Sjáðu! er myndavers fyrir yngstu börnin úr smiðju Áslaugar Jónsdóttur. Áslaug er helst þekkt fyrir teikningar sínar í sögunum Litla skrímsli og Stóra skrímsli, sem hún er einnig meðhöfundur að, sem er löngu orðið að klassík í íslenskri barnabókaflóru. Einnig hefur hún sent frá sér bókina Ég vil fisk sem hún myndlýsir og skrifar.

Fjörugar myndir

Í Sjáðu! leiða tvö börn, stelpa og strákur, lesandann í gegnum heim sinn. Heimurinn er ansi ólíkur okkar og þau bjóða okkur að sjá. Lesandinn fær að sjá alls kyns furður okkar heims og annars. Myndirnar eru svolítið súrrealískar sums staðar, en annars staðar kirfilega bundnar við raunveruleikann. Textinn er í bundnu máli og bendir lesandanum á eitthvað af furðunum á opnunni. Saman skapa textinn og myndirnar skemmtileg hugrif sem hafa nær dáleiðandi áhrif á bæði þann sem les og þann sem hlustar. Teikningarnar eru barnslegar og fjörugar og draga augu lesandans út í öll horn á hverri opnu. Í bakgrunni á hverri opnu eru einfaldar blýantsteikningar af borg, myndir eins og börn teikna. Þannig nálgast Áslaug lesendur sína á þeirra plani og dregur þau inn í töfra bókarinnar. Áslaug leikur sér að því að búa til furðulegar verur á síðurnar og börn geta setið með bókina í fanginu í nokkurn tíma til að skoða allt sem bókin hefur upp á að bjóða.

Bók sem vex með barninu

Þriggja ára álitsgjafi Lestrarklefans var mjög hrifinn af bókinni og krafðist þess að hún væri lesin fjórum sinnum í einni beit einn daginn. Það skemmtilega er þó að upplesaranum þótti ekki miður að lesa sömu bókina aftur og aftur, því í hvert sinni sem bókin var lesin tók sá ungi eftir einhverju nýju og skemmtilegu á síðunni sem vakti samræður um alls kyns efni.

Bókin er harðspjalda svo hún ætti að þola töluvert hnjask frá óvönum lesendum og hentar börnum frá eins árs og upp úr. Eflaust eru ekki margir eldri lesendur en fimm ára sem sækjast í bók sem þessa, en rati hún í þeirra hendur þá skoða þau börn hana af ekki síðri áhuga og þau yngri. Með aldri og þroska er nefnilega hægt að sjá fleiri skrýtna hluti og spyrja flóknari spurninga. Sjáðu! er bók sem vex með barninu.

 

 

E.S. Ég mæli með að fylgjast með Áslaugu á Instagram.

Lestu þetta næst

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...

Gratíana fullorðnast

Gratíana fullorðnast

Benný Sif Ísleifsdóttir stimplaði sig rækilega inn á rithöfundasenuna á Íslandi við útgáfu fyrstu...

Héragerði yfir páskana

Héragerði yfir páskana

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er líklega best þekkt fyrir bráðfyndnar og beint-í-mark myndasögur. Til...

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin Teddi og Nanna eru ákaflega samheldin refasystkin og búa saman í Stóru borg, þar sem öll...

Edinborg í aðalhlutverki

Edinborg í aðalhlutverki

Nú er farið að líða að aðventunni og því tilvalið að taka því rólega, búa sér til heitt súkkulaði...