Epísk saga fjölskyldu og Chile

Yfir höfin er nýjasta bók skáldskapargyðjunnar Isabel Allende. Bókin kom fyrst út árið 2019 en var gefin út í íslenskri þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur á síðasta ári. Um er að ræða eina af bestu bókum úr smiðju Allende á þessari öld. Í þessari sögu segir hún sögu sem spannar stærsta hluta 20. aldarinnar og blandar saman skáldskap og sögulegum atburðum á átakalausan hátt eins og henni einni er lagi líkt.

Flúið til Chile

Yfir höfin hefst á Spáni í lok borgarstyrjaldarinnar árið 1939. Victor Dalmau er þá læknanemi sem hefur séð fleiri dauðsföll sem starfandi herlæknir en flestir læknar sjá yfir líftímann. Þegar ljóst er í hvað stefnir þegar fasistar ná völdum á Spáni neyðast þúsundir til að flýja til Frakklands og þeirra á meðal eru Victor og Roser barnshafandi ekkja bróður hans, sem féll á vígsstöðum. Þau neyðast til að ganga í hjónaband þrátt fyrir að milli þeirra ríki eingöngu vinskapur og örlögin leiða þau til Chile um borð á skipi fullu af flóttafólki frá Spáni.

Allt í heiminum er fallvalt

Þegar til Chile er komið ná Victor og Roser að lifa eðlilegu lífi meðan styrjöld geisar í Evrópu. Ekki líður þó á löngu þar til sprungur fara að myndast í hinu afturhaldssama og stéttskipta samfélagi í Chile og þaðan þurfa margir af flóttamönnunum frá Spáni að flýja á ný þegar herinn tekur völdin í upphafi áttunda áratugarins.

Ég er forfallin aðdáandi skrifa Isabel Allende, enda fáir sem eru jafn miklir sagnameistarar. Við hjá Lestrarklefanum höfum fjallað áður um sígildar bækur hennar, til að mynda Hús andanna en meira að segja bestu höfundar geta sent frá sér sögur sem missa mark sitt og tek ég undir með henni Ragnhildi að ég var ekki ýkja hrifinn af síðustu bók Allende sem ég las á undan þessari, Að vetrarlagi. Í þessari nýjustu skáldsögu nær Allende sér hins vegar á strik aftur og fyllir 360 síður með epískri frásögn sem margir höfundar hefðu þurft tvöfalt fleiri síður fyrir.

Raunsæ saga

Ég hef notið þess sem lesandi að kynnast menningu Chile í bókum Allende en í þessari sögu fékk ég einnig innsýn inn í uppgang fasismans á Spáni og afleiðingar þess fyrir þúsundir manna. Ég viðurkenni fúslega að hafa vitað allt of lítið um þetta áður en ég hóf lestur en naut þess að fræðast um heimssöguna í gegnum mjög raunsæja sögu tveggja einstaklinga á flótta.

Yfir höfin býður lesendum í kærkomið ferðalag bæði í gegnum söguna og til tveggja heimsálfa. Þetta er aðgengileg bók en þó með mjög fræðandi innihaldi og sögulegu ívafi. Það er miklu pakkað inn í textann, og maður er smá stund að átta sig á öllum sögupersónum, en eftir því sem líður á bókina dýpkar persónusköpunin og maður nýtur þess að lesa þessa epísku fjölskyldusögu.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...