Fjaran eftir flóðið

Nú þegar vel er liðið á janúar mánuð viljum við hjá Lestrarklefanum vekja athygli á þeim bókum sem okkur fannst eiga skilið meiri athygli í jólabókaflóðinu 2020. Það eru alltaf einhverjar bækur sem láta lítið fyrir sér fara en skilja eftir djúp spor í huga lesenda. Pennar Lestrarklefans hafa hér tekið saman nokkrar bækur sem þeim finnst hafa látið of lítið fyrir sér fara.

 

[hr gap=”30″]

 

Skammdegisskuggar eftir Alexander Dan

Skammdegisskuggar er íslenskt furðusagna stórvirki! Bókin er virkilega metnaðarfull og blandar íslenskum sagnaarfi listilega við heim furðunnar. Sagan gerist á Hrímlandi og fjallar um Sæmund og Garúnu sem búa í Reykjavík þessa heims sem er undir stjórn stórveldisins Kalmars. Sæmundur er metnaðarfullur galdramaður sem kemur sér í mikið klandur með drambsemi sinni. Garún er hálf mannvera, hálf huldumanneskja og þarf því að líða mikla fordóma í samfélaginu þar sem hún er talinn blendingur. Sæmundur og Garún eru fyrrverandi kærustupar og fléttast örlög þeirra í bókinni þegar stefnir í uppreisn gegn ríkjandi yfirvaldi.

 

Sjálfstýring eftir Guðrúnu Brjánsdóttur

Sjálfstýring sigraði handritakeppnina Nýjar raddir árið 2020 sem er á vegum Forlagsins. Þar eru efnilegir og nánast óútgefnir höfundar hvattir til að senda inn handrit af nóvellu eða skáldsögu sem er undir 30.000 orð. Guðrún Brjánsdóttir fjallar hér um unga konu sem er nýbyrjuð í íslenskunni í háskólanum og verður fyrir miklu áfalli. Stúlkan er metnaðarfull tónlistarkona og meðal annars þreytir hún inntökupróf í klassískum söng í háskóla í Kaupmannahöfn í bókinni. En áfallið setur strik í reikninginn og hefur mikil áhrif á hennar andlegu líðan. Bókin er einkar vel skrifuð, uppfull af myndmáli sem tengist tónlist og sköpun. Hún er ekki nema tæplega 80 blaðsíður en við lok lesturs vill lesandinn meira.

 

Strendingar eftir Yrsu Þöll

Fjölskyldulíf í sjö töktum er undirtitill bókarinnar Strendingar eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur sem kom út á síðasta ári hjá Bjarti. Bókin er sögð frá sjónarhorni sjö mismunandi fjölskyldumeðlima sem öll kljást við sín vandamál, bæði stór og lítil. „Þetta er heilsteypt og skemmtilega skrifuð bók, raunsæ fjölskyldusaga um dæmigert líf, bæði hæðir og lægðir.  Kynþroski, veikindi, tilvistarkreppa, togstreyta gamals tíma og þess nýja, þessu er öllu fléttað saman svo úr verður áhugaverð lesning sem er brotin upp með ólíkum röddum sögupersóna hverju sinni,“ segir Lilja Magnúsdóttir í umfjöllun sinni um bókina sem mun birtast hér á Lestrarklefanum í vikunni.

 

Hetja eftir Björk Jakobsdóttur

Sagan af hryssunni Hetju er bráðfalleg og heillandi. Hún höfðar kannski mest til hestaáhugafólks, en aðrir ættu alls ekki að láta þessa einlægu og fallegu sögu fram hjá sér fara. Björk skapar ótrúlega sannfærandi persónu í Hetju og samband hennar við Björgu er dásamlega fallegt. Hetja á erindi til allra.

 

 

 

 

Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu

Taugaboð á háspennulínu er fyrsta bók Arndísar Lóu og hlaut Nýræktarstyrk miðstöðvar íslenskra bókmennta sumarið 2020. Bókin er ljóðverk í tveimur hlutum en þar sýnir Arndís mikla næmi á ljóðlistina, fléttar mismunandi þráðum á milli ljóða og tekur lesandann með sér í ferðalag. Fyrsti hluti bókarinnar er sérstaklega vel heppnaður þar sem fjallað er um samskipti, málleysi og tjáningu.

 

 

 

 

Drauma-Dísa eftir Gunnar Theodór Eggertsson

Gunnar Theodór slær botninn í þríleikinn sinn um Dísu með Drauma-DísuAðdáendur Dísu-bókanna ættu alls ekki að láta þessa fram hjá sér fara. Í  bókinni er Dísa horfin og tuttugu og fjögur ár hafa liðið frá lokum síðustu bókar. Björn hefur saknað Dísu sinnar sárt en hefur þó skapað sér nafn með því að skrifa furðusögur um álfkonuna Dísu sem berst við Dermíta í óþekktum heimi. Hugmyndaauðgi Gunnars Theodórs eru engin takmörk sett og sýnir það sig svo sannarlega í þessari bók.

 

 

[hr gap=”30″]

 

Um miðjan febrúar fer fram bókmenntaviðburður á vegum Lestrarklefans sem ber heitið Eftir flóðið þar sem tekin verða viðtöl við höfunda þriggja þessara bóka. Bíðið spennt!

 

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...