Jólaráðgáta í jólasveinahelli

Nýjasta bókin úr ljósaseríu Bókabeitunnar er jólasagan Stúfur leysir ráðgátu eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur. Stúfur skellir sér í hlutverk rannsakandans eftir að einhver stelur vendinum hennar Grýlu. Og það á sjálfum afmælisdeginum hennar!

Stúfur fær enga hjálp frá bræðrum sínum en tekst að sannfæra Jólaköttinn Sigvalda um að veita sér lið. Hellirinn þar sem jólasveinarnir búa með Grýlu og Leppalúða er eins og risastórt völunarhús eins og sést á skemmtilegri mynd teiknaðri af Blæ Guðmundsdóttur, myndhöfundi bókarinnar. Myndirnar inni í bókinni eru allar í lit sem er stór kostur.

Jólasveinar grunaðir

Táraflóð Grýlu hefur fyllt hellinn og ástandið er orðið mjög slæmt. Stúfur verður að finna vöndinn. Stúfur sendir Jólaköttinn eftir vinkonu sinni, Lóu, sem hefur áður hjálpað honum í vandræðum í bókinni Stúfur hættir að vera jólasveinn sem kom út árið 2019. Þau hefja leitina að vendinum og eru nokkrir bræður Stúfs grunaðir, þar á meðal Kertasníkir og Ketkrókur. Rannsóknin er æsispennandi og leiðir þau um króka og kima jólasveinahellsins.

Bókin er skemmtileg og spennandi jólasaga fyrir börn á aldrinum 5-10 ára en hægt er að lesa hana fyrir börnin fyrir svefninn í desember í aðdraganda jólanna. Og þó, það væri kannski ekki sniðugt þar sem hún er það spennandi að börnin gætu vart sofnað. Texti Evu Rúnar er lifandi og skemmtilegur og styðja myndir Blævar vel við frásögnina en heilsíðu myndirnar standa klárlega upp úr þar sem þær innihalda mörg smáatriði sem er skemmtilegt að rýna í. Bókin hefur þægilegt letur og stutta kafla sem henta börnum sem eru að æfa sig í lestri afar vel. Tilvalin bók í jólapakkann eða í skóinn!

 

 

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...