Þýddar barna- og unglingabækur eru fremstar allra bóka, bestar og skemmtilegastar. Þetta er hlutlaust mat og byggt á óyggjandi vísindalegri rannsókn. Rannsókn þessi fer fram einu sinni til tvisvar á ári og felst í því að ég fer í fornbókabúð eða í Kolaportið. Niðurstaðan er alltaf sú sama, ég geng út með að minnsta kosti eina þýdda barnabók sem ég fékk lánaða á bókasafninu þegar ég var krakki. Þessar nýkeyptu bækur, ásamt þeim fáu bókum sem lifðu af ýmsa flutninga og álíka sviptivinda í mínu lífi, mynda heildstæðasta, áhugaverðasta og mikilvægasta hlutann í bókakosti heimilis míns. Þetta eru bækurnar sem mótuðu mig og skildu mest eftir og ég verð aldrei fyrir vonbrigðum við þessa endurfundi. Stundum verð ég vissulega dálítið hissa og þarf að endurmeta vissa hluti í æsku minni, eins og til dæmis hvernig stóð á því að ég tók aldrei eftir því sem barn að bækurnar um Nancy Drew eru fullkomlega óskiljanlegar því þær eru svo illa þýddar. En, þetta er svo sannarlega aldrei leiðinlegur lestur.

Spekingur horfir hugsi um öxl

Ef ég hefði verið spurð að því á barnsaldri hvaða bækur mér þættu bestar og skemmtilegastar, þá hefði ég líklega ekki svarað á þessa leið. Það er einungis með þeirri miklu visku og þroska sem ég hef öðlast með árunum sem ég hef náð þessari skýru og vísindalegu sýn. Sem barn las ég og elskaði fjöldamargar íslenskar bækur, hvort sem það voru bækur Guðrúnar Helgadóttur, Magneu frá Kleifum, Ragnheiðar Jónsdóttur eða Þorgríms Þráinssonar. Ég fikraði mig líka fljótt yfir í fullorðinsbækur samhliða barnabókunum, ég held ég hafi fyrst lesið Pella sigursæla þegar ég var níu ára og þegar ég var tólf ára ákvað ég að lesa stóran doðrant sem til var á heimili mínu, því mér fannst óhugnaleg kápan og titillinn Djöflarnir hljóma eitthvað svo spennandi. Ég valdi mér síðan hinar undarlegustu bækur úr hillum fullorðinsdeildarinnar á bókasafninu, til dæmis Manillareipið eftir Veijo Meri. (Lík rússneska hermannsins sem grandar hverjum þeim sem reynir af stela af því stígvélunum er afar eftirminnilegt)

En hin vísindalega aðferð lýgur ekki og barna- og unglingabækurnar eru og verða Bækurnar með stóru B-i í mínu lífi. Ég hef áður lýst óþægilegri upplifun við það að endurlesa gamalt uppáhald og uppgötva hversu djúptæk og rækileg áhrif viðkomandi bók hafði á undirmeðvitundina, því ég hafði beinlínis endurskrifað heila senu úr henni í fyrstu bókinni minni án þess að hafa hugmynd um það. Mín síðasta vísindatilraun endaði á því að færa mér svipaða uppgötvun, þó hún væri kannski ekki alveg jafn sjokkerandi og líklega ekki jafn óvænt heldur. (Þó er auðvitað alltaf auðvelt að vera vitur eftir á)

Niðurstöður nýjustu rannsókna

Afrakstur tilraunarinnar að þessu sinni var hin stórkostlega bók Á flótta með farandleikurum eftir Geoffrey Trease í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Þetta þótti mér töff kápa á sínum tíma, á henni er bæði rjúkandi byssa, lík og maður með rýting á lofti. Líklega þyrfti þó að hanna nýja kápu fyrir hina STÓRNAUÐSYNLEGU endurútgáfu. Þetta var ein af þeim bókum sem ég tók heim af bókasafninu sem pabbi minn las líka og ég man hvað hann hafði gaman af henni. Þetta er bók sem erfitt er að tímasetja snyrtilega, ég hef líklega lesið hana í kringum 1997, Silja Aðalsteinsdóttir las hana fyrst í útvarp árið 1981, hún var skrifuð árið 1940 en gerist seint á 16. öld. Með öðrum orðum tímalaus bók. Á frummálinu heitir hún Cue for Treason, sem ég man að pabbi minn fullyrti að væri flottur titill sem hefði seint gengið upp beinþýddur á íslensku.

Þetta er bók um strák sem rífur niður girðingu aðalsmanns, þarf að leggja á flótta til að bjarga lífi sínu, fær athvarf hjá farandleikurum, hittir Shakespeare, eignast frábæran vin og uppgötvar svo skelfilegt samsæri um að myrða drottninguna. Svo ótrúlega skemmtileg bók sem ég vildi óska að sem flestir gætu lesið, því þarna gengur einhvern veginn allt upp og hún hefur elst mjög vel. Mér finnst dálítið kyndugt að þessi bók hafi komið út í Englandi í miðju stríðinu, því hún er svo víðs fjarri því. En kannski var það einmitt það sem höfundurinn vildi færa börnum? Í öllu falli er ég mjög þakklát fyrir það að þessari sögu hafi skolað hingað á land í þýðingu 40 árum eftir að hún kom út í heimalandinu, og að blessað bókasafnið skuli hafa passað upp á hana fyrir mig þar til ég var fædd og orðin læs. Því án þess að hafa lesið þessa bók er ég ekki viss um að seinni bókin mín hefði orðið til, í það minnsta hefði hún litið töluvert öðruvísi út.

Og kannski er það hluti þess sem heillar mig við þýddar barnabækur, það hvað þær eru eitthvað tímalausar. Það er eitthvað eilíft og óhagganlegt við þær. Þó þær gerist ekki endilega í Englandi á 16. öld, þá koma þær úr veruleika sem er okkur undir öllum kringumstæðum framandi, jafnvel þegar þær eiga upprunalega að fjalla um samtíma sinn fyrir börn í sínu heimalandi. Það er einhver innbyggður framandleiki við þær, og sá framandleiki má oft við því að eldast um nokkur ár.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...