, þið getið líklega séð restina fyrir ykkur.

Ég sá ekki lengur skelfingarsvipinn á andliti hans því það hvarf mér sjónum þegar það klessti beint á rassinn á blessaðri konunni sem dauðbrá, datt fram fyrir sig á mottuna og lá svo á henni alla leið niður, á fullri ferð í þetta skiptið með pabba fyrir aftan sig. Þannig þutu þau áfram þar til þau stoppuðu loksins nálægt enda rennibrautarinnar. Þar spruttu þau bæði á fætur, pabbi eldrauður og vandræðalegur en konan sneri sér að honum og gaf honum góðan fyrirlestur á kjarnyrtri spænsku sem brotakennd spænskukunnátta pabba réð auðvitað ekkert við en kom ekki að sök, því það var augljóst að hún var að skamma hann. Pabbi baðst auðmjúkur innilega afsökunar og eftir smástund sljákkaði aðeins í konunni sem að lokum kvaddi okkur brosandi og hristandi hausinn yfir þessum stórfurðulega útlendingi sem hafði orðið henni samferða niður rennibrautina. Pabbi greyið var samt ekki alveg laus því hann fékk líka skammir frá öryggisverðinum sem hafði lítinn húmor fyrir þessu atviki og hótaði að vísa honum burt kæmi þetta fyrir aftur. Það var reyndar lítil hætta á því vegna þess að elsku örmagna pabbi settist beint á sólbekkinn og hreyfði sig ekki þaðan það sem eftir var heimsóknarinnar í garðinn, hann sendi okkur meira að segja til að sækja fyrir sig mat í hádeginu.

Myndbandið sem ég náði af þessari ferð er hins vegar löngu orðið goðsagnakennt og við fjölskyldan rifjum það enn upp á góðum stundum. Ég sendi mömmu það auðvitað strax og hún átti í mestu vandræðum með að detta ekki í alvarlegt hláturskast undir langdreginni ræðu forseta Frakklands á ráðstefnunni sem hún var á.

 

Útitekin og sælleg héldum við heim á leið um miðjan daginn. Planið var að fara með Helenu og Hugo heim til þeirra þar sem strákarnir ætluðu að leika sér á meðan við stelpurnar myndum aðeins kíkja í búðir. Pabbi ákvað að skutla okkur niður í bæ en ætlaði sjálfur að fara upp á hótel og taka aðeins á því, eins og hann orðaði það sjálfur; hann ætlaði sem sagt að fara í ræktina.

Hann hafði greinilega jafnað sig á uppákomu dagsins og í bílnum á leiðinni var hann farinn að verða sjálfum sér líkur aftur. Þegar við vorum í miðju kafi að ræða hvert okkar hefði tekið mestan lit datt hann í brandaragírinn.

„Hei, vitið þið af hverju sólbrúna barnið fann fimmhundruð kall undir koddanum sínum þegar það vaknaði?“

„Uh, nei,“ svaraði ég annars hugar.

„Af því að tan-álfurinn kom í heimsókn,“ sagði hann um leið og hann sprakk úr hlátri, sem við gerðum reyndar öll.

Ekki kannski besti brandarinn sem pabbi hefur sagt en það var samt eitthvað mjög fyndið við það hvernig hann sagði hann og einhver gleði í loftinu sem framkallaði hlátur hjá okkur öllum.

Pabbi kom með okkur inn til systkinanna, svona rétt til að heilsa, eins og hann orðaði það, en var að sjálfsögðu dreginn í kaffi í leiðinni. Dóri og Alvira, foreldrar þeirra, voru að baka dýrindis smákökur fyrir veitingastaðinn þeirra sem við fengum nú að smakka, ylvolgar úr ofninum.

„Þetta eru engar smá kökur,“ sagði pabbi þegar hann hafði gleypt í sig smáköku í einum bita.

„Ha, nei jú, þetta eru smákökur,“ svaraði Dóri, ekki alveg að kveikja á húmornum hjá pabba.

„Nei, ég meina sko, engar smááá kökur, skilurðu? Svona pínu orðagrín,“ reyndi pabbi þá að útskýra, aldrei góðs viti þegar þess þarf.

„Já, þú meinar það, hehe,“ svaraði Dóri og kreisti fram nokkuð sannfærandi samúðarhlátur enda kurteis og viðkunnanlegur maður.

Eftir þessa brandarasyrpu pabba, sem hafði reyndar eiginlega staðið frá því við vöknuðum og náð hámarki í rennibrautarferðinni stórkostlegu, ætlaði hann að kveðja okkur en Dóri og Alvira voru með önnur plön. Þau voru sjálf á leiðinni á grænmetismarkað í litlum bæ sem var um það bil hálftíma akstur í burtu og buðu honum að koma með.

„Svo getum við farið út að borða í leiðinni, það er nýlegur veitingastaður rétt fyrir utan bæinn sem við höfum alltaf ætlað að prófa,“ sagði Alvira. „Við ætlum að taka okkur frí frá veitingastaðnum í kvöld, Miguel sér um hann. Hann getur líka séð um að gefa krökkunum að borða og svona. Þau geta svo bara haft það kósí, horft á mynd eða eitthvað þangað til við komum til baka.“

„Ja, þú segir nokkuð. Þetta er sannarlega gott boð,“ svaraði pabbi spenntur. „Hvað segið þið krakkar, er ykkur sama?“ spurði hann okkur Ara.

„Já, auðvitað,“ svöruðum við bæði, spennt að fá aðeins meiri tíma með þessum nýju vinum okkar.

„Já, þá býst ég við að ég þiggi það bara með þökkum,“ sagði hann brosandi.

Við stelpurnar drifum okkur út, búðirnar biðu, en strákarnir ætluðu að leika sér eitthvað í herberginu hans Hugos á meðan. Ég kvaddi pabba því hann yrði farinn þegar við kæmum til baka. Ég knúsaði hann létt og hann gaf mér klassískan pabbakoss á ennið. Ef ég hefði vitað hvað væri langt þangað til ég sæi hann næst hefði ég knúsað hann miklu fastar.

 

[hr gap=”30″]

Háspenna, lífshætta á Spáni er sjálfstætt framhald metsölubókarinnar Friðbergur forseti eftir Árna Árnason. Árni starfaði í rúm 20 ár við hin ýmsu störf í markaðs- og auglýsingageiranum og rak eigin auglýsingastofu í 8 ár áður en hann seldi hana til þess að einbeita sér meira að skrifum. Friðbergur forseti var fyrsta skáldsaga Árna en að auki hefur hann skrifað og flutt útvarpsþættina Dauðans vissa á Rás 1. Meðfram ritstörfum stundar hann MA nám í ritlist við Háskóla Íslands.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...