Tregafull og draumkennd ljóðabók

Yndislegt er að lesa ljóð þegar vorilmurinn er í lofti. Ný ljóðabók eftir Margréti Lóu Jónsdóttur kom út hjá Máli og menningu á fyrstu mánuðum ársins en er þetta ellefta ljóðabók hennar. Draumasafnarar heillar augað strax með fallegri kápu úr smiðju Höllu Siggu.

Ljóðabókinni er skipt í þrjá hluta sem tengjast allir inn á milli, Allt sem lifir deyr, Vegurinn framundan og Draumasafnarar.

„Völt er veraldarblíðan“

Í fyrsta ljóði bókarinnar er tónninn settur. Ljóðið er fallegt og friðsælt, maður heimsækir ljóðmælanda í draumi: „Á sólríkum dögum lögðumst við í grasið og söfnuðum skýjamyndum.“ (9) Í lok ljóðs kemur þó í ljós að „Allan tímann vissi ég samt að þú værir dáinn.“ (9) Ljóðmælandi veltir fyrir sér dauðanum, smáatriðum hversdagsleikans og einmanaleikanum. Í einu ljóðinu kemst ljóðmælandi að þeirri niðurstöðu að „völt er veraldarblíðan.“ (12)

Í samnefndu lokaljóði fyrsta hlutans sjáum við færni höfundar við persónugervingu og að draga upp myndríkar ljóðlínur úr náttúrunni: „Tregasöngur gufu sem stígur upp úr hver / meðan sólin þrýstir glóandi tungubroddi ofan í gjótu / við dönsum kringum sjálf okkur einsog skýhnoðrar í golu / holdi klæddur ófullkomleiki undir margföldu lagi af umbúðum / allt sem lifir deyr“. (16)

Pílagrímsganga ljóðmælanda

Vegurinn framundan er samstandandi bálkur, ljóðin hafa ekki lengur titla heldur tengjast frá blaðsíðu til blaðsíðu. Ljóðmælandi leggur í pílagrímsgöngu „í hitamollu og dumbungi.“ (21) Fyrir koma „áttavilltur vitavörður“, „Skipstjóri sem er nýbúinn að missa konuna sína“ og íkorni „sem flytur inn í hægra heilahvel“ ljóðmælanda. Kvíði og sorg fylgir ljóðmælanda og einkennir ljóðabálkinn: „Sorg blandast kvíða. – Þú gerðir alltaf þitt besta hvíslar spegilmyndin. Hvað annað getur hún sagt?“ (25) En á göngunni leitar ljóðmælandi að sátt, „Vegurinn framundan þylur Maríubænir á öllum heimsins tungumálum.“

Áttavillti vitavörðurinn verður elskhugi og yrkisefni: „Hann er strönd í landi / sem ég hef aldrei áður / heimsótt.“ (27) Ljóðmælandi er fastur í fortíðinni, hugsar um þá sem deyja, gefur sig á band nýjum upplifunum og umhverfi. Í lok annars hluta virðist einhverri sátt náð: „Með ósýnilegri exi / hegg ég af mér álagaham. // Tár, rigning og sviti / renna niður bringuna.“ (39)

„Minningabrautir hugans“

Í þriðja hluta gegnir veiran góðkunna hlutverki, heimsfaraldur geisir og ljóðmælandi ferðast innanhúss: „Forstofuspegill býður upp á ferðalag aftur í tímann“. (44) Ljóðmælandi rifjar upp líf náins aðila sem hefur veikst af annarskonar veiru og fallið frá. Aðilinn fer augljóslega sínar eigin leiðir og er uppátækjasamur: „Þú þráðir að flytja til strandbæjar og fá þér sundskýlu með hlébarðamynstri. / Keyptir þér kristalskúlu og hárkollu og þóttist vera spákona til að safna þér fyrir utanlandsferð.“ (46) Ljóðmælandi gengur í gegnum sorgarferli, á endanum er það alltaf dauðinn sem tekur okkur en: „Minning þín lifir. / Í ljóði hafsins / hljómar hlátur / á milli lína.“ (55)

 

Draumasafnarar er tregafull ljóðabók þar sem ljóðmælandi gerir upp tilfinningar sínar gagnvart þeim sem hafa kvatt þennan heim. Bókin er myndræn og draumkennd og skapar Margrét Lóa heildstætt verk, eða ferðalag, með þessum þremur hlutum. Minningar og endurlit einkenna ljóðin en einnig nýjar upplifanir og litríkar persónur. Ljóðabókin hentar vel fyrir rólegt kvöld þegar angruværð færist yfir lesanda.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...