Yrsa Sigurðardóttir er með tvær bækur í jólabókaflóðinu í ár. Hina klassísku glæpasögu sem margir geta ekki verið án yfir jólin og svo bókina um Herra Bóbó. Yrsa hefur áður sent frá sér barnabækur og í raun er það þannig sem hún steig fyrst inn á ritvöllinn. Langt er liðið síðan síðasta barnabók hennar kom út árið 2003, en ég vona að það sé ekki eins langt að bíða eftir næstu.

Læðan og ættbókin

Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin er saga af hinum stórkostlega, ættgöfga ketti Herra Bóbó. Hann heitir það samt ekki í alvöru, heldur heitir hann mörgum nöfnum. Heilli romsu af þeim, sem er satt að segja mjög breytileg. Herra Bóbó býr á heimili með mannfólkinu Elskunni, Ástinni, Maríu og Jónatan. María og Jónatan eru börn Elskunnar og Ástarinnar. Herra Bóbó lætur sig hafa það að búa með mannfólkinu, hann þolir þau ekki, en þau gefa honum að borða og stundum eru þau ágæt. Þegar bráðmyndarleg læða flytur inn í húsið við hliðina á Herra Bóbó verður hann umsvifalaust ástfanginn. Læðan vill þó ekkert með hann hafa! Hún á ættbók, er hreinræktuð og Herra Bóbó er henni ekki samboðinn. Herra Bóbó veit þó að hann er mjög ættgöfugur og konungborinn, þótt hann eigi ekki ættbók. Herra Bóbó og Amelía, músin úr kjallaranum, fara því í gæludýrabúðina til að redda ættbók svo hann geti heillað læðuna í eitt skipti fyrir öll. Hefst þá ævintýri sem er bráðfyndið og skemmtileg en á sama tíma saga af einstakri vináttu.

Myndlýsing á hverri síðu og frábær húmor

Þótt sagan sé nokkuð einföld, þá er hún svo margslungin og bráðfyndin að ég hló margsinnis upphátt. Herra Bóbó er einstaklega uppáfinningarsamur köttur og sýn hans á heiminn er mjög skondin. Hafandi eingöngu lesið hrollvekjandi glæpasögur Yrsu, þá kom þessi beinskeitti, kaldhæðni og bráðfyndi húmor mér mjög í opna skjöldu. Yrsa er orðheppin og gefur Herra Bóbó einstaklega skemmtilega sýn á lífið og tilveruna. Hann til dæmis skilur ekkert í því af hverju María og Jónatan eru ekki farin að vinna fyrir sér, orðin tólf og sjö ára. Hann kann ekki að telja daga, heldur telur máltíðir. Hann er hræðilega dramatískur. En fyrst og fremst er hann ekki manngerður, heldur fær hann að vera köttur með eðli kattar (þótt besta vinkona hans sé reyndar mús, en það eru bara ekki allir kettir sem vilja éta mýs!).

Myndlýsingarnar í bókinni eru í höndum Kristínar Sólar Ólafsdóttur. Teikningarnar eru einfaldar og skemmtilegar og… margar! Það er einhver smámynd á hverri síðu sem dýpkar lestrarupplifunina, skapar eyjur í textahafinu og ýta enn frekar undir það hve bókin er ótrúlega fyndin. Letrið í bókinni er nokkuð smátt og hugsanlega hefði mátt hafa það stærra til að auðvelda lestur á bókinni. Einnig hefði mátt hafa bil á milli málsgreina.

Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin er bráðfyndin bók um merkilegan kött, vináttuna og allt það sem skiptir máli í lífinu. Til dæmis mat. Bókin hentar fyrir alla sem hafa gaman af fyndnum sögum og skemmtilegri sýn á lífið, elska ketti (eða hata þá) og krökkum og fullorðnum frá 8 ára aldri.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...