Tommi Klúður og klúðurhjólið

Barnabækur þar sem aðalpersóna bókarinnar segir frá lífi sínu í dagbókarformi og myndskreytir með spýtuköllum hafa verið gríðarlega vinsælar meðal barna mjög lengi. Skemmst er að nefna bækurnar um Kidda klaufa. Sjálf las ég Dagbók Berts á mínum yngri árum og að einhverju leiti er hægt að setja bækurnar um Kaftein Ofurbrók í þennan flokk líka, sem og bækurnar um Hundmann. Nú er komin á íslenskan markað nýr spýtukall, það er Tommi Klúður í bókinni Tommi Klúður- mistök voru gerð, EDDA gefur út.

Fyrsta bókin um Tomma Klúður eftir Stephan Pastis kom út í Bandaríkjunum árið 2013. Pastist er lögfræðingur í Kaliforníu sem átti sér þann draum stærstan að gerast skopmyndateiknari og sló svo í gegn með skopmyndasögunum Perslur fyrir svín (e. Pearsl before Swine). Hann hefur skrifað sjö bækur um Tomma Klúður og sú síðasta kom út 2018 í Bandaríkjunum. Sæunn Ólafsdóttir þýddi yfir á íslensku og þýðingin er fín, en þó angrar eitthvað við titil bókarinnar mig. Hann er þýddur beint úr ensku – mistakes were made. Þetta er frasi sem mér finnst að ætti ekki normalísera. „Mistök voru gerð“ hljómar eins og frasi frá pólitíkus sem vill ekki gangast við sínum eigin mistökum. Sem er kannski einmitt eitthvað sem Tommi Klúður myndi segja svo sem, en það er samt eitthvað sem angrar mig við titilinn.

Spæjarastofa í blússandi velgengni

Tommi Klúður (áður Kludor) rekur blómlega (hans skoðun) spæjarastofu í smábænum sínum. Samkvæmt Tomma eru margir sem reiða sig á snilli hans og gáfur. Hann stefnir hátt og sækir reglulega um lán hjá mömmu sinni fyrir alls kyns hlutum. Hann kallar það fjárfestingu af hennar hálfu, enda mun spæjarafyrirtækið hans velta milljörðum þegar þar að kemur. Hann er meira að segja kominn með augastað á húsnæði fyrir fyrirhugaðan rekstur. Hann notar reglulega Segway-hjól mömmu sinnar til að komast á milli staða. Mamma hans hefði þó aldrei haft efni á að kaupa svona fínt hjól, heldur vann hún það í happdrætti. Þegar Tommi hefur verið sérstaklega erfiður eða áhyggjurnar þjaka hana fer hún nokkra hringi í kringum hverfið á hjólinu til að pústa.

Bókin er gamansaga af því þegar Tommi týnir Segway-hjólinu, eða Klúðurhjólinu eins og hann kallar það. Þegar hann reynir að leysa sérlega erfitt mál um týnt nammi, er hjólinu stolið fyrir utan heimili kúnnans. Tommi er sannfærður um að hans helsti keppinautur, Hermína Hermína hafi stolið hjólinu. Hefst þá leit Tomma að hjólinu.

Tommi á gæludýrið Algert, Algert Klúður (skemmtileg þýðing!). Algert er ísbjörn, sem á einum tímapunkti í bókinni er sendur í dýragarðinn. Algert er viðskiptafélagi Tomma og algjörlega ómissandi. Þó fannst mér það mjög óljóst hvort Algert væri raunverulegur ísbjörn eða einhvers konar öruggisventill fyrir strák sem á erfitt, eins og bangsi.

Gamansaga með alvarlegu ívafi

Bókin er nokkuð flókin. Átta ára álitsgjafi Lestrarklefans las bókina og hló reglulega mjög hátt þegar hann las hana. Hann endursagði hana líka nokkrum sinnum og hafði augljóslega mjög gaman af lestrinum. Tommi er líka bráðfyndinn karakter og teikningarnar ekki síður ásamt samansafni af skemmtilegum aukapersónum (til dæmis ísbjörninn Algert). En eftir að hafa lesið bókina sjálf sá ég miklu meira í bókinni sem var bara alls ekkert fyndið, heldur hreint út sagt mjög sorglegt.

Í gegnum samskipti Tomma og mömmu hans kemur í ljós að þau eru bláfátæk. Hún finnur sér kærasta sem er langt í frá góður við Tomma. Tommi virðist líka vera með mótþróaþrjóskuröskun og gengur afskaplega illa í skóla. Hann á erfitt með að taka leiðbeiningum og er líklega ekki sá gáfaðasti. Í lok bókarinnar fer svo nýr stjúpfaðir hans ansi illa með hann. Þessu tók ungur lesandi ekki eftir og las úr bókinni eingöngu hið fyndna og skemmtilega.

Myndlýsingarnar í bókinni eru skemmtilegar, en halda sögunni ekki uppi. Pastis hefur rætur í skopmyndateikningu og nýtir sér reynslu sína þaðan. Hann leyfir þó myndunum ekki að segja sögu, eins og ég hefði viljað sjá, heldur eru þær viðauki við textann. Þær eru þó bráðfyndnar og vel til þess fallnar að falla í kramið hjá húmorsþyrstum lesendum.

Heil bók eða hálf?

Ég saknaði þess að hafa ekki samhangandi söguþráð í bókinni. Tommi hoppar oft úr einu í annað, útskýrir einfalda hluti á flókinn hátt, talar í kringum hlutina og lengi framan af fannst mér óljóst hver var tilgangurinn með sögunni. Óþjálfaðir lesendur fá því ekki nema helminginn af sögunni, sem er reyndar fyndni hlutinn. Það var til dæmis mjög óljóst hver það var í raun sem tók Klúðurhjólið. Og það er mjög erfitt að skilja Hermínu Hermínu og hvert hennar hlutverk er í bókinni.

Tommi Klúður er fyndin bók með alvarlegu ívafi, sem er vandlega falið á milli línanna. Það hefði mátt gera boðskap hennar aðgengilegri fyrir yngri lesendur, án þess þó að draga úr húmornum. Bókin hentar mjög vel lesendum á aldrinum 8-13 ára sem eru vel að sér í Kidda klaufa bókunum og hafa gaman af gríni og glensi. Hugsanlega nær bókin að þjálfa lesendur í að lesa á milli línanna og sjá dýpri söguþráð en aðeins þann sem liggur á yfirborðinu.

 

E.S. Eftir lestur bókarinnar gerði ég mér grein fyrir að boginn á milli augna Tomma er ekki munnurinn á honum heldur nefið á honum. Gott að hafa í huga fyrir framtíðar lesendur.

Lestu þetta næst

Stormasamt hjónabandslíf

Stormasamt hjónabandslíf

Gift eftir Tove Ditlevsen er minningarbók sem segir frá hjónabandslífi danska rithöfundarins sem...

Ótrúlegt aðdráttarafl

Ótrúlegt aðdráttarafl

Sú hefð hefur skapast á mínu heimili að enda daginn alltaf á að lesa. Kvöldlestur er hluti af...

Ameríka er líka blekking

Ameríka er líka blekking

Fólk var hneppt í þrældóm frá mismunandi svæðum í Afríku nýlendutímans. Það var flutt í gegnum...

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...