Ungur svikahrappur, stéttarbarátta og ostafyllur

Fyrsta bók ársins í áskriftarseríu Angústúru er Ef við værum á venjulegum stað eftir Juan Pablo Villalobos í þýðingu Jón Halls Stefánssonar. Serían hefur nú skapað sér ákveðin sess í íslenskri bókmenntasenu og eru margir sem bíða í ofvæni eftir hverri bók. Bækurnar eru listilega vel valdar og opna ávallt nýjan og ferskan glugga inn í aðra menningarheima en okkar eigin.

Veisla í greninu eftir sama höfund kom út árið 2017 sem fyrsta bók áskriftarseríunnar og voru margir lesendur stórhrifnir af þessari fyrstu bók Villalobos. Ef við værum á venjulegum stað er önnur bók hans og tekur lesandann á svipaðar slóðir. Þessar bækur eiga margt sameiginlegt þrátt fyrir að vera ólíkar: sögumannsröddin er barnungur drengur, þær eru í nóvellulengd og fjalla um mexíkóskt samfélag. Í Veislu í greninu fær lesandinn að kynnast heimi sonar eiturlyfjabaróns en í þetta sinn er lágstéttin til umfjöllunar.

Óreó hinn ungi hugsuður

Við kynnumst Óreó, eða Orestes, sem er ungur drengur sem býr í borginni Lagos de Moreno í Mexíkó með foreldrum sínum og heilum sex systkinum. Þau öll heita grískum nöfnum vegna furðulegrar þráhyggju föður þeirra gagnvart Grikklandi. Upphaf bókarinnar hverfist um uppreisn sem veltur af stað í borginni en fjölskyldan horfir á óeirðirnar úr góðri fjarlægð það sem þau búa á hæð stuttu frá borginni í hálfgerðum skókassa. Faðirinn hafði tekið landið ólöglega og byggt ótraust hús þar sem fjölskyldan borðar ostafyllur (sp. Quesadillas) hvert kvöld.

Eftir uppreisnina týnast yngstu bræður Óreó, skröktvíburarnir Kastor og Pollux (þeir voru ekkert líkir) í fyrstu búðarferð fjölskyldunnar eftir hálfgerða hungursneið vegna óeirðanna. Í framhaldi fylgjum við Óreó og ferðalagi hans þar sem hann áttar sig á fátæktinni og hlutverki sínu, bæði innan fjölskyldunnar og samfélagsins.

Fátækt, svik og ostafyllur

Meginþema bókarinnar má segja að sé fátækt og stéttarbarátta. Óreó gerir sér grein fyrir að fjölskylda hans sé fátæk og finnur lausnir með sinni barnslegu rökhugsun til að upphefja fjölskylduna til millistéttarinnar. Eftir hvarf skröktvíburanna er allt í einu meiri matur til á heimilinu og þar með kemst hann að þeirri niðurstöðu að ef hann ætti færri systkini væri til meiri matur og þar með meiri peningur. Foreldrar hans neita því að þau séu fátæk:

„Það sama sagði pabbi þegar ég ætlaði að fá staðfestingu á því að mamma segði ósatt og spurði hann hvort við værum fátæklingar eða millistéttarfólk. Hann sagði mér að peningar skiptu ekki máli, að það sem skipti máli væri að halda virðingu sinni. Staðfest: Við erum fátæk.“ (bls. 37)

Rík pólsk fjölskylda byggir gífurlega stórt, tíu herbergja hús við hlið skókassans á hæðinni. Þar kynnist Óreó í fyrsta skipti heimi ríka fólksins þegar sonurinn Jarek vingast við hann. Þar áttar hann sig á því að ríka fólkið hefur ákveðið „stéttarsamviskubit“ (bls. 51) sem felst meðal annars í því að honum er gefinn matur í hvert sinn sem hann kemur í heimsókn. Þessi vinskapur leiðir þó til þess að Óreó er kastað í fangelsi og fjölskyldan missir heimili sitt: „Ríka fólkið var eins og Guð, það kreppir að en kyrkir ekki…“ (bls. 136)

Stóri bróðir Óreós, Aristóteles, gegnir stóru hlutverki í bókinni en Villalobos vinnur með tengingarnar við nöfn barnanna og gríska goðafræði og miðað við það ætti Aristóteles hafa þvílíka mælskuhæfileika en hefur þá í raun ekki. Þeir bræður leggja í leiðangur í leit að skröktvíburunum og enda báðir á götunni í lengri tíma. Þar gerist Óreó svikahrappur til að verða sér út um mat, dásamlegu ostafyllurnar, með því að þykast laga raftæki sem eru í raun ekki biluð:

„Og þökk sé útsjónarsemi minni snæddi ég ókeypist ostafyllur á sóðalegum matsölustöðum, í sölubásum með fráleitu byggingarlagi. Ég þróaði með mér hárfínt næmi á hvar bestu ostafyllurnar voru í boði, verðbólguostafyllurnar, sem á götunni voru kallaðar ostafyllur á næstsíðasta séns.“ (bls. 83)

Gengisfellingarostafyllur, fátæktrarostafyllur, ó ostafyllur!

Þá kemur að einu gagnrýni minni varðandi þýðingu bókarinnar. Orðið ostafyllur á sér ekki hefð hér á Íslandi en veitingastaðir bjóða yfirleitt upp á quesadillas og halda því í spænska heiti réttarins. Ég var meirihluta bókarinnar að reyna að átta mig á því hverskonar matur þessar ostafyllur voru en þær eru nefndar ótal sinnum. Kemur svo í ljós í lok lesturs þegar ég les þakkir höfundarins að þetta er uppáhalds matur undirritaðar, áðurnefndar quesadillas. Quesadillas gegna í raun svo stóru hlutverki í bókinni að titill ensku þýðingu bókarinnar er einfaldlega Quesadillas, enda er Ef við værum á venjulegum stað frekar óþjáll titill. Þýðing á orðinu quesadillas hefur líklega verið mikill höfuðverkur þýðandans og hef ég í raun enga betri lausn upp á að bjóða. Orðið er notað svo oft í samsetningu við önnur orð eins og við sáum í tilvitnuninni hér fyrir ofan, verðbólguostafyllur, en verðbólguquesadillas hefði ekki verið fallegt í texta. Eins og ég segi hef ég enga lausn á þessu máli en hefði viljað að svo mikilvægt fyrirbæri í bókinni hefði komist betur til skila.

 

Ég var virkilega hrifin af Veislu í greninu og var því með miklar væntingar fyrir þessari bók, sem gerði henni í raun enga greiða. Eftir greiningu mína á bókinni sé ég þó að ég hef mikið um hana að segja en ég naut lesturins ekki sérstaklega mikið, frásögnin var örlítið sundurleit og sögumannsröddin ekki jafn hrífandi og í Veislu í greninu. Villalobos náði mér ekki í þetta sinn en umfjöllunarefnið og sögusviðið finnst mér virkilega áhugavert og myndi lesa meira eftir sama höfund.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....