Bróðir er fjórða skáldsaga Halldórs Armand, gefin út af Forlaginu undir merkjum Máls og Menningar. Bróðir fjallar um systkinin Skorra og Tinnu. Mikill aldursmunur er á systkinunum en þau eru samt sem áður náin, sem má rekja til  þess að móðir þeirra dó frá þeim mjög ung. Í upphafi hittum við höfundinn Hönnu, sem ákveður að skrifa um systkinin vegna hrifningar hennar á þeim. Hún hafði þekkt þau úr menntaskóla og dáðst að þeim báðum úr fjarlægð. Þannig setur Halldór tóninn fyrir söguna eins og hann hefur gert áður í fyrri skáldsögum, það er að segja á þann hátt að það er auðvelt fyrir lesandann að tengja sterkt við tilfinningar, lýsingar og tímabil. Allavega fyrir unga lesendur, en Halldór er eins og áður hefur verið sagt um hann, höfundur sem talar til sinnar kynslóðar. 

 

 

Bróðir, líkt og fyrri skáldsögur Halldórs, er með mjög sterkar vísanir í samtímalega atburði. Aftur og aftur sem kom út árið 2017 var vel strúkteruð í kringum fall tvíburaturnanna. Í Bróðir er sögunni rammað inn í kringum heimsmeistarmótið í fótbolta í suður Frakklandi. Að auki fléttar hann inn í söguna hruni íslensku bankanna, málefnum tengdum innflytjendum og flóttamönnum, litlu samfélagsgerðinni á Íslandi þar sem allir þekkja alla og fyrsta drápi íslensku lögreglunnar með skotvopni. Þarna skín Halldór einmitt best en hann er lúnkinn í því að kryfja samtímann. 

Lagskiptar persónur

Halldór er einnig nokkuð fær í því að afhjúpa persónur á einungis örfáum blaðsíðum, þá sérstaklega aukapersónur sínar. Aðalpersónur eru hinsvegar oft lagskiptari og koma á óvart. Þær breytast eftir tímabilum og taka, að manni finnst, sjálfstæðar ákvarðanir. Skarphéðinn Skorri er titilpersónan og því hverfist öll atburðarrásin um hann, enda er jú bókin víst skrifuð um og fyrir hann. Lesandinn fær að kynnast honum frá mörgum hliðum og fer þar lengst af sagan af því þegar hann lærir að stundum er hægt að taka völdin í eigin hendur. Lexía sem hefur mögulega einum of mikil áhrif á hann og seinni tíma ákvarðanir. Hann er leitandi og týndur, rífst stöðugt við föður sinn og þráir endurlausn. En það er þessi endurlausn sem virðist vera aðalþema bókarinnar. Við mennirnir þráum endurlausn. Skorri þar á meðal, en ákvarðanir sem eru teknar í óðagoti, í ótta og í óvissu geta leitt til þess að eftirsjáin getur skapað svo stórt sár, svo mikla gjá á milli einstaklinga að ekkert getur því bjargað. Endurlausnin fæst kannski aldrei. Og hvar á hana að fá?

Heimspeki og Íslenski draumurinn

Í raun eru það ýmsar heimspekilegar pælingar sem eru í aðalhlutverki í Bróðir. Þar er stiklað á mjög mörgu. Íslenski draumurinn og kapítalískt samfélag er kjarnað í setningum á borð við „Var eitthvað fegurra en tveggja ára gamall Toyota Land Cruiser, glampandi í sólinni á föstudegi? Guð blessi myntkörfuna.” Og hröð breyting á umheiminum og sítengingarsamfélag dagsins með „Við tókum upp myndbönd sem eyddust jafnóðum og þau birtust, til að skapa pláss fyrir eitthvað nýtt, og þannig fannst mér heimurinn allur vera, linnulaus endurnýjun.” Halldór ýtir þannig lesanda oft í umhugsun með vel mótuðum setningum. Skorri er síðan líka mikið í heimspekilegum vangaveltum um málefni líðandi stundar og veltir fyrir sér eigin tilgangi, stöðu og stétt. 

 

Hamlet og tragedían

En það er eitthvað við formið, það jaðrar við óhefðbundið. Persónur fara oft með ljóð upp úr þurru sem brýtur algjörlega upp söguna. Svona tilviljanakenndur flutningur á sonnettum eða hendingum. Ég veit að það eru engar reglur í skáldsögum, og ég gæti samþykkt þetta án umhugsunar, svona eins og þegar einhver brestur í skyndilegan söng í miðjum söngleik og maður syngur bara með. En ég var ekki alveg að kaupa þetta. Ein möguleg útskýring á þessari ákvörðun Halldórs, að spinna inn ljóðum í sögufrásögnina, er að líklega á þetta að vera einhvers konar uppbygging í anda Shakespeare og verkinu Hamlet. Sagan er jú vissulega harmleikur og í fimm þáttum. Aðalsöguhetjan Skorri hittir einnig fyrir draug í þriðja þætti, sem rímar fullkomlega við þá kenningu og vísað er í Hamlet í fjórða þætti. Það er skemmtileg tilvísun eða tenging en þessi ljóð virkuðu samt sem áður hálf klisjukennd eða einum of háfleyg við lesturinn. Í takt við kvæðin verður sagan sjálf einnig torkennilega hádramatísk eftir því sem á líður lesturinn. Raunsæið sem einkennir samtímakryfjun Halldórs brotnar upp fyrir vikið.

 

Á heildina litið er mjög margt skemmtilegt og gott við Bróðir. Þar er að finna margar góðar setningar sem mann langar að lesa aftur, skrifa niður jafnvel. Í raunsæinu og samtímalýsingum er Halldór hvað sterkastur. En eins og áður sagði að þá fær raunsæið því miður að víkja fyrir harmleiknum eftir því sem á líður. Kannski meðvitað, því verkið er jú skáldverk innan skáldverks. Hún er hálf metafýsísk og því gæti maður jafnvel spurt sig hvort að höfundi sé í raun treystandi. 

 

 

 

 

 

Að lokum:  ef einhver táknfræði er á bak við blómin Begóníur, má höfundur endilega senda mér skeyti og ljóstra því upp.

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...