Lygatréð eftir Frances Hardinge er ævintýraleg ungmennabók sem kom út hjá Partusi núna í sumar. Alltaf finnst mér jafn gleðilegt að sjá svona spennandi titla fyrir þennan lesendahóp koma út.

Bókin fjallar um hina fjórtán ára Faith en hún og fjölskylda hennar flýja til eyjarinnar Vane vegna orðróms sem hefur svert orðspor fjölskylduföðurins, Séra Erasmus Sunderly. Hann var vel metinn náttúruvísindamaður og háttsettur í samfélaginu en Faith er skörp og forvitin stúlka sem leggur í veigamikla sannleiksleit eftir að hún uppgötvar að faðir hennar er á barmi sturlunar. Hún uppgötvar plöntu sem faðir hennar eyddi miklu púðri í að fela fyrir heiminum. Hver er tilgangur þessarar plöntu og af hverju virðist hún þrífast aðeins á lygum? Þetta er hluti af þeim spurningum sem sækja á Faith eftir að faðir hennar deyr á dularfullan hátt.

Hlutverk ungra stúlkna

Í upphafi bókar kemur fljótlega kemur í ljós að Faith er klár og eftirtektarsöm stúlka sem er ekki ánægð með sína stöðu innan fjölskyldunnar og samfélagsins. Þekkingarleitin er árátta: „Þessi árátta var eins og hungur sem bjó innra með henni. Stúlkur áttu ekki að vera hungraðar, þær nörtuðu fínlega í matinn sinn og létu sér nægja innantómt léttmeti fyrir hugann. […] En þetta var ekki nóg fyrir Faith. Öll þekking höfðaði til hennar og það var sætur eiturblandinn unaður að stelast í hana þegar enginn sá til.“ (bls. 16) Bókin gerist á Viktoríutímabilinu í Bretlandi þegar það var óásættanlegt var fyrir ungar dömur að haga sér á annan hátt en samfélagið krafðist af þeim.

Faith blandast inn í furðulega atburðarrás sem virðist knúin áfram af karlkyns persónunum bókarinnar, föður hennar, bróður mömmu hennar og nokkurra karla sem sinna fornleifauppgreftri á eyjunni. Faðir Faith hafði verið kallaður til að aðstoða við uppgröftinn en fellur fljótlega frá á dularfullan hátt. Íbúar eyjarinnar eru sannfærðir um að hann hafi fyrirfarið sér, sem á þessum tíma var ófyrirgefanleg synd og var fjölskyldunni meinað að jarða hann í kirkjugarðinum. Rannsókn á láti hans hefst og Faith eyðir hverri stund í að sanna að faðir hennar hafi ekki framið sjálfsvíg, heldur hafi verið myrtur vegna lygatrésins. Söguþráðurinn minnir á dularfulla og ævintýralega spennusögu sem kemur lesandanum á óvart í lokin þegar hið sanna kemur í ljós.

Góð eða vond stúlka?

Faith er í stöðugri baráttu innra með sér um hvort hún sé góð eða ill. Í uppeldi hennar hefur hún fengið ákveðinn stimpil: „Góða stúlkan Faith, bjargið trausta, áreiðanleg, litlaus og trygg.“ (bls. 16) Og hún má ekki bregða undan þessu tiltekna hlutverki, hún er verndari litla bróður síns, Howard, einkasonarins sem er augljóslega mun mikilvægari en hún og hún gerir sér fullkomlega grein fyrir því. Það kemur skýrt í ljós þegar ákveða þarf hvað eigi að taka af ferðavagni í hellidembu þegar fjölskyldan kemur fyrst til Vane. Ekki er það eitthvað af búslóð fjölskyldunnar líkt og kassi með „ýmsum afklippum“, nei, það er Faith sjálf sem er skilinn eftir úti í rigningunni: „Hún vissi vel að staða hennar var lægri en Howards, hann var jú gimsteinninn, sonurinn sjálfur. En nú var henni jafnframt ljóst að hún var minna virði en ,ýmsar afklippur’“. (bls. 28)

Alltaf þegar Faith missir út úr sér við eldri karlmann eitthvað sem gefur í skyn að hún sé klár, þarf hún að malda í móinn og hylma yfir þekkingu sína, líkt og í samtali hennar við lækni eyjarinnar, sem hefur gert rannsókn á ummáli höfuðs karla og kvenna, og fengið þá niðurstöðu að konur séu með minni heila en karlmenn: „Hann hafði verið alsæll að hlusta á eigin útskýringar og hún hafði eyðilagt fyrir honum með því að vita of mikið.“ (bls. 78) Faith er mjög meðvituð um sitt hlutverk í samfélaginu og áttar sig á því þegar hennar hegðun er óviðeigandi, „Hér stóð maður og talaði við hana um vísindi, og ef hún kæmi upp um eigin vitneskju, þá mundi hann undireins þagna.“ (bls. 78)

Vegna þessa skilaboða í uppeldinu, og skýrar reglur um hlutverk kvenmannsins í samfélaginu, heldur Faith að hún sé afbrigðileg því að hún sættir sig ekki við að vera þessi undirgefna og heilalausa dóttir sem allir búast við að hún sé. Þar sem hugsanir hennar ganga gegn þessu fyrirframgefna hlutverki heldur hún að hún sé vond manneskja, viðundur: „Lítill kvenheili, sem of miklu hefur verið troðið í. Kannski það sé það sem er að mér. Kannski er það þess vegna sem ég get ekki hætt að laumast og njósna.“ (bls. 86)

Faith hefur óbeit á móður sinni þar sem hún sér að móðir sín nýtir sér fegurð sína og persónutöfra til að fá sínu framgengt. En móðir hennar er klár og hefur áttað sig á því að svona kemur hún sér og fjölskyldu sinni áfram í heiminum, með því að beita brögðum og daðra við karlmennina sem eru við stjórnvölinn þegar faðir Faith sér ekki til. Móðir Faith nýtur það litla vald sem hún hefur sem kona. Ást Faith á föður sínum er óskekjanleg í upphafi bókar en heimsmynd hennar hrynur þegar hún áttar sig á því að hann átti sín leyndarmál og var alls ekki þessi fullkomna fyrirmynd í einu og öllu sem hún hélt að hann væri.

Allur pakkinn

Bókin slær margar flugur í einu höggi, hún er í senn spennusaga, ævintýri, þroskasaga og femínísk skáldaga sem varpar ljósi á bága stöðu kvenna á þessum tíma. Þetta er bók sem ég hefði viljað lesa þegar ég var þrettán ára því hún er allur pakkinn! Lygatréð inniheldur sterk femínísk skilaboð og mikilvægt er fyrir ungar stúlkur og drengi að sjá þessar sterku birtingamyndir kvenna sem finna má í bókinni, þá sérstaklega Faith. Söguþráðurinn, persónusköpunin og skilaboðin eru virkilega vönduð og þýðing Dýrleifar Bjarnadóttur frábær. Ég mun ota þessari bók af öllum unglingunum í kringum mig og ævintýraþyrstum lesendum á öllum aldri.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...