Eftir að ég las Hreinsun (Puhdistus, 2008) eftir Sofi Oksanen hef ég spænt í mig nánast allt sem finnsk-eistneski rithöfundurinn Sofi Oksanen hefur skrifað og gefið frá sér og ég beðið í eftirvæntingu eftir nýjum titlum.

 

Hundagerðið (Koirapuisto, 2019) veldur alls ekki vonbrigðum, en ég er komin með nokkuð háar væntingar þegar Oksanen er annars vegar. Það skemmtilega við Oksanen er hvað hún dregur mig blákalt inn í heima sem eru mér gjörsamlega framandi. Allar bækurnar hennar hafa virkilega áhugaverðan og margslunginn en einnig kaldan, raunsæjan og grimman söguheim. Hún hefur einstakt lag á að setja hluti og fólk í nýtt samhengi. Flestar bækur hennar fjalla um líf kvenna sem eru á mörkum austurs og vesturs að einhverju leyti, þær lifa flestar mikla umbreytingartíma sem hafa djúpstæð áhrif á þær að einhverju leyti. Hundagerðið er ádeila á stéttaskiptingu og fjallar um líf tveggja kvenna sem byrja að braska í sölu á eigin líkama, eða nánar tiltekið í eggjum sínum eða jafnvel legi, fyrir fólk sem býður fúlgur fjár fyrir drauminn um barn. Verkið er einnig ádeila á slíkt brask, á frjósemisviðskipti, og hér sjáum við hina hliðina á teningnum en það er ekki endilega allt sem sýnist á yfirborðinu. Oksanen sviptir hulunni af málefnum sem hafa ekki endilega fengið hljómgrunn eða ekki nógu dreifða rödd. Það er Erla E. Völudóttir sem þýðir söguna úr finnsku.

Andstæður kallast á

Sagan hefst í Helsinki í Finnlandi, þar sem tvær konur sitja á bekk í almenningsgarði og fylgjast með fallegri kjarnafjölskyldu leika við hund sinn. Sagan teygir sig síðan aftur í tímann til Úkraínu og sagt er frá ástæðu gægjuhneigðar kvennanna. Þannig fléttast nútímaleg borg Helsinki við Úkraínu eftir Sovíet árin. Fléttan heldur áfram inn á spillingu og hugsjónir tækifærissinna í austrinu og hvernig þeir nýta sér græðgi og blint auga vestursins sér til uppgangs.  Þetta er saga um hvernig kvenlíkaminn getur orðið söluvara og hvernig siðferðiskenndin er oft bæld niður vegna eigin hagsmuna og draumóra. Sagan er samræða milli andstæðupara og Oksanen sýnir vel hve lífið litast af litrófinu. Það er ekkert á svörtu eða hvítu. 

Hálfgerð spennusaga

Sagan er hröð og hæg til skiptis. Stundum er eins og lesandi sé staddur í spennusögu þar sem sífellt nýjar og nýjar upplýsingar eða leyndarmál krauma upp á yfirborðið. Lesandinn fær í raun smám saman fleiri bita í púsluspilið með hverjum kafla, sem myndar  síðan heildarfrásögnina. Sagan er raunsæ en inn í valdaójafnvægið fléttast mannlegar tilfinningar, vinátta, brostnar vonir og væntumþykja. 

Sagan á erindi við alla og mæli ég eindregið með verkum eftir Sofi Oksanen.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.